Sport

Skil ekki þessi læti

Skagamenn sögðu í yfirlýsingu á heimasíðu sinni í vikunni að þeir hefðu leyft Julian að hætta hjá félaginu þar sem hann hefði komist inn í sjúkraflutningaskóla í Danmörku. Sökum aldurs átti þetta að vera síðasta tækifæri Julians til þess að komast í skólann samkvæmt frétt Skagamanna. Nokkrum dögum síðar berast þær fréttir frá Færeyjum að Julian hafi samþykkt að spila og þjálfa færeyska 2. deildarfélagið B68. Skagamenn segja þær fréttir hafa komið sér í opna skjöldu og vilja meina að Julian hafi blekkt þá til þess að komast til Færeyja. "Það lítur út fyrir það að hann hafi verið að spila með okkur," sagði Ólafur Þórðarson, þjálfari Skagamanna. "Hann sagðist vera á leið til Danmerkur og að það væri ekkert inn í myndinni að fara til Færeyja. Þetta er bara óheiðarleg framkoma og ekkert annað. Þessi framkoma kemur mér mjög á óvart því og leiðinlegt að við þurfum að skilja svona því samstarfið við hann hefur verið mjög gott." Óánægja Skagamanna kemur Julian verulega á óvart en hann segist hafa komið hreint fram við félagið. Hann hafi aldrei sagt að hann ætlaði ekki til Færeyja. "Þeir spurðu mig hvað ég væri að fara að gera og ég sagði þeim að ég væri annað hvort á leið til Danmerkur eða Færeyja. Ég sagðist ætla að halda áfram að spila en væri ekki á leið til neins stórliðs. Ég skil ekki öll þessi læti því ég kom hreint fram," sagði Julian en fleira kom honum á óvart. "Þeir sögðu á netinu að ég væri að fara í sjúkraflutningaskóla. Það er algjört rugl því ég ætlaði alltaf að læra að verða kennari og vildi helst sameina námið og fótboltann. Danmörk eða Færeyjar var alltaf málið og ég lofaði þeim því að fara ekki í annað lið á Íslandi. Það er ekki satt sem þeir segja að ég hafi aldrei talað um að fara til Færeyja. Ég skil ekki þessi læti." Ólafur sagðist halda að ekki væri búið að ganga frá málum Julians og ÍA og því væri öruggt að þeir myndu fara fram á einhverjar bætur fyrir Julian ætli hann að halda því til streitu að fara til B68. Julian vildi lítið tjá sig um peningamálin en sagði að það væri ekki alveg rétt að Skagamenn myndu ekki fá neitt fyrir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×