Erlent

Taka aftur upp dauðarefsingar

Palestínumenn hafa tekið upp dauðarefsingar aftur en þeim hefur ekki verið beitt frá árinu 2002. Fjórir menn, sem dæmdir höfðu verið fyrir morð á Gasaströndinni, voru í dag teknir af lífi, þrír þeirra voru hengdir en einni leiddur fyrir aftökusveit. Palestínsk yfirvöld segja aftökurnar hluta af nýrri stefnu stjórnvalda sem reyni að koma í veg fyrir upplausn á sjálfsstæðurnarsvæðum Palestínumanna.

Erlent

Felldu 40 uppreisnarmenn í V-Írak

Fjörutíu manns létust í loftárás Bandaríkjahers í Vestur-Írak í gær. Hernaðaryfirvöld segja mennina hafa verið uppreisnarmenn sem ógnuðu óbreyttum borgurum. Á svæðinu, sem er við landamæri Sýrlands, hefur andspyrna uppreisnarmanna verið gríðarleg. Bandaríkjamenn notuðu hvort tveggja flugvélar og þyrlur vð árásina.

Erlent

Ítalir kjósa um frjósemislög

Ítalir ganga nú til þjóðaratkvæðagreiðslu til að skera úr um hvort fella eigi úr gildi lög sem setja hömlur á frjósemisaðgerðir. Vatíkanið hefur tekið fullan þátt í kosningaherferðinni.

Erlent

Ástralir bestu rúningsmennirnir

Ástralar eru bestu rúningsmenn í heimi. Þetta varð ljóst eftir alþjóðlega rúningskeppni sem fram fór í Ástralíu í dag. Heimakonan Shannon Warness hafði þar betur en keppendur frá sextán öðrum löndum og hlaut í annað sinn hin eftirsóttu verðlaun gullni rúningsmaðurinn. Alls tóku 230 keppendur þátt í mótinu en þar skiptir hraðinn ekki einungis máli heldur einnig hversu vel verkið er unnið.

Erlent

Pink Floyd saman á ný

Skipuleggjendur Live 8 tónleikanna í London sögðu í gær að breska rokksveitin Pink Floyd myndi koma aftur saman til að spila á tónleikunum sem fara fram í Hyde Park júlí.

Erlent

Sprengjutilræði í Teheran

Einn lét lífið þegar lítil sprengja sem falin hafði verið í ruslagámi sprakk í fjölfarinni götu í miðborg Teheran, höfuðborgar Írans, í dag. Ekki er ljóst hvort einhverjir hafi slasast en vitni segja sjúkrabíla hafa þust á vettvang. Þetta er annað tilræðið í Íran í dag en í morgun sprungu fjórar sprengjur við stjórnarbyggingar í olíubænum Ahvaz í suðvesturhluta landsins.

Erlent

Wolfowitz fagnar skuldasamningi

Paul Wolfowitz, forstjóri Alþjóðabankans, bar í gær lof á sögulegt samkomulag sem náðst hefur um niðurfellingu skulda nokkurra fátækustu ríkja heims. Hann sagðist jafnframt vongóður um að samkomulag myndi takast bráðlega um að létta skuldabyrði Nígeríu, skuldugasta lands Afríku.

Erlent

Hvetja fólk til að hjóla

Hundruð naktra hjólreiðamanna mótmæltu á götum London, höfuðborgar Englands, á laugardag og hvöttu fólk til að nota hjól.

Erlent

Kröfðust lausnar Khodorkovskís

Um tvö þúsund manns mótmæltu við skrifstofur rússnesku öryggislögreglunnar í Moskvu í dag og kröfðust þess að olíujöfurinn Míkhaíl Khodorkovskí yrði látinn laus. Að þeirra mati er hann pólitískur fangi. Mikil hátíðarhöld fóru fram í Rússlandi í dag þar sem falli kommúnistastjórnarinnar árið 1991 var fagnað.

Erlent

Sprengjutilræði í Suðvestur-Íran

Að minnsta kosti átta létust og 36 særðust, þar á meðal konur og börn, þegar fjórar sprengjur sprungu við stjórnarbyggingar í olíubænum Ahvaz í suðvesturhluta Írans í dag. Sprengjurnar sprungu á tveggja klukkustunda tímabili og mistókst sprengjusérfræðingum að aftengja fjórðu sprengjuna eftir að hinar þrjár höfðu sprungið.

Erlent

Lestarslys vegna sprengju á teinum

Tólf manneskjur slösuðust í lestarslysi í Rússlandi í morgun. Lestin var á leið frá Tsjetsjeníu til Rússlands. Að sögn lestarstjórans sprakk sprengja á lestarteinunum sem varð þess valdandi að lestin fór út af sporinu. Enginn hefur enn lýst sig ábyrgan fyrir sprengjutilræðinu.

Erlent

Kanna hugsanlegan flugmiðaskatt

Fjármálaráðherrar átta helstu iðnríkja heims sömdu í dag um það að kanna möguleika á því að koma á sérstökum skatti á flugmiða sem á að renna til hjálparstarfs í Afríku. Ákvörðunin var tekin á fundi ráðherranna í Lundúnum þar sem einnig var ákveðið að fella niður skuldir fátækustu ríkja Afríku.

Erlent

Fella niður 2600 milljarða skuldir

Átta helstu iðnríki heims hafa náð samkomulagi um að létta skuldum af fátækustu ríkjum Afríku að andvirði 2600 milljarðar króna. Samkomulagið náðist á fundi fjármálaráðherra ríkjanna í Lundúnum í dag en ekki hafði verið búist við því að það næðist á næstu dögum. Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, sagði eftir að samningurinn var í höfn að allar skuldir 18 fátækustu ríkja heims yrðu afskrifaðar nær samstundis.

Erlent

36 börn látast í flóðbylgju í Kína

Þrjátíu og sex börn og tveir fullorðnir létu lífið þegar flóðbylgja skall á barnaskóla í norðausturhluta Kína í dag. Björgunarmenn leita enn fimm barna og tveggja fullorðinna en auk þess voru 15 börn og tveir kennarar fluttir á sjúkrahús. Atvikið átti sér stað í bænum Shalan í Heilongjiang-héraði og hefur Reuters-fréttastofan eftir starfsmanni á sjúkrahúsi, þangað sem farið var með hina slösuðu, að stærstur hluti bæjarins sé enn á kafi í eins metra djúpu vatni.

Erlent

Rændu gesti á baðströnd í Portúgal

Um fimm hundruð ungmenni hafa valdið óróleika meðal gesta á strönd í nágrenni Lissabon, höfuðborgar Portúgals, með því að fara ránshendi um eigur þeirra. Mikill fjöldi var á Carcavelos-ströndinni í gær þar sem Portúgalir fögnuðu þjóðhátíðardegi sínum en sú gleði var skammvinn þar sem ungmennin réðust gegn fólkinu og heimtuðu eigur þess.

Erlent

Enn ósamið um fjárhagsaðstoð

Átta helstu iðnríki heims náðu í dag sögulegu samkomulagi um að fella niður skuldir fátækustu ríkja Afríku. Enn er þó eftir að ná samkomulagi um aukna fjárhagsaðstoð.

Erlent

Borgaði frænda fyrir að sitja inni

Verkfræðingurinn Rupert Reddi í Suður-Afríku hefur heldur betur komist í heimsfréttirnar en hann hefur verið fangelsaður fyrir að koma sér hjá fangelsisvist. Reddi var dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir líkamsáras og hóf afplánun árið 2003 að því er fangelsismálayfirvöld héldu. Það kom hins vegar í ljós þegar þrír mánuðir voru liðnir að Ruddi sjálfur gekk laus en hins vegar sat frændi hans inni, en hann fékk greitt fyrir greiðviknina.

Erlent

64 létust í flóði í Shalan í Kína

Nú er ljóst að 62 börn og tveir fullorðnir létu lífið þegar flóðbylgja skall á barnaskóla í norðaustur Kína í dag. Frá þessu greinir Xinhua-fréttastofan. Flóðbylgjunni fylgdi skriða sem æddi í gegnum bæinn Shalan í Heilongjiang-héraði þar sem skólinn er. Dýpt vatnselgsins var allt að tveir metrar og segja vitni á staðnum að eins metra djúpt vatn sé í nánast öllum bænum.

Erlent

Átta handteknir

Lögreglan í Afganistan hefur handtekið átta manns sem eru grunuð um að eiga aðild að mannráni á ítalska hjálparstarfsmanninum Clementinu Cantoni.

Erlent

Rafsanjani nýtur mest fylgis

Rafsanjani, fyrrverandi forseti Írans, nýtur mest fylgis fyrir forsetakosningar sem fram fara í landinu í næstu viku samkvæmt skoðanakönnun fréttastofunnar IRNA sem birt var í dag. 27,1 prósent landsmanna styður Rafsanjani, sem kýs aukin samskipti við Vesturlönd, en á eftir honum kemur annar umbótasinni, Mustafa Moin, með tæplega 19 prósenta fylgi.

Erlent

Samið um niðurfellingu skulda

Átta helstu iðnríki heims hafa náð samkomulagi um að létta skuldum af fátækust ríkjum Afríku. Samkomulagið náðist á fundi fjármálaráðherra ríkjanna átta í Lundúnum en ekki hafði verið búist við því að af því yrði á næstu dögum. Ekki hefur verið gefið út hvað felst nákvæmlega í samningnum en rætt hefur verið um að undanförnu að fella niður skuldir að andvirði 40 milljarða dollara.

Erlent

Brundtland stöðvuð vegna vegabréfs

Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs og yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, var í nóvember í fyrra stöðvuð við vegabréfaeftirlit á flugvellinum í Washington í Bandaríkjunum, að því er norska blaðið <em>Verdens Gang</em> greinir frá í dag. Henni var neitað að fara inn í landið þar sem vegabréf hennar uppfyllti ekki þar til gerð skilyrði.

Erlent

Bílsprengjuárás á sendiráð Slóvaka

Fjórir særðust þegar tilræðismaður sprengdi sig og pallbíl sinn í loft upp fyrir utan sendiráð Slóvakíu í Bagdad í Írak í dag. Maðurinn hugðist aka upp að sendiráðinu en var stöðvaður við hliðið fyrir utan sendiráðið og í kjölfarið sprengdi hann sig í loft upp. Nokkrir starfsmenn voru í sendiráðinu þegar sprengingin varð en engan þeirra sakaði.

Erlent

Kom upp um skattsvikahring

Spænska lögreglan hefur leyst upp alþjóðlegan skattsvikahring sem talinn er hafa svikið um 100 milljónir evra, tæplega 8 milljarða króna, út úr skattkerfi nokkurra Evrópulanda. Skattsvikararnir stofnuðu 95 fyrirtæki í sex Evrópusambandsríkjum og Bandaríkjunum sem þóttust selja hvert öðru tölvubúnað en með því fengu fyrirtækin endurgreidda skatta.

Erlent

Fékk betri einkunn en Karl

Vilhjálmur prins hefur útskrifast með meistaragráðu í landafræði. Prinsinn útskrifaðist með afar háa einkunn í faginu og hærri en faðir hans, Karl Bretaprins, fékk á sínum tíma

Erlent

Svældu risarottu úr hreiðri sínu

Lengsta og þyngsta rotta Danaveldis hefur safnast til feðra sinna, næstum helmingi stærri en meðalrotta. Hún var svæld úr hreiðri sínu undir verslunarmiðstöð í Hillerød á Norður-Sjálandi og reyndist vera 580 grömm á þyngd og 46 sentímetra löng að frátöldum halanum.

Erlent

Vildi myrða ættingja vegna arfs

Sautján ára stúlka kom fyrir rétt í Svíþjóð í gær, ákærð fyrir að reyna að myrða sex ættingja sína. Móðir hennar var myrt með hamri og faðirinn liggur í dái á sjúkrahúsi. Stúlkan vildi erfa peninga fjölskyldunnar.

Erlent

Gripinn vegna árásar á ráðherra

Danska lögreglan hefur handtekið mann sem grunaður er um að hafa kveikt í bíl innflytjendaráðherra Danmerkur, Rikke Hvilshoj, aðfararnótt miðvikudags. Eldurinn barst í hús Hvilshoj þar sem hún svaf vært ásamt fjölskyldu sinni en engan sakaði í brunanum. Lögregla komst á sporið eftir að fjölmiðlum barst tölvupóstur frá hópi sem nefnist Grænselöse Beate sem lýsti yfir ábyrgð á tilræðinu.

Erlent

Tímamót í sögu fátækustu þjóðanna

Auðugustu ríki heims samþykktu í gær að fella niður 2.600 milljarða skuld átján fátækustu ríkja heims. Enn á þó eftir að semja um frekari þróunaraðstoð og ljúka við viðskiptasamning sem kemur þróunarríkjunum til góða.

Erlent