Sport

Guðjón tekur ekki við Keflavík

Guðjón Þórðarson tekur ekki við liði Keflvíkinga í Landsbankadeild karla í knattspyrnu eins og búist var við. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld. Að sögn Rúnars Arnarsonar formanns knattspyrnudeildar Keflavíkur hefst ný leit að þjálfara strax í fyrramálið. Guðjón hafði fékk upphaflega frest til mánudags til að svara Keflvíkingum sem í gær veittu honum svo viðbótarfrest í sólarhring. Að sögn Rúnars hafði hann ekkert heyrt frá Guðjóni í dag og því muni félagið fara á fullt í fyrramálið að ræða við aðra menn. Guðjón Þórðarson var í löngu og ítarlegu símaviðtali í íþróttaþættinum "Mín skoðun með Valtý Birni" á útvarpsstöðinni Skonrokki FM90,9 í dag þriðjudag, þar sem hann útskýrði hvað tefði hann svo í Bretlandi. Ástæðan er ekki sú sem margir halda að hann sé að bíða eftir svari frá knattspyrnuklúbbum þar í landi vegna starfs heldur á hann óuppgert mál við knattspyrnufélagið Barnsley sem Guðjón stýrði í fyrra. Guðjón sagðist nú þegar vera búinn að taka þá ákvörðun um að flytja heim til Íslands og ætlaði í raun að koma heim fyrir síðustu helgi. Starfslokasamningur hans hefur hins vegar legið ófrágenginn hjá Barnsley og sagði Guðjón það vera gríðarlega mikilvægt fyrir sig að vera til staðar á meðan menn á hans vegum væru að vinna í málinu. Grindvíkingar bíða einnig eftir svari frá Guðjóni sem hafði í haust gert munnlegt samkomulag við félagið um að stýra liðinu með Milan Stefán Jankovic sér til aðstoðar. Ekki er að merkja miklar hreyfingar í aðgerðum Grindvíkinga í þjálfaramálum þar sem Milan Stefán sér um æfingar meistaraflokks félagsins á meðan þjálfaramálin skýrast þar á bæ. Aðalstarf hans hjá félaginu er þó að þjálfa 2. flokk auk þess að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Það verður því spennandi að sjá hvað gerist þegar Guðjón gerir þegar hann loks kemur frá Bretlandi en rétt er að benda á að Grindavík er eina félagið í Landsbankadeild karla sem ekki hefur gengið frá sínum þjálfaramálum fyrir næsta tímabil.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×