Erlent

Tala látinna komin upp í 250

Tala látinna í Haítí eftir að hitabeltisstormurinn Jeanne gekk yfir landið um helgina er komin upp í tvö hundruð og fimmtíu manns að sögn starfsmanns Sameinuðu þjóðanna í landinu. Fleiri látast þegar óveður ganga yfir Haítí en í sambærilegum veðrum annars staðar vegna hinnar gríðarlegu fátæktar í landinu.  Manntjón af völdum óveðurs, rigninga og flóða er að færast í aukana á Haítí. Aðeins eru fjórir mánuðir frá því um þrjú þúsund manns létust í gríðarmiklum flóðum við landamæri Haítí og Dómínikanska lýðveldisins og algert neyðarástand skapaðist. Um átta milljónir manna búa á Haítí sem er eitt af fátækari löndum heims og það allra fátækasta á vesturhveli jarðar. Rekja má ástæður þessarar miklu örbirgðar til þeirrar óstjórnar sem ríkt hefur í landinu. Vonir sem bundnar voru við endurreisn lýðræðis og Jean-Bertrand Aristide forseta fóru út um þúfur og hann flúði landið eftir almenna uppreisn gegn honum í febrúar á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×