Sport

Guðjón kominn heim til að vera

Guðjón Þórðarson býst við því að vera alkominn heim til Íslands en hann gerði þriggja ára samning við bikarmeistara Keflavíkur á fimmtudag. Guðjón tjáir sig um nýja liðið sitt í viðtali við Fréttablaðið. Bikarmeistarar Keflavíkur eru stórhuga og það sönnuðu þeir á fimmtudag þegar þeir gerðu samning við einn sigursælasta þjálfara Íslands fyrr og síðar, Guðjón Þórðarson. Guðjón, sem lengi vel var orðaður við Grindavík, gerði þriggja ára samning við bikarmeistarana. Orðrómur fór strax á kreik þess eðlis að það væru ákvæði í samningi Guðjóns um að hann mætti yfirgefa félagið ef freistandi tilboð kæmi að utan. Guðjón sagði við Fréttablaðið í gær að samningurinn væri trúnaðarmál og að innihald hans yrði ekki rætt. Guðjón neitaði því samt ekki að það væri þægilegt að vera loksins búinn að fá lendingu í sínum málum. "Ég er mjög sáttur við þessa ákvörðun mína. Þetta gerðist allt mjög hratt og gekk fljótt fyrir sig. Mér líst vel á þetta verkefni. Þetta er metnaðarfullt félag sem býður upp á toppaðstæður til knattspyrnuiðkunar. Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á að hafa góða æfingaaðstöðu og ég fæ hana þarna," sagði Guðjón sem hefur störf fljótlega eftir áramót. Hann er enn staddur út í Bretlandi en ekki hefur verið gengið frá öllum lausum endum varðandi endanlegan viðskilnað hans við Barnsley. Það gustaði um Guðjón í Englandi, rétt eins og á Íslandi, en þrátt fyrir það náði hann fínum árangri. En er hann kominn heim til að vera? "Það er mín stefna. Ég á ekki von á öðru. Mér hafa boðist störf úti sem ég hef hafnað eins og hjá Stockport. Ég vil ekki taka hvað sem er að mér og ég hef ekki áhuga á að vera í Englandi bara til þess að vera þar. Ég vil láta gott af mér leiða og ef starfsaðstæður henta ekki mínum metnaði þá sé ég ekki ástæðu til þess að taka starfinu." Guðjón er mikill kaffidrykkjumaður og lætur ekki bjóða sér hvað sem er í þeim efnum. Á hann von á því að knattspyrnudeildin kaupi nýjar kaffivélar fyrst hann er mættur á svæðið? "Ég býst ekki við því. Ég er bara með mína pressukönnu og svo er fínt kaffihús við Reykjanesbrautina þannig að þetta verður í góðu lagi," sagði Guðjón léttur í bragði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×