Innlent

Vilja tryggja sjómannafslátt

Kjaraviðræður Sjómannafélags Reykjavíkur, vegna háseta Hafrannsóknarstofnunarinnar og fjármálaráðuneytisins eru í uppnámi. Samninganefnd sjómannafélagsins vill að sett verði inn ákvæði um að samningurinn renni sjálfkrafa út eða að sjómannafélagið geti rift honum formlega hreyfi fjármálaráðherra við sjómannaafslættinum. Jónas Garðarsson, formaður Sjómannafélags Reykjavíkur, segir að náist ekki samkomulag verði vinnustöðvun boðuð. "Fjármálaráðherra hefur lýst því í blöðum og sjónvarpi að þetta eigi að vera samningsatriði milli sjómanna og útgerðamanna. Nú er fjármálaráðherra útgerðamaðurinn í þessu tilfelli," segir Jónas og bendir á að útgerð hafrannsóknarskipa og varðskipa heyri undir fjármálaráðuneytið.  "Við erum nokkuð hræddir um að gera kjarasamning til 2008 þar sem að við eigum það á hættu að karlarnir gætu hugsanlega verið skertir um stóran hluta af laununum sínum." Jónas segir sjómannaaflsáttinn vera 749 krónur á dag. Verði hann afnuminn sé kjaraskerðingin mikil eða allt að 273 þúsund krónum á ári. Engin svör fengust frá fjármálaráðuneytinu og aðilar samningnefndar þess vildu ekki tjá sig. Samninganefndir funda hjá Ríkissáttasemjara á miðvikudag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×