Innlent

Báðir geti unað við sjávarútvegssamning

Evrópuþingið samþykkti í gær ályktun, þar sem umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu er fagnað og hún sögð geta orðið bæði Íslandi og ESB til góðs.

Þingið hvetur til þess að Ísland ljúki tvíhliða samkomulagi við Bretland og Holland um greiðslu Icesave-skuldbindinganna. Í ályktuninni segir að samkomulag, sem öll ríkin geti fallist á, muni endurreisa traust á getu Íslands til að standa við skuldbindingar sínar og efla stuðning almennings, bæði á Íslandi og í ESB, við aðildarferli Íslands.

Við afgreiðslu ályktunarinnar í gær var samþykkt breytingartillaga um að hvetja Íslendinga til að hætta hvalveiðum. Í ályktuninni segir hins vegar að þingið viðurkenni að Íslendingar hafi stjórnað auðlindum sjávar á ábyrgan og sjálfbæran hátt. Þingið segist gera ráð fyrir að bæði ESB og íslensk stjórnvöld nálgist viðræður um að Ísland taki upp sameiginlega sjávarútvegsstefnu sambandsins með „uppbyggilegu viðhorfi", þannig að útkoman verði lausn, sem báðir aðilar geti sætt sig við og þjóni hagsmunum bæði sjávar-útvegsins og neytenda, jafnt á Íslandi og í ESB.

Evrópuþingið bendir á að almenningsálitið á Íslandi hafi snúist gegn ESB-aðild og hvetur íslensk stjórnvöld til að efna til opinnar umræðu meðal almennings um aðildarferlið. Framkvæmdastjórn ESB er hvött til að aðstoða við upplýsingagjöf, þannig að almenningur á Íslandi geti tekið upplýsta ákvörðun um ESB-aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu.- sbt

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.