Innlent

Enginn þrýstingur vegna hvalveiða

Bandaríska viðskiptaráðuneytið telur Íslendinga grafa undan verndarstefnu Alþjóða hvalveiðiráðsins með hvalveiðum í vísindaskyni. Bandarísk stjórnvöld ætla ekki að beita Íslendinga pólitískum þrýstingi til að fá þá ofan af því að veiða hvali. George Bush, forseti Bandaríkjanna, sendi þinginu bréf í gær þar sem hann segir meðal annars að ekki sé talið vænlegt að beita efnahagslegum þvingunum til að knýja Íslendinga til að hætta við vísindaveiðar. Reynt verði að fara samningaleiðina en sú stefna verði endurskoðuð ef þörf krefur. Viðskiptaráðherra Bandaríkjanna, Donald Evans, mælti fyrir nokkru með innflutningshömlum til að refsa Íslendingum fyrir veiðarnar og sagði af því tilefni að óþarfi væri að drepa hvali til að rannsaka þá. Bandarískum sendinefndum, sem fjalla um málefni sem snerta hvali, verður meðal annars falið að koma sjónarmiðum Bandaríkjastórnar á framfæri við íslenskar sendinefndir, hvar sem þær hittast. Í bréfi sínu segir Bush að Bandaríkjamenn efist um gildi rannsóknanna sem vísindaveiðarnar byggi á.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×