Lífið

Stelpurnar í E&E crew

Plötusnúðarnir E&E crew hafa verið að gera það gott á Pravda Barnum að undanförnu. "Við höfum verið að spila þarna hverja helgi síðan Dóra Takefusa og Magga Rós tóku við Barnum," segir Ellen Loftsdóttir en hún er annar helmingur tvíeykisins E&E crew auk Ernu Bergmann. "Dóra frétti að við hefðum verið að spila í partíum í heimahúsum og hana langaði að gefa stelpuplötusnúðum tækifæri. Það er eins og plötusnúðastarfið hafi verið strákaverk fyrir nokkrum árum og enn eru bara örfáar stelpur að vinna við þetta. Þegar við vorum yngri reyndum við að fá að spila í félagsmiðstöðvunum með því að troða okkur inn á strákana og ef vel heppnaðist leyfðu þeir okkur að spila í svona fimm mínútur af kvöldinu. Stelpurnar eru oftast í meirihluta á dansgólfinu og því mætti vera algengara að stelpur sjái um að velja tónlistina." Ellen segir E&E crew hafa breiðan tónlistarsmekk. "Við spilum skemmtilega partítónlist sem kemur okkur í gott skap. Tónlistin er aðallega hip hop, r&b, soul og rokk," segir Ellen en spurst hefur út að plötusnúðatvíeykið sleppi fram af sér beislinu á skemmtikvöldum. "Við dönsum mikið og hoppum og skoppum í takt við tónlistina. Þetta er besta starf í heimi, því þarna fáum við að skemmta okkur, vera með vinunum og ráða tónlistinni sjálfar." Og aðspurð um hvort stelpuplötusnúðar spila öðruvísi tónlist en strákar segir Ellen. "Við spilum líklega svipaða tónlist og strákarnir en tökum þó eitt og eitt lag sem strákarnir myndu aldrei spila."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.