Erlent

90 látnir í Haítí

Talið er að um níutíu manns hafi látið lífið þegar hitabeltisstormurinn Jeanne gekk yfir Haítí um helgina. Fleiri látast þegar óveður ganga yfir Haítí en í sambærilegum veðrum annars staðar. Ástæðan er einfaldlega gríðarleg fátækt í landinu.  Manntjón af völdum óveðurs, rigninga og flóða er að færast í aukana á Haítí. Aðeins eru fjórir mánuðir frá því um þrjú þúsund manns létust í gríðarmiklum flóðum við landamæri Haítí og Dómínikanska lýðveldisins og algert neyðarástand skapaðist. En það er ástæða fyrir því að íbúar Haítí verða svona illa úti í miklum vatnsveðrum. Landið er hálent en þar er mikil gróðureyðing og nánast engir skógar eftir. Geri miklar rigningar hefur jarðvegurinn ekki bolmagn til að halda aftur af flóðunum sem æða af stað niður fjöllin og færa vegi og akra í kaf. Þá verða gjarnan aurskriður í kjölfarið sem hrífa með sér fólk og búfénað og leggja heilu þorpin og íbúðahverfin í rúst. Gróðureyðingin á Haítí helst í hendur við fátækt landsins því íbúar reyna að draga fram lífið með því að nýta allt sem þar grær. Um átta milljónir manna búa á Haítí sem er eitt af fátækari löndum heims og það allra fátækasta á vesturhveli jarðar. Rekja má ástæður þessarar miklu örbirgðar til þeirrar óstjórnar sem ríkt hefur í landinu. Vonir sem bundnar voru við endurreisn lýðræðis og Jean-Bertrand Aristide forseta fóru út um þúfur og hann flúði landið eftir almenna uppreisn gegn honum í febrúar á þessu ári. Um þrjú þúsund friðargæsluliðar á vegum Sameinuðu þjóðanna eru í Haítí en landið er nánast stjórnlaust og eiturlyfjahópar og glæpaklíkur stunda sína iðju óáreittir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×