Innlent

Auðvelt að komast að fjölda

Tiltölulega einfalt er að átta sig á því hversu margir bíða eftir plássi í framhaldsskólum og eins hvort að viðkomandi hafi sótt um í fleiri en einum skóla. Menntamálaráðherra virðist hins vegar ekki hafa áttað sig á því, en hún segir helstu ástæðu þess að ekki sé búið leysa úr vanda allra nemanda að upplýsingar liggi ekki fyrir. Ljóst er að allstór hópur grunnskólanema, einkum eldri nema sem hafa gert hlé á námi en vilja halda áfram, fær ekki skólapláss. Menntamálaráðherra sagði í upphafi skólaárs, í seinni hluta ágústmánaðar, að farið yrði í málið og kannað hversu margir ættu þarna hlut að máli. Og í fréttum Stöðvar 2 í gær sagði Þorgerður Katrín að enn hefði ráðuneytið ekki áttað sig á umfangi málsins og þar sem einn einstaklingur væri oft margtalinn, væri erfitt að átta sig á endanlegum fjölda þeirra sem ekki fá inngöngu í skólana. Samkvæmt upplýsingum sem Stöð 2 hefur aflað sér ætti engu að síður að vera tiltölulega einfalt að átta sig á umfanginu. Fyrir um þremur árum kom menntamálaráðuneytið sjálft á laggirnar gagnagrunni sem heitir Inna þar sem hægt er að sækja allar grunnupplýsingar um framhaldsskóla fyrir hvern skóla, meðal annars skráningu nemenda. Allir framhaldsskólar landsins eru í þessum grunni að Verslunarskólanum undanskildum. Sérfræðingar sem Stöð 2 ræddi við í dag segja sáraeinfalt að komast að því hversu margar umsóknir séu óafgreiddar og eins hvort nemendur hafi sótt um í fleiri en einum skóla. Skólarnir sjá sjálfir um skráningu í grunninn, en starfsmaður menntamálaráðuneytisins sem sinnir grunninum þar sagði aðspurður að tæki ráðuneytið þá afstöðu að nálgast upplýsingarnar sjálft, sé það einfalt. Skólamaður sem sinnir grunninum fyrir sinn skóla sagði Stöð 2 að afar einfalt sé fyrir ráðuneytið engu að síður að nálgast þessar upplýsingar núna, til dæmis þurfi ekki annað en að senda tölvupóst á umsjónarmann kerfisins í hverjum skóla og hann geti sent upplýsingarnar um hæl. Ekki taki síðan nema nokkrar mínútur að sjá hvort einhverjir nemendur séu með umsókn í fleiri en einum skóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×