Erlent

Rússland er orðið amerísk nýlenda

Nafn Boris Spassky, fyrrverandi heimsmeistara, verður trúlega alltaf tengt Bobby Fischer og einvígi aldarinnar í Reykjavik. Spassky hefur verið búsettur í Frakklandi undanfarna áratugi og er franskur ríkisborgari, kvæntur franskri konu. Spassky var verndari skákkeppni liða alþingis og frönsku öldungadeildarinnar sem fjórir stórmeistarar frá hvorri þjóð háðu um helgina. Talið berst auðvitað að Bobby Fischer þar sem við setjumst niður yfir bjórglasi á hóteli í Paris. "Bobby Fischer er vinur minn og er búinn að vera það í meira en 40 ár. Þú veist hvað ég hef sagt um mál hans og ég stend við það," segir Spassky og segist ekki vilja tala meira um þetta mál, svo sorglegt sé það. Daginn eftir vill Spassky útskýra að hann skuli ekki vilja tjá sig meira um Fischer. "Ég hugsa mikið til hans og mig tekur þetta sárt. Ég hef sagt allt sem hægt er að segja: Bobby hefur sterka réttlætiskennd en er því miður ekki mikil félagsvera. Ég vona að Bandaríkjamenn sjái að sér," segir Spassky daginn eftir hótelfund okkar og kennir greinilega í brjósti um sinn gamla keppinaut. Spassky tefldi gegn Fischer í Svartfjallalandi 1992 og átti að endurtaka einvígi aldarinnar. Bandaríkjastjórn hefur síðan reynt að koma lögum yfir Fischer fyrir að rjúfa viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna. Frönsk stjórnvöld hreyfðu hins vegar hvorki legg né lið gegn Spassky, sem varð franskur ríkisborgari 1978. Spassky skoraði á Bush Bandaríkjaforseta að láta handtaka sig líka; setja í sama fangaklefa og Bobby Fischer og leyfa þeim að tefla. Boris Spassky neitaði alla tíð að ganga í sovéska kommúnistaflokkinn og komst upp á kant við sovésk yfirvöld eftir einvígið í Reykjavík. Hann er þó ekki mikið hrifnari af núverandi valdhöfum. "Almenningur bjó við fátækt á tímum Sovétríkjanna; nú ríkir hrein örbirgð," segir Spassky, "og því miður er ekki hægt að segja annað en að Rússland sé orðið nýlenda, amerísk nýlenda." Spassky stendur raunar á nokkrum tímamótum því hann hefur tekið að sér að verða ritstjóri skáktímarits sem gefið er út í Pétursborg. "Ég verð áfram búsettur í París og verð hér að mestu leyti; það er allt hægt með nútímatækni," segir skákmeistarinn og Íslandsvinurinn Boris Spassky.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×