Innlent

Laxveiði fer vel af stað

Sumarið hefur farið vel af stað í flestum laxveiðiám landsins. Á Suðvesturlandi og Norðurlandi er veiði í nær öllum ám betri en á sama tíma í fyrra. Vatnsleysi er þó víða og hamlar það enn betri veiði. Laxveiðimenn eru ánægðir með sumarið hingað til. Svo dæmi séu tekin hafa Laxá í Kjós, Norðurá, Haffjarðará, Víðidalsá, Miðfjarðará og Laxá í Leirársveit skilað fleiri löxum á land nú en á sama tíma í fyrra. Árgangurinn virðist vera góður og göngur með betra móti. Hins vegar ber töluvert mikið á vatnsleysi í laxveiðiám landsins og margir vonast til þess að veðurguðirnir bjóði upp á meiri vætu þegar líða tekur á sumarið. Hætt er við að veiði í júlí og ágúst verði dræm ef ekki verður meira um rigningar en hingað til. Í Laxá í Kjós hafa þegar veiðst 390 laxar, sem þykir mjög gott miðað við árstíma. Eins og víða annars staðar er vatnsmagn þó með minna móti. Veður var gott í Kjósinni í dag og fréttamaður hafði ekki dvalið lengi þar þegar fyrir augu bar veiðimann með fisk á stönginni. Að lokinni stuttri baráttu var laxinn háfaður, en honum síðan sleppt, nokkuð sem veiðimenn í Elliðaám ættu að taka sér til fyrirmyndar ef marka má orð Stefáns Jóns Hafsteins frá því fyrr í vikunni. Fleiri fiskar voru dregnir á land í ánni í dag, enda veitt á allar tíu stangirnar sem í boði eru.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×