Innlent

Hvalveiðimenn bjóða upp á hvalaskoðun

Gunnar Bergmann Jónsson segir einu breytingarnar á bátnum þær að millidekkið verður sýningarsalur með innyfli hvalanna svo sem hjarta og öðru í formalíni.
Gunnar Bergmann Jónsson segir einu breytingarnar á bátnum þær að millidekkið verður sýningarsalur með innyfli hvalanna svo sem hjarta og öðru í formalíni.

Ferðamennska Hrefnuveiðimenn ehf., sem veiða hvali og selja kjötið af þeim á innanlandsmarkaði, ætla framvegis að bjóða upp á hvalaskoðun meðfram veiðum sínum. Þeir stefna að því að hefja hvalaskoðunarferðir um miðjan mánuðinn.

„Hvalaskoðun er kannski ekki alveg rétt orðið. Við ætlum að bjóða upp á hvalaskoðun með hvalveiðimönnum. Við erum að fara að sýna hvernig hvalveiðar fara fram án þess þó að veiða sjálf dýrin. Við viljum sýna allt ferlið, leyfa fólki að kynnast okkur hvalveiðimönnum, skjótum úr byssunni og bjóðum upp á hvalkjöt," segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf., og bætir því við að ekkert þessu líkt sé í boði neins staðar í heiminum.

Hrefnuveiðimenn keyptu nýjan bát, Hrafnreyði, í vor og í kjölfarið vildu þeir finna fleiri nýtingarkosti á bátnum þar sem veiðitímabilið er takmarkað.

Skipið Hrafnreyður verður framvegis nýtt bæði til hvalveiða og hvalaskoðunar.

„Við getum nýtt bátinn án þess að breyta honum mikið og þar með komið þessu þannig fyrir að við getum á hverri stundu farið í hvalveiðar og svo sýnt inn á milli," segir Gunnar. „Einu breytingarnar á bátnum eru þær að við breyttum millidekkinu í sýningarsal þar sem við sýnum fólki innyfli hvalanna svo sem hjartað og annað í formalíni og erum svo með myndasafn af hvalveiðum bæði í gamla daga og í dag. Svo bættum við líka við klósettum."

Hvalveiðar eru víðast hvar umdeildar. Samtök ferðaþjónustunnar hafa nokkrum sinnum ályktað gegn hvalveiðum á Íslandi og á aðalfundi sínum í vor ályktuðu þau að hvalveiðar í nánd við hvalaskoðun hefðu bein neikvæð áhrif á hvalaskoðunina.

Aðspurður hvort það orki ekki tvímælis að bjóða upp á hvalaskoðun í hvalveiðiskipi segir Gunnar: „Þetta er einmitt umræðan, að hvalveiðar og hvalaskoðun geti ekki farið saman. Ég held að við eigum eftir að sjá hver viðbrögðin við þessu verða. Það getur svo sem vel verið að þetta komi í hausinn á okkur en ég hef ekki stórar áhyggjur af því. Ég held að þetta tvennt geti vel farið saman. Ferðaþjónustugeirinn á Íslandi hefur staðið í blóma síðan hvalveiðar hófust aftur."

Hrefnuveiðimenn gera út frá Kópavogi og hafa til umráða rúmlega 100 tonna skip sem getur að sögn Gunnars tekið 30 til 40 farþega. Hann segist vera spenntur fyrir því að byrja skoðunarferðir.

„Að félaginu standa menn sem hafa sumir verið að veiða allt síðan á sjöunda áratugnum en við höfum aldrei gert neitt í líkingu við þetta. Við sækjum eitt dýr á morgun og svo hættum við veiðum og hefjum ferðamennsku."- mþlAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.