Erlent

Ólgan í Írak heldur áfram

Það er útilokað að halda frjálsar kosningar í Írak að óbreyttu, segir Colin Powell. Skálmöldin í landinu fer versnandi, mannfall eykst og ringulreiðin líka. Fleiri en tvö hundruð Írakar hafa fallið í sprengjuregni og hryðjuverkaárásum undanfarna sólarhringa, þar af á sjötta tug í dag. Sjálfsmorðsárásir, hryðjuverk og gríðarlegt mannfall eru nánast orðin daglegir viðburðir í Írak. Í morgun ók hryðjuverkamaður upp að lögreglubílum sem komið hafði verið fyrir á götu í Haifa-götu í Bagdad til að stöðva þar umferð. Bíllinn var sprengdur skammt frá, átta lögreglumenn féllu og um það bil 30 slösuðust, flestir lögreglumenn. Fyrr í morgun lék allt á reiðiskjálfi í borginni Fallujah, þar sem allt tal um friðarsamkomulag og öryggiseftirlit írakskra sveita hljómar sem tómt hjal. Bandaríkjaher lét sprengjum rigna yfir meinta felustaði Al-Qaeda liða í borginni. 44 lágu í valnum og á þriðja tug var sár. 17 börn og konur voru meðal særðra. Fátt bendir til þess að breyting verði á þessu ástandi í Írak. Varnarmálaráðuneytið í Washington viðurkennir að ástandið hafi í raun versnað upp á síðkastið, mannfall hefur aukist mjög og árásum uppreisnarmanna og hryðjuverkamanna hefur fjölgað. Skýrsla sem unnin var fyrir Hvíta húsið í sumar bendir ennfremur til þess að þar geri menn sér ekki vonir um grundvallarbreytingar. Þar segir að í besta falli megi gera ráð fyrir viðkvæmum stöðugleika, og í versta falli séu líkur á borgarastyrjöld. Jafnframt koma þar fram verulegar efasemdir hægt verði að koma skikkan á gang mála í tæka tíð fyrir lýðræðislegar kosningar í landinu. Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, viðurkenndi í dag að ógerlegt gæti reynst að halda kosningarnar að öllu óbreyttu, eins og fulltrúar Sameinuðu Þjóðanna hafa haldið fram. Hann sagði jafnframt að ná yrði á ný svæðum, sem uppreisnarmenn hefðu á sínu valdi. Til að bæta gráu ofan á svart segir Reuters-fréttastofan að í væntanlegri skýrslu yfirmanns vopnaeftirlits Bandaríkjanna í Írak komi fram, að engin eiturefna- eða sýklavopn hafi fundist í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×