Innlent

Börn og foreldrar áhyggjufull

Verkfall kennara veldur kvíða og óvissu skólabarna, segir Baldur Kristjánsson, dósent í uppeldis- og þroskasálfræði við Kennaraháskóla Íslands. Móðir drengs á fyrsta skólaári segir foreldra hafa miklar áhyggjur af stöðu kjaraviðræðna kennara og sveitarfélaga. Hún krossleggur fingur og vonar að deilendur nái saman. Ingibjörg Ingadóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla - landssamtökum foreldra, á soninn Pálma sem hefur nýlega hafið nám í Kópavogsskóla. Hún segir hann ekki gera sér grein fyrir hvaða áhrif verkfall geti haft á líf hans. "Þetta verður börnunum erfitt. Loksins þegar þau hafa smá slípast saman sem hópur í bekknum verður þeim kippt út úr skólanum," segir Ingibjörg. Undir það tekur Baldur og segir börnin tapa ákveðnum takti í lífi sínu komi til verkfalls. Það geti torveldað þeim aðlögunina í nýju umhverfi. Þau ættu þó að vera fljót að ná sér á strik þegar skólastarfið hefjist að nýju. Ingibjörg segir að verði verkfallið langt komi það illilega við pyngju fjölskyldunnar þar sem þau hjónin þurfi væntanlega að taka frí frá vinnu. Erfitt geti orðið að fá barnapössun fyrir sex ára son sinn. "Ég er þegar farin að hugsa hvort ég þurfi hreinlega að leita að unglingum sem einnig verða í verkfalli til að passa barnið mitt," segir Ingibjörg og bendir á að samfélagið hafi mikið breyst. Hún hafi ekki sama stuðningsnet foreldra eins og tíðkast hafi í hennar æsku: "Áður var alltaf einhver heima en það er minna um það núna. Oft eru ömmur og afar útivinnandi og í mörgum tilvikum eru þau einfaldlega orðin of gömul og treysta sér ekki í barnapössun." Baldur segir grunnskólana spila stærra hlutverk í lífi barnanna nú heldur en þegar mæður voru heimavinnandi: "Börnin eyða miklum hluta dagsins í skólanum. Hann er þeim mjög mikilvægur og þar fer fram allskyns uppeldisstarf sem foreldrar eru ekki endilega færir um að veita eins og áður. Það er að sjálfsögðu misjafnt eftir heimilum en skýrist af því að allt sem snýr að þekkingu í nútímaþjóðfélagi er nú flóknara."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×