Skoðun

Íslenskan á að njóta vafans

Eiríkur Rögnvaldsson skrifar
Því er oft haldið fram að íslenskan standi vel um þessar mundir, og hafi jafnvel aldrei staðið sterkar. Sem betur fer er mikið til í þessu – íslenska er notuð á öllum sviðum þjóðlífsins; í stjórnkerfinu, í menntakerfinu, í verslun og viðskiptum, í fjölmiðlum, í menningarlífinu, og í öllum daglegum samskiptum fólks.

En þótt staðan virðist þannig sterk á yfirborðinu er hún brothætt – það þarf ekki mikið til að fari að molna úr undirstöðunum. Álag á íslenskuna hefur nefnilega vaxið mjög mikið á undanförnum fimm árum eða svo og mun fyrirsjáanlega aukast enn á næstunni. Fyrir því eru ýmsar ástæður en þær helstu eru:

Snjalltækjabyltingin. Flestir Íslendingar, a.m.k. yngra fólk, eiga snjallsíma eða spjaldtölvur nema hvort tveggja sé. Í gegnum þau tæki er fólk sítengt við alþjóðlegan menningarheim sem er að verulegu leyti á ensku, þar er fólk að spila leiki á ensku, horfa á myndefni á ensku o.s.frv. Notendur þessara tækja eru sífellt með þau á lofti og þannig hefur áreiti frá hinum enskumælandi heimi stóraukist.

YouTube- og Netflix-væðingin. Nær allir Íslendingar eru nettengdir og hafa þannig aðgang að ótakmörkuðu myndefni á YouTube, Netflix og öðrum efnisveitum. Búast má við að notendum Netflix fjölgi verulega nú þegar það er opinberlega í boði á Íslandi. Líklegt er að börn og unglingar séu stór hluti neytenda þessa efnis sem vitaskuld er allt ótextað.

Ferðamannastraumurinn

Fjölgun ferðamanna hefur haft mikil áhrif bæði í viðskiptalífinu og menningarlífinu. Verslanir leggja sífellt meiri áherslu á að höfða til útlendinga með auglýsingum og vörumerkingum á ensku, og sleppa jafnvel íslenskunni. Menningarviðburðir af ýmsu tagi fara einnig í auknum mæli fram á ensku til að ná til ferðamanna.

Fjölgun innflytjenda. Búast má við að fólki með annað móðurmál en íslensku fjölgi verulega á næstu árum. Þar er annars vegar um að ræða hælisleitendur og flóttamenn, og hins vegar fólk í atvinnuleit. Nýlega kom fram í fréttum að þörf væri á stórfelldum innflutningi vinnuafls á næstu árum, þannig að búast mætti við því að 15% íbúa landsins yrði af erlendum uppruna árið 2030.

Alþjóðavæðingin. Breytt heimsmynd hefur leitt til þess að fólk er hreyfanlegra en áður og íslenskir unglingar sjá ekki framtíð sína endilega á Íslandi. Í nýlegri könnun kom fram að helmingur 15-16 ára unglinga á Íslandi vill búa erlendis í framtíðinni (var þriðjungur fyrir hrun). Ekki er ótrúlegt að þetta hafi áhrif á viðhorf unglinga til íslenskunnar sem þeir vita að gagnast þeim lítið erlendis.

Allt er þetta mjög jákvætt, út af fyrir sig. Það er gott að fólk eigi kost á fjölbreyttri afþreyingu og samskiptum, ferðamannastraumurinn er kærkomin innspýting í efnahagslífið, fjölgun innflytjenda vinnur gegn lækkandi fæðingartíðni og eykur fjölbreytni þjóðlífsins, og vitanlega er frábært að æska landsins skuli eiga kost á því að sækja sér menntun og atvinnu hvert sem hana lystir og búa erlendis um skemmri tíma eða til langframa. Það er heldur ekki nema gott um það að segja að Íslendingar læri ensku sem yngstir og sem best því að hún er vitanlega lykill að svo mörgu.

Álag og þrýstingur á íslenskuna

En þetta skapar mikið álag og þrýsting á íslenskuna. Til að verða öruggir málnotendur þurfa börn og unglingar að hafa mikla íslensku í öllu málumhverfi sínu. Sá tími sem varið er í afþreyingu, samskipti og störf á ensku er að mestu leyti tekinn frá íslenskunni. Við það bætist að bóklestur á íslensku, sem er ein mikilvægasta aðferðin til að efla kunnáttu í málinu og tilfinningu fyrir því, hefur minnkað verulega á undanförnum árum, a.m.k. meðal ungs fólks.

Rasmus Rask spáði því árið 1813 að íslenskan yrði liðin undir lok í Reykjavík að 100 árum liðnum, og á öllu landinu eftir 200 ár þar frá – „ef ekki verða rammar skorður við reistar“, sagði hann. Það var einmitt það sem hann og aðrir gerðu næstu árin, reistu rammar skorður, þannig að íslenskan er enn notuð í Reykjavík eins og annars staðar á landinu. Enn er þó ekki útséð um að seinni hluti spádómsins rætist, þ.e. að íslenska verði horfin af landinu öllu árið 2113.

Íslenska deyr ekki út á næstu fimm eða tíu árum – og ekki á næstu áratugum, held ég. Hún hefur góða möguleika á að standast þann þrýsting sem hún verður nú fyrir og lifa fram yfir 2113, og vonandi gerir hún það. En til þess þarf hún stuðning, og fyrsta skrefið er að málnotendur – og stjórnvöld – átti sig á þeim gífurlegu breytingum sem hafa orðið á umhverfi og aðstæðum íslenskunnar á örfáum árum, og til hvers þær gætu leitt. Það er vissulega útilokað að segja til um langtímaáhrif þessara breytinga, en íslenskan á að njóta vafans.




Skoðun

Sjá meira


×