Innlent

Faðernið leiðrétt

"Ef áratugagamlar leiðréttingar á faðerni berast hér inn, þá er það nánast einsdæmi," sagði Sóley Ragnarsdóttir lögfræðingur hjá Hagstofu Íslands, spurð um tíðni þess, að leiðréttingar á faðerni bærust til þjóðskrár mörgum árum, ef til vill áratugum, eftir að dómur hefði gengið í barnsfaðernismáli. Tilefni fyrirspurnar Fréttblaðsins er allsérstætt mál, er varðar faðerni barns, sem ekki var leiðrétt í þjóðskrá fyrr en um það bil fimm áratugum eftir að dómur hafði gengið í því. Samkvæmt heimildum blaðsins hófst málið árið 1946 - 1947, þegar kona ein sem þá var búsett á landsbyggðinni, kenndi tilteknum manni barn sitt. Maðurinn gekkst við því í fyrstu, en fékk síðan bakþanka um að hann ætti það. Hann greiddi aldrei meðlag og neitaði að hann væri faðir barnsins. Konan fór þá í barnsfaðernismál við manninn, sem bjó í öðrum landshluta þegar hér var komið sögu. Málið var bæjarþingsmál, sem rekið var fyrir sakadómi Reykjavíkur sem þá var til húsa á Fríkirkjuvegi 11. Niðurstaðan varð sú, að málið var afgreitt á aðalblóðflokkum eins og þá tíðkaðist og blóðsýni úr manninum útilokaði að hann gæti verið faðir barnsins. Málið var því fellt niður, eins og jafnframt tíðkaðist þá þegar blóðflokkur afsannaði faðerni. Í prestsbókinni í búsetuhéraði konunnar stóð þó áfram skráð staðhæfing hennar um að maðurinn tiltekni væri faðir barnsins. Hann var skráður faðir þess í þjóðskrá þegar hún var stofnsett árið 1952, nokkrum áður eftir fæðingu þess. Þar kom nú nýverið, að maðurinn vildi leiðrétta þessa rangfeðrun í þjóðskrá. Hann leitaði til lögmanns, sem tók til við að afla nauðsynlegra gagna. Þar sem málið var komið svo til ára sinna fundust þau loks á þjóðskjalasafninu. Þjóðskrá Hagstofunnar brá hart við og gaf út nýtt fæðingarvottorð fyrir barnið, sem nú er ófeðrað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×