Innlent

Falun Gong mótmælir við sendiráð

Íslenskir Falun Gong iðkendur efndu til mótmæla við Kínverska sendiráðið nú fyrir hádegið. Þeir segja að mótmælin tengist ekki opinberri heimsókn Wang Zhaoguo, varaforseta kínverska þingsins, sem hófst í dag.

Enda þótt Falun Gong liðar hafi lýst því yfir að þeir væru ekki að mótmæla heimsókninni, segjast forsvarsmenn þeirra að þeir hafi viljað nota tækifærið til að minna á að enn fari fram ofsóknir á hendur saklausu fólki í Kína. Þeir vilji skora á kínverska ráðamenn að draga ábyrgðarmenn þeirra mannréttindabrota fyrir dóm. Mótmælin fóru friðsamlega fram, einsog til stóð.

Nokkur hundruð Íslendingar hafa lært Falun Gong iðkun, en virkir þátttakendur eru þó mun færri eða um tugur manna, sem tók sér stöðu við kínverska sendiráðið í morgun. Í dag verður varaforseti kínverska þingsins í opinberri heimsókn á Íslandi í boði Halldórs Blöndals, forseta Alþingis.

Í för með Wang Zhaoguo verða fjórir þingmenn og starfsmenn kínverska þingsins og kínverska utanríkisráðuneytisins. Varaforseti kínverska þingsins mun eiga fundi með forseta Alþingis, formanni utanríkismálanefndar og fulltrúum þingflokka. Hann mun einnig ræða við Ólaf Ragnar Grímsson forseta og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Kínverski varaforsetinn mun fara í skoðunarferð um Reykjavík og Suðurland og meðal annars heimsækja Þingvelli og Nesjavelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×