Erlent

Arafat jarðsunginn í dag

Jasser Arafat, sem lést í fyrrinótt eftir tæpra tveggja vikna legu á sjúkrahúsi í París, verður jarðsunginn í dag. Fjöldi fyrirmenna verður viðstaddur útför hans í Kaíró áður en lík hans verður flutt til Ramallah þar sem það verður greftrað. Sjálfur vildi Arafat hvíla í Jerúsalem en varð ekki að ósk sinni um það frekar en að sjá sjálfstætt ríki Palestínumanna. Skipuleggjendur greftrunar hans sáu hins vegar til þess að mold yrði flutt frá Jerúsalem til Ramallah og lík hans greftrað í henni. Stjórnmálamenn um allan heim minntust Arafats og þrátt fyrir að þeir vonuðust allir eftir friði í Mið-Austurlöndum munaði miklu á því hvernig þeir minntust Arafats. "Sólin skín nú á Mið-Austurlönd og heiminn allan því Arafat leiddi ekki aðeins hryðjuverkabaráttu gegn Ísrael heldur var hann upphafsmaður að hryðjuverkaöldunni sem ógnar heiminum nú, þar á meðal al-Kaída. Öll þessi hryðjuverk eru afrakstur af starfi Arafats og það er gott fyrir heiminn að vera laus við hann," sagði Tommy Lapid, dómsmálaráðherra Ísraels. "Maður hugrekkis og sannfæringar sem var í fjörutíu táknmynd baráttu Palestínumanna fyrir rétti þeirra til eigin ríkis," sagði Jacques Chirac Frakklandsforseti hins vegar um Arafat. Palestínumenn hafa 60 daga til að velja sér nýjan leiðtoga. Fram til þess tíma verður Rawhi Fattuh starfandi forseti palestínsku heimastjórnarinnar án verulegra áhrifa en ljóst þykir að einhver annar verði fyrir valinu sem næsti leiðtogi Palestínumanna. Arafat hélt fast í völd sín og passaði upp á að enginn augljós arftaki hans kæmi fram á sjónarsviðið. Það kann að gera val á eftirmanni hans erfiðara. Leiðtogar tveggja herskárra hreyfinga Palestínumanna sökuðu Ísraela um að hafa eitrað fyrir Arafat. Silvan Shalom, utanríkisráðherra Ísraels þvertók fyrir það og vísaði til orða Nabil Shaath, utanríkisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar sem hafði áður sagt að ekki hefði verið eitrað fyrir Arafat. Ísraelar hertu öryggisvörslu við Vesturbakkann og Gaza eftir að tilkynnt var um lát Arafats af ótta við að það yrði kveikjan að árásum á Ísrael. Ahmed Qureia Núverandi forsætisráðherra lék stórt hlutverk í Oslóarsamkomulaginu og var viðloðandi allar friðarviðræður Palestínumanna og Ísraela á síðasta áratug síðustu aldar. Hann tók við starfi forsætisráðherra af Abbas en lenti líkt og hann í deilum við Arafat um hver skyldi stjórna öryggissveitum Palestínumanna. Þegar Arafat veiktist varð Qureia valdamestur palestínskra ráðamanna. Qureia hefur sagst reiðubúinn að semja við Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, en Sharon hefur svarað því til að Qureia skorti völd eða vilja til að hægt sé að ræða við hann. Mahmoud Abbas Abbas var í gær útnefndur eftirmaður Arafats sem formaður Frelsissamtaka Palestínu. Hann var einn af höfundum Oslóarsamkomulagsins og varð fyrsti forsætisráðherra Palestínu. Því embætti sagði hann lausu eftir aðeins fjóra mánuði vegna deilna við Arafat um stjórn á öryggissveitum. Abbas þykir hófsamur og lagði sig fram um að stöðva árásir herskárra hreyfinga á ísraelska borgara. Hann nýtur meiri virðingar á alþjóðavísu en heima við. Ísraelar og Bandaríkjamenn geta hugsað sér að eiga samstarf við hann en sumir Palestínumenn vantreysta honum. Marwan Barghuti Vinsælasti leiðtogi Palestínumanna undanfarin ár að Arafat undanskildum ætti góða möguleika á að verða kosinn eftirmaður hans ef ekki væri fyrir það að hann afplánar nú fimm lífstíðardóma og 40 ár að auki eftir að ísraelskur dómstóll fann hann sekan um morð. Ísraelskir ráðamenn þvertóku í gær fyrir að honum yrði sleppt úr haldi. Barghuti, sem hvatti Palestínumenn til að halda áfram baráttu sinni gegn Ísraelum þrátt fyrir andlát Arafats, hefur sagt að ekki komi til greina að semja öðru vísi en svo að Palestínumenn réðu landsvæðum sem Ísraelar hernámu í sex daga stríðinu 1967.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×