Erlent

Enn einn fellibylurinn af stað

Enn einn fellibylurinn veldur nú usla í Karíbahafinu. Fellibylurinn Jeanne hefur þegar valdið dauðsföllum í Dóminíska lýðveldinu, og bylurinn Ívan kostaði tuttugu manns lífið á suðurströnd Bandaríkjanna. Nú er ljóst að í það minnsta tuttugu fórust þegar Ívan gekk yfir suðurströnd Bandaríkjanna í gær, og er óttast að þessi tala muni enn hækka. Á yfirreið sinni um Karíbahaf kostaði Ívan sextíu og níu lífið. Vindhraðinn var 209 kílómetrar á klukkustund þegar Ívan gekk yfir ríkin við Mexíkóflóann, en það jafngildir tæpum 60 metrum á sekúndu, sem er svipað og mældist í sterkustu kviðunum í storminum sem gekk yfir sunnanvert Ísland í gær. Hann er sjötti öflugasti fellibylur af Atlantshafinu sem sögur fara af. Skaðinn sem Ívan olli í Bandaríkjunum var þó minni en óttast hafði verið. Sérfræðingar tryggingafélaga kanna nú skaðann sem Ívan olli, en þeir telja að tjónið sé upp á 3 til 10 milljarða bandaríkjadollara, eða allt að 720 milljörðum króna. Dregið hefur út mætti Ívans og hann telst nú vera hitabeltislægð. Eftirmaður hans, fellibylurinn Jeanne, gekk yfir Dóminíska lýðveldið í nótt og olli þar manntjóni í. Veðurfræðingar spá því að Jeanne muni dýpka á næstunni á ferð sinni í átt að Haiti, þar sem yfirvöld óttast það versta. Sem stendur er gert ráð fyrir að Jeanne haldi því næst sem leið liggur yfir suðvesturhluta Bahama og skelli síðan á strönd Bandaríkjanna nærri ríkjamörkum Georgíu og Suður-Karólínu í næstu viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×