Innlent

Skóflustungur teknar að álveri

Það eru forréttindi stjórnmálamanna að sjá drauma rætast, sagði Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra þegar hún tók fyrstu skóflustunguna að álveri í Reyðarfirði í dag. Mótmælendur telja framkvæmdunum þröngvað upp á þjóðina og segja erlent verktakafyrirtæki vafasamt. Spyrjum að leikslokum, segir fulltrúi þess. Það var fjölmenni í blíðviðrinu fyrir austan í dag: fulltrúar ríkis, Fjarðabyggðar, eigenda álversins og verktaka. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Fjarðaáls, dótturfélags Alcoa, sagði þetta verða íslenskt fyrirtæki með íslenska starfsmenn en gert er ráð fyrir um 750 framtíðarstörfum á Austurlandi vegna álversins. Allt að átján hundruð starfsmenn verða við hámark framkvæmdanna árið 2006. Í kjölfar skóflustungnanna fjögurra í dag hefst jarðvegsvinna sem stendur fram á næsta vor en þá verða kerskálarnir tveir steyptir og stefnt er því að framleiðsla hefjist í apríl 2007. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra sagði draum vera að rætast og flutti sérstaka kveðju frá Halldóri Ásgrímssyni, sem hóf máls á stóriðju fyrir austan á þingi sambands sveitarfélaga á Austurlandi 1997, en þá var Halldór fyrsti þingmaður Austurlands. Hún segir ekki vera langt síðan Norsk Hydro ákvað að fara ekki í þessa framkvæmd, eins og til stóð, en í kjölfarið náðist samkomulag við Alcoa. Engu að síður sé langt síðan Austfirðingar fóru að hugsa til þess að áhugavert væri að nýta orkufall vatnanna á svæðinu.    Þótt Valgerður hrósi happi yfir erlendum samstarfsaðilum eru ekki allir landsmenn sáttir við verktakafyrirtækið Bechtel. Hanna Steinunn Þorleifsdóttir, fulltrúi samtakanna Náttúruvaktarinnar, segir fyrirtækið bendlað við óskemmtileg mál úti í heimi og samtökin vilji því ekki bjóða það velkomið hingað til lands. Til viðbótar við mótmæli Náttúruvaktarinnar í Reyðarfirði í dag voru þögul mótmæli á Kárahnjúkum í hádeginu. Andrew C. Greig, yfirmaður hjá Bechtel sem byggir álverið í samstarfi við íslenska verktaka, vill ekki svara með beinum hætti ásökunum Náttúruvaktarinnar. Ásakanirnar eru annars vegar þær að fyrirtækið hafi hækkað verð á neysluvatni í Bólivíu eftir aðkomu að vatnsveitu þar, og hins vegar um að Bechtel sé bendlað við efnavopn í Írak þar sem fyrirtækið kemur að uppbyggingu. Hann segir Bechtel vinna að uppbyggingu í Írak og það sé göfugt starf. Samfélagið muni meta fyrirtækið að verðleikum eftir nokkur ár og Greig biður mótmælendur um að dæma Bechtel af verkum þess. Það er rífandi uppgangur á svæðinu; fasteignaverð hefur hækkað um 50-60%, á annað hundrað íbúðir eru í byggingu og þessu þakkar Guðmundur Bjarnaon, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, álverinu. Hann segir gríðarlega „sprengingu“ eftir að eiga sér stað á næstu tveimur árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×