Innlent

Engin fjárveiting fengist

Garðar Garðarsson, formaður samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, segir að engin fjárveiting hafi fengist til að framfylgja vilja Alþingis um að semja við sálfræðinga og aðrar sjálfstætt starfandi heilbrigðisstéttir. Framkvæmdastjóri Geðhjálpar sagði í gær að fólki í miklum vanda væri oft vísað frá bráðamóttöku geðdeildar Landspítalans. Þetta fólk þyrfti svo að bíða í jafnvel þrjá til fimm mánuði eftir viðtali við geðlækni. Enn væri ósamið við sálfræðinga sem gætu þó annað þessari eftirspurn þrátt fyrir skýran vilja Alþingis. Hann tók dæmi af ungri stúlku sem hefði í tvígang verið vísað frá bráðamótttöku Landspítalans þrátt fyrir ítrekaðar sjálfsvígshugsanir. Tveir hlauparar hefðu komið að henni í Laugardalnum þar sem hún var að reyna að fyrirfara sér. „Við þurfum að fá fjárveitingar til að geta gert samninga við sálfræðinga og aðra sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmenn en þær fjárveitingar hafa ekki fengist, þrátt fyrir að heimild sé fyrir því í lögum,“ sagði formaður samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í dag. Heilbrigðisráðherra hefur farið þá leið að efla heilsugæsluna og bjóða upp á sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum. Garðar Garðarsson segir þetta spurningu um forgangsröðun. Þarna sé verið að reyna að ná til yngstu kynslóðarinnar . Aðspurður hvort semja ætti við sálfræðinga í ljósi lagaheimildarinnar segist Garðar hafa verið talsmaður þess í gegnum tíðina að bætt yrði við fé í þennan málaflokk. Hvort það sé gert með því að semja beint við sálfræðinga um þjónustu, sé aftur á móti álitamál.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×