Fleiri fréttir

Vill funda með seðlabankastjóra

Lilja Mósesdóttir þingmaður utan flokka óskar eftir fundi seðlabankastjóra með efnahags-og skattanefnd til að ræða nýleg útboð sem lið í losun hafa á fjármagnsviðskiptum, gagnrýni OEDC á peningastefnu bankans, kosti þjóðarinnar í gjaldmiðilsmálum í ljósi vandans á evrusvæðinu og leiðir til að draga úr vægi verðtryggingar.

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna ásökunar um nauðgun

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í morgun mann sem setið hefur í gæsluvarðhaldi grunaður um nauðgun í Vestmanneyjum 31. júlí síðastliðinn í áframhaldandi gæsluvarðhald til annars september 2011 klukkan tvö. Áfram er unnið að rannsókn málsins og verða frekari upplýsingar um gang hennar ekki veittar að sinni.

Nær blindur maður ætlar í langhlaup með hvíta stafinn

Víða um borgina má sjá skokkara koma sér í form fyrir Reykjavíkurmaraþonið en blaðamenn Fréttablaðsins ráku þó upp stór augu í fyrrakvöld þegar þeir sáu Þórð Pétursson hlaupa meðfram Miklubrautinni en hann er nær blindur og notast því við blindrastaf á skokkinu.

Eigendum verði gert að sækja námskeið

Innflutningsbann á hunda af varðhundategundum leysir engan vanda. Þetta segir Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, sem vill miklu fremur sjá að eigendum og kaupendum slíkra hunda verði gert skylt að sækja þar til gert námskeið með þá, ella fái þeir ekki leyfi til að halda þá.

Það verður að fækka verkefnum ríkisins

Árni Páll Árnason segir að lengra verði ekki komist í niðurskurði eða skattahækkunum. Skera verði niður þá þjónustu sem ríkið bjóði upp á. Hann gagnrýnir aðila vinnumarkaðarins fyrir að spenna bogann of hátt í kjarasamningum.

Ný starfsgrein varð til með næturopnun

Á bilinu sextíu til sjötíu manns vinna hjá Securitas við öryggisgæslu og afgreiðslustörf samtímis. Í raun má segja að um nýja starfsgrein sé að ræða hér á landi sem á tilurð sína að þakka næturopnunum verslana, en yfir fjörutíu verslanir á höfuðborgarsvæðinu eru nú opnar allan sólarhringinn.

Frjókorn mældust vel yfir meðallagi

Frjókorn í Reykjavík mældust vel yfir meðallagi í júlímánuði og mældust um 2.000. Er mánuðurinn í hópi þriggja júlímánaða þegar fjöldi frjókorna hefur mælst svo mikill, en í fyrra urðu þau tæplega 4.000 og sumarið árið 1991 fóru frjókorn í um 2.500. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Náttúrustofnun Íslands.

Staðan verst þar sem mannfjöldi er mestur

„Það er auðvitað rík krafa á þjónustu kirkjunnar. Þess vegna þarf að fara yfir það hvað er hægt að ganga langt í niðurskurði,“ segir Ingibjörg Pálmadóttir, sem stýrir hópi á vegum innanríkisráðuneytis sem skoðar fjármál Kirkjunnar. Hópurinn á að skoða hvaða áhrif niðurskurður á framlögum til Kirkjunnar hefur haft og hve langt er hægt að ganga í þeim efnum.

Karlmaður lést við köfun

Íslenskur maður á fertugsaldri lést þegar að hann var við köfun við brúna yfir Eyrasund ásamt tveimur félögum sínum í gær. Mannsins var leitað úr þyrlu eftir að hann varð viðskila við félaga sína og fannst látinn eftir nokkra leit. Maðurinn var búsettur í Svíþjóð.

Íslenskir verkfræðinemar slá í gegn

Íslenskir verkfræðinemendur hlutu verðlaun frá Airbus á alþjóðlegri hönnunarkeppni sem haldin var í Bretlandi á dögunum - fyrir rafknúinn kappakstursbíl sem hópurinn hannaði.

Geðlæknar anna ekki eftirspurn

Geðlæknar anna ekki eftirspurn og veikir einstaklingar geta þurft að bíða í allt að þrjá mánuði eins og fréttastofa komst að í dag. Formaður geðlæknafélags Íslands segir þetta óþolandi langan tíma en geðlækna vanti einfaldlega hér á landi.

Hátt í áttahundruð stúdentar í húsnæðisvanda

Hátt í átta hundruð háskólastúdentar eru á biðlista eftir íbúðum hjá Félagsstofnun stúdenta. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir ófremdarástand ríkja í húsnæðismálum námsmanna og almennur leigumarkaður sé of dýr fyrir þennan hóp. Dæmi séu um að fólk hringi grátandi til þeirra vegna húsnæðisvandræða.

Útskrifuð af sjúkrahúsi eftir líkamsárás

Sextán ára stúlka sem var barin í höfuðið með hamri af jafnöldru sinni í Kópavogi í nótt hefur verið útskrifuð af slysadeild. Stúlkan sem réðst á hana verður kærð fyrir grófa líkamsárás en samkvæmt heimildum fréttastofu hefur hún áður komist í kast við lögin, m.a. vegna ofbeldisbrota. Sauma þurfti tuttugu og þrjú spor í höfuð stúlkunnar en hún reyndist ekki höfuðkúpubrotin. Ofbeldisstúlkan var handtekinn skömmu eftir árásina ásamt kærasta sínum en þeim var sleppt að loknum yfirheyrslum. Stúlkurnar þekktust lítillega en greindi á um eitthvað sem leiddi til árásarinnar.

Alvarlegt umferðarslys við Jökulsá á Dal

Alvarlegt umferðarslys var við Jökulsá á Dal um fjögurleytið í dag. Fjórir slösuðust, þar af einn alvarlega, en enginn mun vera í lífshættu. Verið er að sækja fólkið og koma því til byggða. Sá sem mest slasaðist verður fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur en hinum verður veitt aðhlynning á sjúkrahúsi á Egilsstöðum.

Kosið milli Sigrúnar og Kristjáns Vals

Kosið verður milli sr. Sigrúnar Óskarsdóttur og sr. Kristjáns Vals Ingólfssonar í síðari umferð í vígslubiskupskjöri í Skálholti. Kosningu til embættisins lauk fimmtudaginn 28. júlí og atkvæði voru talin föstudaginn 5. ágúst. Á kjörskrá eru 149 menn og greidd voru 146 atkvæði. Kjörsókn var 98%, samkvæmt tilkynningu frá Kirkjunni.

Skoða niðurskurð á framlögum til kirkjunnar

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefur skipað nefnd til að meta hvaða áhrif niðurskurður fjárveitinga hafi haft á starfsemi þjóðkirkjunnar og hverjar yrðu afleiðingarnar ef haldið yrði áfram á þeirri braut. Nefndin kom saman til síns fyrsta fundar á miðvikudaginn og mun skila áliti til ráðherra fyrir 1. maí á næsta ári.

Örtröð í Leifsstöð

Aldrei í sögu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hafa fleiri farþegar farið um flugstöðina í júlímánuði en í þeim mánuði sem nú er nýliðinn. Samtals fóru 332.501 farþegar um flugstöðina. Þar til nú í ár var júlímánuður 2007 sá stærsti í sögu flugstöðvarinnar en þá fóru samtals 309.004 farþegar um stöðina.

Samningafundi leikskólakennara lauk án niðurstöðu

„Það komu engar nýjar lausnir á fundinum. Hann var samt ekki til einskis,“ segir Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara. Forystumenn félagsins fundaði í allan dag með viðsemjendum sínum um kjaramál. Haraldur segir að fundurinn í dag hafi verið mikilvægur varðandi framhald umræðna. Næsti fundur er á mánudaginn.

Rannsókn lokið á máli fyrrverandi fangelsisstjóra á Kvíabryggju

Lögreglan hefur lokið rannsókn á máli Geirmundar Vilhjálmsson, fyrrverandi fangelsisstjóra á Kvíabryggju. Málið verður sent til ríkissaksóknara á næstu dögum sem tekur ákvörðun um hvort ákæra verður gefin út. Geirmundur var handtekinn og húsleit gerð á heimili hans í mars vegna gruns um stórfelldan fjárdrátt á meðan hann gegndi starfi sínum á Kvíabryggju. Honum var vikið frá störfum á síðasta ári eftir að Fangelsismálastofnun beindi því til ráðuneytis dómsmála að rannsaka fjármál fangelsisins á Kvíabryggju. Þá hefur Ríkisendurskoðun gert alvarlegar athugasemdir við fjárreiður fangelsisins. Talið er að Geirmundur hafi notað fé og eigur fangelsins til einkanota. Meðal annars er hann grunaður um að hafa notað greiðslukort fangelsisins í eigin þágu, og að hafa selt vörubíl í eigu ríkisins, sem fangelsið hafði til afnota, hirt sjálfur ágóðann en tilkynnt fangelsismálayfirvöldum að bíllinn hafi verið ónýtur.

Reykjavík orðin Bókmenntaborg UNESCO

Reykjavíkurborg hefur verið útnefnd ein af Bókmenntaborgum UNESCO. Reykjavík er fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan titil, en fyrir í samtökum Bókmenntaborga UNESCO eru Edinborg í Skotlandi, Iowa City í Bandaríkjunum, Melbourne í Ástralíu og Dublin á Írlandi. Reykjavík er því fyrsta borgin utan enska tungumálasvæðisins til að hljóta titilinn, sem er varanlegur að því tilskyldu að borgirnar standi undir skuldbindingum sínum. Í útnefningunni segir meðal annars að Reykjavík státi af framúrskarandi bókmenntahefð í formi ómetanlegra miðaldabókmennta sem varðveittar eru í borginni og eru Íslendingasögurnar, Eddukvæði og Íslendingabók nefnd sérstaklega. Þá segir að þessi rótgróna hefð sýni sig í varðveislu, miðlun, bókmenntakennslu og kynningu bókmennta í dag. Einnig er tekið til þess að svo fámenn borg sinni bókmenntum af svo miklum krafti sem raun ber vitni, með þátttöku og samvinnu ólíkra aðila sem koma að bókmenningu og miðlun bókmennta, svo sem útgefenda, bókasafna og rithöfunda. "Ég fagna því innilega að Reykjavík skuli hafa verið valin bókmenntaborg UNESCO. Þetta er mikill heiður fyrir Reykjavík. Íslendingar eru þekktir fyrir listir og menningu út um allan heim og þetta er staðfesting á því hvað menning okkar er verðmæt. Af öllum okkar auðæfum er menningin dýrmætust," segir Jón Gnarr borgarstjóri, sem fékk tilkynningu um útnefninguna í gær. Ali Bowden, framkvæmdastjóri Bókmenntaborgarinnar Edinborgar segir: "Við erum himinlifandi yfir því að Reykjavík hafi sé komin í hóp Bókmenntaborga UNESCO. Útnefningin mun eiga þátt í að vekja athygli á bókmenntum og bókmenntalífi borgarinnar út um allan heim. Hún mun stuðla að menningarlegum vexti borgarinnar líkt og gerst hefur í Edinborg og Reykjavík verður mikilvægur samstarfaðili í okkar alþjóðlega samstarfsneti."

Formaður Félags leikskólakennara: Menn eru að tala saman

Búist er við að samningafundur fulltrúa leikskólakennara og samninganefndar sveitarfélaga standi fram eftir degi. Fundurinn hófst klukkan hálf ellefu í morgu en engir fundir hafa verið haldnir á síðustu vikum. Leikskólakennarar hafa boðað til verkfalls þann 22.ágúst næstkomandi ef kjarasamningar nást ekki fyrir þann tíma. "Menn eru að tala saman," segir formaður Félags leikskólakennara, Haraldur F. Gíslason, í samtali við fréttastofu en gefur annars lítið upp um gang mála.

Ætla að uppræta svarta atvinnustarfsemi

Farið hefur verið í rúmlega tólf hundruð fyrirtæki og vinnustaði um allt land í átaki ríkisskattstjóra, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ gegn svartri atvinnustarfssemi frá því í byrjun sumars og eru nú hundruð mála til skoðunar sem lúta að virðisauka-skattsskilum og tekjuskatti einstaklinga.

Umfangsmikil kannabisræktun stöðvuð á Suðurnesjum

Fíkniefnadeild lögreglunnar á Suðurnesjum stöðvaði umfangsmikla kannabisræktun í heimahúsi á fimmtudag. Við húsleitina var lagt hald á um 200 kannabisplöntur á ýmsum ræktunarstigum. Einnig var lagt hald á búnað til ræktunar. Húsráðandinn var handtekinn á staðnum og við yfirheyrslu viðurkenndi hann ræktunina og telst málið upplýst. Lögreglan á Suðurnesjum minnir á fíkniefnasímsvarann, sem er 800-5005. En þangað er hægt að hringda nafnlaust með ábendingar um fíkniefnamisferli.

Buðu farþegum í Bláa lónið vegna seinkunar

Iceland express hefur vegna seinkunar á flugi í morgun boðið farþegum í Bláa lónið þar sem einnig verður matur á boðstólnum. Um er að ræða seinkun á flugi félagsins til Almeria á Spáni vegna bilunar í vél. Upphaflega var fluginu seinkað til ellefu en nú hefur verið gefið út að næstu upplýsingar fáist klukkan eitt eftir hádegið. Flugvélin sem átti að fara til Almeria er nú á Egilsstöðum þar sem hún lenti á leið sinni frá London. Unnið er að viðgerðum á vélinni. Einhverjir farþegar eru á leið í Bláa lónið en ósáttur farþegi sem hafði samband við fréttastofu segir konurnar margar hafa áhyggjur af því að allt snyrtidót þeirra sé í farangrinum og þær geti því ekki málað sig eftir ferð í Bláa lónið. Þá segist hann óttast að ástæður þess að farþegum sé boðið í mat og í Bláa lónið vera þá að búist sé við frekari seinkunum.

Breytingar vegna Gay Pride

Talsverðar breytingar verða á akstri Strætó á morgun vegna gleðigöngu Hinsegin daga og hátíðahalda í miðborginni.

Dregur úr líkum á hlaupi í Skaftá

Verulega hefur dregið úr líkum úr hlaup úr eystri Skaftárkatli. Mæligildi aurs og leiðni eru ennþá há, en rennsli árinnar hefur ekki aukist. Sérfræðingur hjá Veðurstofunni segir þessar veiflur skýrast fyrst og fremst af dægursveiflu jökulleysingar og því að vestari ketilinn er að tæmast.

Fiskidagurinn mikli settur í dag

Fjölskylduhátíðin Fiskidagurinn mikli hefst á Dalvík hefst í dag. Þetta er í ellefta sinn sem hátíðin er haldin en hún verður sett í Dalvíkurkirkju klukkan sex með Vináttukeðjunni svokölluðu, þar sem fram koma meðal annars Friðrik Ómar og Matti Matt. Um fimm þúsund friðardúfublöðrum verður sleppt og flugeldum skotið á lofti. Fiskverkendur og aðrir framtakssamir í byggðarlaginu bjóða gestum og gangandi upp á ljúffenga fiskrétti milli klukkan 11.00 og 17.00 á laugardag. Matseðillinn breytist ár frá ári þó vinsælir réttir fyrir ára fái iðulega að halda sé, svo sem fiskborgararnir. Þeir eru grillaðir á lengsta grilli landsins en grillið er færiband og á því steikjast borgararnir um átta metra leið. Frekari upplýsingar um hátíðina má finna með því að smella hér.

Sögulegt samhengi réð ákvörðun

Innanríkisráðuneytið og utanríkisráðuneytið kostuðu flutning kistu Sævars Ciesielski frá Danmörku til Íslands. Ætla má að kostnaðurinn hafi numið allt að hálfri milljón króna.

Tvær nauðganir til viðbótar kærðar

Tvær nauðganir sem áttu sér stað um verslunarmannahelgina voru kærðar í gær. Kona á þrítugsaldri kærði mann til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir nauðgun og hefur hann verið yfirheyrður. Nauðgunin er sögð hafa átt sér stað í heimahúsi, en maðurinn og konan þekkjast. Maðurinn ber fyrir sig minnisleysi, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Þorskurinn kominn í tísku hjá landanum

Neysla á þorski hefur stóraukist hjá landsmönnum frá bankahruni. Þetta sést á tölum sem Fiskistofa hefur tekið saman fyrir fisksala og stemmir við upplifun fisksala sem Fréttablaðið ræddi við. Eins gefa bráðabirgðatölur úr rannsókn, sem Matís er að gera um fiskneyslu Íslendinga, þetta sterklega til kynna.

Kreppan bjargaði bátasmið í Brákarey

Kreppan og samkomulag Borgarbyggðar við Orkuveitu Reykjavíkur hafa bjargað Þorsteini Mána Árnasyni frá hrakhólum með 30 tonna bát sinn sem hann er að smíða í húsnæði Borgarbyggðar. Eftir margra ára deilur fær hann nú að hafast þarna við áfram í sátt við guð og menn.

Kona stal snyrtivörum í Lyfju

Kona var handtekinn í Lyfju við Smáratorg í gærkvöldi eftir að starfsfólk þar hringdi á lögreglu, en það grunaði hana um þjófnað.

Sextán spor eftir bit Rottweiler-hunds

Sauma þurfti sextán spor í handlegg tólf ára stúlku eftir að Rottweiler-hundur réðst á hana í Innri-Njarðvík í fyrrakvöld. Faðir stúlkunnar, Ingi Þór Þórisson, segir hana felmtri slegna eftir árásina.

Rétturinn til ástarinnar

Við byrjuðum smátt, með útihátíð á Ingólfstorgi árið 1999. Áður höfðum við tvívegis reynt að fara í göngur til að vekja athygli á málstað okkar, 1993 og 1994. Annað árið komu 72 og hitt árið 71 ef ég man rétt. Tími okkar var ekki kominn,“ segir Þorvaldur Kristinsson, forseti Hinsegin daga, um upphaf hátíðarinnar. Hátíðin er haldin þessa dagana í þrettánda skipti. „Á þeim þrjátíu árum sem ég hef starfað með hreyfingu hinsegin fólks hefur gríðarlega margt gerst, bæði hvað varðar viðhorf samkynhneigðra til sjálfra sín og viðhorf þjóðarinnar til okkar. Nefnd til að kanna stöðu samkynhneigðra var skipuð 1993 og skilaði skýrslu árið 1994 sem varð til þess að lög um staðfesta samvist voru samþykkt 1996. Þetta varð til þess að samfélagið opnaðist á hátt sem engan óraði fyrir. Samkynhneigðir eignuðust sjálfstraust sem þeir höfðu ekki átt áður,“ segir hann og minnist þess síðan þegar Heimir Már Pétursson hvatti til þess að stofnað yrði sérstakt félag, eftir fyrstu hátíðina á Ingólfstorgi, og efnt yrði til gleðigöngu að erlendri fyrirmynd. „Fyrir þetta verð ég honum ævinlega þakklátur, og aðra helgina í ágúst árið 2000 lögðum við af stað í göngu. Við vissum eiginlega ekki hvaðan á okkur stóð veðrið þegar við komum fyrir hornið á Hlemmi því allt í einu var mikill fjöldi saman kominn í miðbænum.“ Þorvaldur segir að þá hafi um fimm þúsund manns mætt á svæðið en síðan hefur hátíðin vaxið og nú er talið að um 70 til 90 þúsund mæti í gönguna.

Hætt hjá Bankasýslu ríkisins

Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslu ríkisins, hefur sagt upp störfum og verður staða hennar auglýst til umsóknar í næstu viku. Hún hafði gegnt stöðu forstjóra allt frá því að stofnunin tók til starfa í upphafi árs 2010.

Vilja endurskilgreina hlutverk ríkisins

Tveir ráðherrar hafa nú stigið fram og lagt til að hlutverk ríkisvaldsins verði endurmetið. Meta þurfi öll verkefni og skilgreina grunnþjónustu upp á nýtt. Sveitarfélögin munu gegna meira hlutverki í framtíðinni. Fjármálaráðherra segir grundvallarbreytinga á hlutverki ríkisins ekki að vænta.

Öryggismálin sögð veigamest

Flugmenn hjá Flugfélagi Íslands skrifuðu undir kjarasamning við Flugfélag Íslands um tvöleytið í gær. Hafsteinn Pálsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, segir að veigamesti þátturinn í nýju samningunum lúti að starfsöryggismálum. Hann vill að öðru leyti ekki tjá sig um samningana. Atkvæði verða greidd um nýju samningana á næstu dögum.

Kostar sama að breyta og byggja

Kostnaður við að breyta hjúkrunarheimilinu að Víðinesi þannig að það uppfylli kröfur sem öryggis- og gæsluvarðhaldsfangelsi, er 1,9 milljarðar króna. Nýbygging kostar, samkvæmt áætlunum, rétt rúma 2 milljarða króna.

Sjá næstu 50 fréttir