Sport

Molar um Hópbílabikarkeppni kvenna

Birna Valgarðsdóttir og Svava Ósk Stefánsdóttir munu taka þátt í sínum fimmta úrslitaleik fyrirtækjabikars kvenna og eru þar með einu leikmennirnir í sögu keppninnar sem hafa spilað alla úrslitaleikina. Erla Þorsteinsdóttir, sem núna spilar með Grindavík, hafði einnig tekið þátt í hinum fjórum úrslitaleikjunum en sat nú eftir í undanúrslitunum þökk sé Birnu og Svövu og félögum hennar í Keflavíkurliðinu. Birnu Valgarðsdóttur vantar eitt stig til að jafna stigamet Erlu Þorsteinsdóttur sem skoraði 23 af 50 stigum sínum í úrslitaleikjunum keppninnar í fyrra í 73-52 sigri Keflavíkur á KR. Erla er einnig frákastahæst í úrslitaleikjunum með 38 fráköst en <Svövu Ósk Stefánsdóttur vantar aðeins eina stoðsendingu til þess að jafna met Hildar Sigurðardóttur. Keflavík hefur unnið Hópbílabikar kvenna tvö síðustu árin en Keflavíkurkonur hafa spilað alla úrslitaleiki sögunnar. Keflavík tapaði fyrstu tveimur úrslitaleikjunum, fyrir KR 2000 og svo Grindavík 2001, en hefur unnið KR mjög örugglega í síðustu tveimur úrslitaleikjunum með 26 stigum 2003 og svo með 21 stig í fyrra. Allir úrslitaleikir í sögu keppninnar til þessa hafa unnist með 14 stigum eða meira. Birna Valgarðsdóttir getur verið þriðji fyrirliði Keflavíkur á þremur árum til þess að lyfta bikarnum. Kristín Blöndal var fyrirliði liðsins þegar Keflavíkurkonur unnu Hópbílabikarinn í fyrsta sinn fyrir tveimur árum, Erla Þorsteinsdóttir lyfti honum í fyrra og Birna er fyrirliði Keflavíkurliðsins þennan veturinn. Þetta er aftur á móti eini bikarinn sem keppt er um í kvennakörfunni sem Anna María Sveinsdóttir hefur ekki tekið við sem fyrirliði Keflavíkurliðsins. Birna Valgarðsdóttir hefur skorað 57 stig á aðeins 56 mínútum í síðustu tveimur leikjum Keflavíkurliðsins þar sem hún hefur sett niður 69% skota sinna (22 af 32), þar af 7 af 11 fyrir utan þriggja stiga línuna. Birna hefur auk þess gefið 6 stoðsendingar og ekki tapað einum einasta bolta í þessum sigrum á Grindavík og Haukum enda hefur Keflavíkurliðið unnið þann tíma sem hún hefur verið inni á í þessum leikjum með 67 stigum, 130-63. Anna María Sveinsdóttir var sjóðheit í deildarleik Keflavíkur og ÍS á dögunum sem Keflavíkurkonur unnu með 15 stigum, 64-79, í Kennaraháskólanum. Anna María skoraði 30 stig í leiknum og hitti úr 13 af 20 skotum en aðeins tvö stiga hennar komu af vítalínunni auk þess sem hún tók einnig 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar í leiknum. Allir leikmenn ÍS eru að spila sinn fyrsta úrslitaleik í fyrirtækjabikar kvenna í körfubolta en ÍS er komið í úrslitaleikinn í fyrsta sinn og er fjórða félagið sem kemst alla leið í úrslitaleikinn. KR (3) og Grindavík hafa einnig náð að spila til úrslita um þennan nýjasta bikar sem keppt er um á vegum KKÍ. Lovísa Guðmundsdóttir hefur misst af síðustu sex leikjum ÍS vegna meiðsla og hefur ekki spilað síðan í 60-67 sigri liðsins í Njarðvík þar sem hún skoraði 20 stig og hitti úr 58% skota sinna. Eins hefur hin 39 ára gamla Hafdís Helgadóttir helst úr lestinni en slæm bakmeiðsli þýða jafnvel að hún spili ekkert meira með. Þær Hafdís og Lovísa er tveir elstu leikmenn ÍS-liðsins og báðar byrjunarliðsmanneskjur fyrir meiðslin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×