Erlent

Sakaður um samráð við stríðsherra

Vangaveltur um hvort Hamid Karzai, forseti Afganistans, vinni að kosningasamkomulagi við öflugustu stríðsherra landsins hafa ágerst eftir að hann hitti höfuðpaura Norðurbandalagsins að máli. Karzai neitar öllum sögusögnum um að samkomulag hafi verið gert. Kosningar fara fram í landinu í september og hefur Karzai yfirburðastöðu miðað við mótframbjóðendur sína. Gagnrýnisraddir segja forsetann að svíkja almenning í þessu stríðshrjáða landi með því að semja við þá sem standa á bak við meira en tuttugu ára skærur í landinu. Stríðsherrarnir, sem eru hliðhollir ríkisstjórninni að nafninu til, eru grunaðir um að standa á bak við stríð um landsvæði og eiturlyf sem orðið hafa óbreyttum borgurum að bana. Nokkrir leiðtoganna sitja í ríkisstjórn Karzai, sem leggur áherslu á að þeir séu hluti af "raunverulegu lífi í landinu." Hamid Karzai hóf í fyrradag heimsókn sína til Bandaríkjanna og mun hann meðal annars hitta George Bush Bandaríkjaforseta að máli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×