Fleiri fréttir

Misráðin ályktun

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna segja að ályktun Sjálfstæðisflokksins um að synjunarvald forsetans verði fellt úr gildi, sé misráðin og beri ekki vott um sáttatón. Flokkurinn sé hikandi við að ákveða hvað eigi að koma í staðinn.

Sjálfstæðisflokkurinn mildast

Sjórnmálafræðingar virðast nokkuð sammála um að yfirbragð Sjálfstæðisflokksins muni mildast við brotthvarf Davíðs Oddssonar. Að öðru leyti er ekki búist við miklum breytingum. Úlfar Hauksson, stjórnmálafræðingur á ekki von á miklum breytingum og benti á að forystan hefði náð kjöri með miklum yfirborðum á landsfundinum. Því hefði forystan í góðan styrk á bakvið sig og gott umboð. Hann sagði að flokkurinn héldi sínu striki.

Biðtími flóttamanna 7-8 vikur

Að jafnaði tekur sjö til átta vikur að afgreiða umsóknir útlendinga um hæli hér á landi. Dæmi eru þó um að hælisleitendur hafi þurft að bíða á annað ár eftir endanlegu svari.

Ólíklegt að neytendur sjái lækkun

Ólíklegt er að lækkun á matarskatti skili sér í vasa neytenda. Líklegra er að verslanir og heildsalar hækki álagningu sem skattalækkuninni nemur segir Guðmundur Ólafsson lektor í hagfræði. Allsherjarskattalækkanir skili sér mun betur til almennings.

Dæmd fyrir að aka á pilt

Kona á Akureyri var í dag dæmd til þrjátíu daga skilorðsbundinnar fangelsisvistar og svipt ökuleyfi í tvo mánuði fyrir að keyra yfir gatnamót á rauðu ljósi og aka á ungan pilt sem var á leið yfir gangbraut.

Vilja flytja inn erfðaefni í kýr

Borgfirskir kúabændur segja vísbendingar um að íslenska búkolla fullnægi ekki til frambúðar aukinni eftirspurn eftir mjólkurvörum og vilja því að hafinn verði undirbúningur að innflutningi erfðaefnis frá útlöndum.

Vatnstjón á tuttugu húsum

Um tuttugu hús urðu fyrir vatnstjóni á Höfn í Hornafirði um helgina eftir einhverja mestu úrkomu á svæðinu í manna minnum. Enn er verið að meta skemmdir.

Málið snýst um krónur og aura

Krónur og aurar eru vandamálið í varnarviðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna. Hvað mega varnir landsins kosta og hvað telst til þeirra er lykilspurningin.

Lokað prófkjör

Ákveðið hefur verið að hafa lokað prófkjör hjá Samfylkingunni í Hafnarfirði við uppstillingu á lista flokksins fyrir næstu sveitastjórnarkosningar. Tillaga kom fram á félagsfundi um að hafa opið prófkjör en aðeins um fjórðungur félagsmanna var hlynntur því.

Hnútukast um bensínstyrk

Framsóknarmenn telja Árna Mathiesen fjármálaráðherra varpa áformum um afnám bensínstyrks öryrkja og aldraðra yfir á heilbrigðisráðherra. Rýtingsstunga í bak Jóns Kristjánssonar segir stjórnarandstaðan.

Vatnið að sjatna á götum Hafnar

Töluvert hefur sjatnað í vatninu á götum Hafnar í Hornafirði eftir einn mesta vatnselg í manna minnum í gær. Þá flæddi inni tíu til fimmtán hús í bænum og höfðu bæjarstarfsmenn og slökkvilið í nógu að snúast að dæla vatninu burt og var vatn eins metra hátt á sumum stöðum í bænum. Rigningunni slotaði í nótt eftir að það hafði rignt stanslaust í nær tvo sólarhringa og að sögn lögreglu sjatnaði vatnið af sjálfu sér í kjölfarið.

Lagði til manns með hnífi á balli

Maður er í haldi lögreglunnar á Selfossi eftir að hann lagði til annars manns með hnífi á dansleik í bænum í gærkvöld. Sá sem lagt var til slasaðist lítillega á höfði og var hann færður undir læknishendur og voru saumuð nokkur sporið í höfuðið á honum. Árásarmaðurinn mun hafa verið ölvaður og verður hann yfirheyrður þegar ölvíman rennur af honum.

Ekið á pilt á Hverfisgötu í gær

Ekið var á pilt á Hverfisgötu um klukkan hálfellefu í gærkvöld. Að sögn lögreglu er hann kominn til meðvitundar. Mikil ölvun var í miðborg Reykjavíkur í gærkvöld og nótt og höfðu laganna verðir í nógu að snúast, meðal annars við að ganga á milli manna sem slógust í borginni. Þá voru fimm teknir ölvaðir við akstur.

Fjöldi veiðimanna í Árnessýslu

Töluverður fjöldi rjúpnaveiðimanna var á ferð um uppsveitir Árnessýslu í gær þegar veiðitímabilið hófst og hafði lögregla á Selfossi eftirlit með þeim. Lögreglu barst ein tilkynning um skyttu á veiðum á óleyfilegum stað og þegar betur var að gáð hafði hún ruglast og farið öfugum megin girðingar sem skilur að veiðisvæði og bannsvæði.

Lét ófriðlega á skemmtistöðum

Lögregla í Kerflavík þurfti í nótt að hafa afskipti af manni sem lét ófriðlega á skemmtistöðum í miðbæ Keflavíkur. Maðurinn mun hafa ráðist á annan mann á skemmtistað og slegið hann og var það tilkynnt til lögreglu. Þegar hún kom á vettvang var maðurinn á bak og burt og hafði þá farið á annan veitingastað. Þar handtók lögregla hann þar sem hann var við það að lenda í stimpingum við annan mann og var hann látinn gista fangageymslur á meðan hann róaði sig.

Ekki vitað hversu mikið tjónið er

Vatnið á götum Hafnar í Hornafirði sjatnaði mikið í nótt eftir eina mestu úrkomu og vatnselg í manna minnum þar í bæ í gær. Ekki liggur fyrir hversu mikið tjónið varð í flóðunum.

Frumvarp kosti 650 milljónir

Gróft mat frá Fjársýslu ríkisins segir að eftirlaunafrumvarpið umdeilda kosti 650 milljónir króna, eða 50 prósentum meira en haldið var fram á þingi.

Snarpur skjálfti í Vatnajökli

Jarðskjálfti, upp á 3,6 stig á Richter, reið yfir í Vatnajökli í gærkvöld, fjórtán kílómetra suður af Trölladyngju og fleiri skjálftar fylgdu í kjölfarið í nótt og í morgun. Heilmikil virkni hefur einnig verið austur af Grímsey frá því fyrir helgi. Síðustu ár hafa viðlíka hrinur gengið yfir á þessum svæðum og enn er ekki sjá að þær boði nokkuð sérstakt, að sögn Ragnars Stefánssonar jarðskjálftafræðings.

Hafi hugsanlega verið ýtt

Nítján ára piltur hlaut alvarlega áverka á höfði þegar ekið var á hann á Hverfisgötu klukkan hálfellefu í gærkvöld. Hann var í litlum hópi ungmenna að skemmta sér, að sögn lögreglu, og var áfengi haft um hönd. Svo virðist sem pilturinn hafa annað hvort farið út á götuna eða verið ýtt. Ökumaður bílsins var 21 árs gömul stúlka. Enginn var handtekinn, en þrjú ungmenni voru flutt á lögreglustöð í áfalli.

Flestir fara að lögum og reglum

Rjúpnaveiðiðimenn virðast flestir hafa farið að lögum og virt tilmæli um hóflegar veiðar þann sólarhring sem liðinn er af veiðitímabilinu, en misjafnlega hefur viðrað til veiða á landinu.

Barátta um varaformannsembætti

Landsfundi Sjálfstæðisflokksins í Laugardalshöll, sem staðið hefur síðan á fimmtudag, lýkur um miðjan dag í dag. Geir H. Haarde utanríkisráðherra tekur við sem formaður flokksins af Davíð Oddssyni en Geir er sá eini sem hefur boðið sig fram til starfans. Þá verður kosið um eftirmann Geirs í embætti varaformanns flokksins klukkan þrjú í dag, en þau Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri hafa þegar gefið kost á sér.

Tvö umferðaróhöpp í gærkvöld

Tvö umferðaróhöpp urðu í umdæmi lögreglunnar í Borgarnesi í gærkvöld og var um útafasktur að ræða í báðum tilvikum. Bíll fór út af veginum við Reykholt um klukkan hálftíu. Engin slys urðu á fólki en fjarlægja þurfti bílinn með dráttarbíl. Svipað var uppi á teningnum á Holtavörðuheiði laust eftir klukkan ellefu í gærkvöld en þá skemmdist fólksbíll nokkuð þegar hann fór út af veginum. Enginn í bílnum slasaðist.

Býst við að taka ákvörðun

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra segist ekki sjá neitt annað í spilunum en að hann taki ákvörðun um nýjan saksóknara sem taka á við þeim 32 ákæruatriðum í Baugsmálinu sem Bogi Nilsson ríkissaksóknari sagði sig frá fyrir helgi. Þetta sagði ráðherrann í Silfri Egils á Stöð 2 fyrr í dag.

Níu konur í miðstjórn

Kosningu í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins sem fram fór á landsfundi í Laugardalshöll er lokið, en alls börðust 24 um ellefu sæti í stjórninni. Alls voru níu konur kjörnar í miðstjórnina og tveir karlar, en það eru Birna Lárusdóttir, Unnur Brá Konráðsdóttir, Elínbjörg Magnúsdóttir, Grímur Gíslason, Magni Kristjánsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Björk Guðjónsdóttir, Helga Þorbergsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Stefanía Katrín Karlsdóttir, Sigríður Ásthildur Andersen.

Sjálfstæði fjölmiðla verði tryggt

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins skorar á Alþingi að setja lög sem tryggja sjálfstæði íslenskra fjölmiðla með hagsmuni samfélagsins af heiðarlegri og vandaðri fjölmiðlun að leiðarljósi. Þetta kemur fram í ályktun nefndar um menningarmál sem samþykkt var á fundinum í dag.

Búið að yfirheyra mann á Selfossi

Lögregla á Selfossi hefur nú sleppt manni sem handtekinn var á dansleik í nótt eftir að hann lagði til annars manns með hnífi. Að sögn lögreglu var árásarmaðurinn, sem var ölvaður þegar atvikið átti sér stað, yfirheyrður þegar ölvíman rann af honum og honum sleppt í kjölfarið. Málið fer nú til sýslumanns sem tekur ákvörðun um ákæru á hendur manninum.

Vill afnema synjunarvald forseta

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur óhjákvæmilegt að ákvæði 26. greinar stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta verði numið úr gildi. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var að fundinum í dag. Þá telur fundurinn að huga verði að almennri heimild í stjórnarskrá til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál.

Truflun á netsambandi við útlönd

Truflun hefur orðið á netsambandi við útlönd vegna bilunar í endabúnaði Farice-sæstrengsins í Skotlandi. Þetta kemur fram á heimasíðu Farice. Viðgerð á strengnum stendur yfir og er búist við að hann verði kominn í lag síðar í dag. Á meðan fer öll umferð um Cantat 3 sæstrenginn.

Pilturinn útskrifaður af gjörgæslu

Nítján ára piltur, sem hlaut alvarlega áverka á höfði þegar ekið var á hann á Hverfisgötu í gærkvöld, er á batavegi og hefur verið útskrifaður af gjörgæsludeild. Pilturinn var í litlum hópi ungmenna að skemmta sér þegar hann annað hvort fór út á götuna af sjálfsdáðum, eða var ýtt, að sögn lögreglu.

Geir hlaut 94,3 prósent atkvæða

Geir H. Haarde utanríkisráðherra var rétt í þessu kjörinn áttundi formaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi flokksins í Laugardalshöll. Geir hlaut 94,3 prósent atkvæða, en hann gaf einn kost á sér til formanns. 23 aðrir sjálfstæðismenn hlutu samtals 65 atkvæði, en auðir seðlar voru 40. Nú stendur yfir varaformannskjör en þar höfðu Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, gefið kost á sér.

300 skjálftar við Grímsey

Grímseyjarhrinan er í rénun og verða nú um tveir skjálftar á klukkutíma. Alls hafa skráðst ríflega 300 skjálftar síðan á föstudagseftirmiðdag.

Þorgerður fékk 62,3% atkvæða

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir var rétt í þessu kjörin varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún fékk 728 atkvæði eða 62,3% greiddra atkvæða en mótframbjóðandi hennar, Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, hlaut 424 atkvæði eða 36,3% greiddra atkvæða. Tíu aðrir sjálfstæðismenn fengu samtals 16 atkvæði.

Hrærður og þakklátur

Geir H. Haarde var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með nær öllum greiddum atkvæðum á landsfundi flokksins í dag. Nýr formaður sagðist hrærður og þakklátur en sá gamli gekk á táknrænan hátt af hinu pólitíska sviði.

Störf sjúkraflutningamanna trufluð

Nítján ára piltur hlaut alvarlega höfuðáverka þegar ekið var á hann á Hverfisgötu í gærkvöld. Fjarlægja þurfti ungmenni af slysstað sem trufluðu starf lögreglu og sjúkraflutningamanna.

Bensínstyrkir verði ekki skertir

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins samþykkti í dag að hvetja til þess að fallið verði frá því að skerða bensínstyrk til öryrkja. Þá vilja sjálfstæðismenn að styrkir hreyfihamlaðra til bifreiðakaupa verði auknir.

Eignarhaldið skorðað

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins skorar á Alþingi að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum. „Að undanförnu hefur nauðsyn rammalöggjafar um starfsemi fjölmiðla orðið æ augljósari,“ segir í ályktun fundarins.

Geir gengur auðmjúkur til verks

„Ég er mjög ánægður með þessi úrslit og glaður yfir því að hafa fengið svona mikið traust hjá landsfundarfulltrúum og mun að sjálfsögðu gera mitt besta til þess að standa undir því,“ segir Geir Hilmar Haarde, nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins. Geir segir að samstaða hafi ríkt um þær ályktanir sem voru til meðferðar á fundinum.

Þörf á löggjöf um fjölmiðla

„Þetta var alveg stórkostlegt og frábær stuðningur að fá næstum því tvo þriðju atkvæða. Ég er mjög þakklát fyrir það,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Hún segir fundinn hafa verið kraftmikinn, þar hafi verið bæði mikið af ungu fólki og ekki síður nýju fólki innan flokksins.

Vilja afnema synjunarvald

Sjálfstæðisflokkurinn telur óhjákvæmilegt að fella úr gildi 26. grein stjórnarskrár lýðveldisins um synjunarvald forsetans. Þetta kemur fram í ályktun landsfundar flokksins frá því um helgina. Í ályktun fundarins er tekið fram að huga eigi að heimild í stjórnarskrá til þjóðar­atkvæðagreiðslu um tiltekin mál.

Tvöföldun líklega samþykkt

Búist er við að bæjarstjórn Garðabæjar samþykki í vikunni tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi að Kaplakrika. Ný tillaga sem gerir ráð fyrir betri hljóðvörnum hefur líka hlotið samþykki íbúa sem hafa hingað til verið mótfallnir tvöföldun brautarinnar.

Kanóar horfnir af götunum

Tekist hefur að dæla öllu vatni burt af götum Hafnar í Hornafirði, að sögn Helga Más Pálssonar bæjarverkfræðings. Bæjarbúar eru því hættir að róa um göturnar á kanóum og geta gripið til bílanna á ný.

Björn finnur saksóknara

Björn Bjarnason sagði í Silfri Egils  í gær að hann myndi sennilega taka ákvörðun um nýjan saksóknara sem á að taka við þeim 32 ákæruatriðum í Baugsmálinu. Bogi Nilsson ríkissaksóknari sagði sig frá málinu fyrir helgi.

Óljóst hvað gerðist

Bilun varð hjá þjónustuaðila Farice-sæstrengsins aðfaranótt sunnudags. Í gær var enn ekki ljóst hvað hefði valdið biluninni.

Brot á samkeppnislögum

Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að sú ákvörðun að semja ekki við klíníska sálfræðinga um greiðsluþátttöku ríkisins í kostnaði sjúkratryggðra gangi gegn markmiðum samkeppnislaga. 

Sjá næstu 50 fréttir