Innlent

Versnandi geðheilsa Íslendinga

Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra hefur þungar áhyggjur af versnandi geðheilsu Íslendinga og mikilli notkun þunglyndislyfja. Hann telur ástæðu til að skoða hvers vegna fólk á aldrinum 60 til 64 ára notar mest af þess konar lyfjum. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins jukust útgjöld stofnunarinnar vegna þunglyndislyfja um 8% á fyrstu ellefu mánuðum ársins, miðað við sama tímabil í fyrra. Útgjaldaaukningin er ekki til komin vegna verðhækkana heldur aðallega vegna aukinnar notkunar lyfja hér á landi. Heilbrigðisráðherra segist hafa þungar áhyggjur af þessari þróun. Hann segir að nú sé verið að efla viðtalsmeðferð, m.a. með samningum við sérfræðinga á sviði geðlækninga þar sem svigrúm þeirra sé aukið.  Umtalsverð aukning hefur orðið í nánast öllum aldursflokkum á notkun þunglyndislyfja. Notkunin er mest hjá þeim sem eru á aldrinum 60-64 ára en hún er einnig töluverð hjá þeim Íslendingum sem eru í aldursflokkunum 65-69 ára og 70-74 ára. Heilbrigðisráðherra kveðst ekki vilja geta sér til um hvað valdi en segist munu skoða málið gaumgæfilega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×