Fleiri fréttir

Vinstri grænir krefjast rannsóknar á Kárahnjúkum

Þingflokkur vinstri grænna hefur sent frá sér tilkynningu þar sem segir að flokkurinn krefjist opinberrar rannsóknar á aðbúnaði verkamanna við Kárahnjúka. Fjöldi verkamanna á svæðinu hefur veikst vegna mengunar og matareitrunar. Rannsóknin skuli beinast að alvarlegum ásökunum í fréttum undanfarna daga um: „vítaverða vanrækslu af hálfu Impregilo á vinnusvæðinu við Kárahnjúkavirkjun.“

Varðskipið Óðinn breytist í leiksvið

Varðskipið Óðinn umbreytist í leiksvið þegar flutt verður þar leikritið Gyðjan í vélinni. Verkið er á dagskrá Listahátíðar í Reykjavík og verður frumflutt 10. maí næstkomandi. Áhorfendur verða leiddir um vistarverur skipsins þar sem brugðið verður upp táknmyndum af konunni gegnum árþúsundir á nýstárlegan hátt.

Nemendur setja sig í spor þingmanna

Í nýju kennsluveri Alþingis er búið að útbúa aðstöðu svo nemendur geti farið í hlutverkaleik og sett sig í spor þingmanna. Nemendur í efri bekkjum grunnskólanna geta þar sett lög og farið á þingfundi og fengið að sjá hvernig dagleg störf þingmanna eru.

Landsbankinn með viðskiptaskrifstofu í Winnipeg

Landsbankinn opnaði í gær viðskiptaskrifstofu í Winnipeg í Manitoba. Að mati stjórnenda bankans býður borgin upp á ýmis tækifæri en tengslin við frændsystkin okkar í Vesturheimi höfðu einnig sitt að segja við staðarákvörðunina.

Leggja ekki meira fé í Bakkavík

Bæjaryfirvöld í Bolungarvík munu ekki leggja meira hlutafé inn í fiskvinnslufyrirtækið Bakkavík, sem hefur sagt upp 48 starfsmönnum. Bolungarvíkurkaupstaður á talsverðan hlut í fyrirtækinu, en að sögn bæjarstjórans liggur lausnin ekki í auknu hlutafé, verðmætin í sjávarútvegi liggi í kvótanum og hann eigi fyrirtækið ekki.

Geðfatlaðir fá húsnæði um allt land

Hátt í 70 geðfatlaðir fá viðvarandi húsnæði um allt land á þessu ári og er áætlað að rúmlega helmingur þeirra fái það afhent í sumar. Þetta er liður átaks í þjónustu við geðfatlað fólk sem félagsmálaráðuneytið kynnti í lok síðasta árs.

Líðan drengsins óbreytt

Líðan fimmtán ára drengs sem fannst meðvitundarlaus á botni Sundlaugar Kópavogs í fyrradag er óbreytt. Honum er haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi.

Átök í Tallin

Allt logaði í óeirðum í Tallin höfuðborg Eistlands í gærkvöldi - annað kvöldið í röð. Deilt er um sovéskt minnismerki sem yfirvöld fjarlægðu úr höfuðborginni í gær en þar hefur það staðið í áratugi. Tíu mótmælendur særðust í átökum við lögreglu í gær og þrjú hundruð úr hópi þeirra voru handteknir.

Skíðasvæði á Akureyri og Siglufirði opin

Skíðasvæði á Akureyri og Siglufirði eru opin í dag. Færi á báðum stöðum ber merki vorsins. Það er blautt og þungt en veður gott. Í Hlíðarfjalli er sól og blíða og í tilkynningu segir að þótt færi sé þungt, sé hægt að njóta veðurblíðunnar og fuglasöngsins í fjallinu.

Geitburður hafinn í húsdýragarðinum

Sex kiðlingar fæddust í Húsdýragarðinum í gær og þykja tíðindin endanlega boða vorkomu. Fjórar kvenkynsgeitur báru kiðlingana sex og var jafnræði milli kynjanna, því þrír hafrar komu í heiminn og þrjár huðnur, eða geitastelpur. Hafurinn Brúsi er faðir allra kiðlinganna, en mæðurnar eru Perla, Snotra, Dáfríð og Ísbrá.

Vorhreinsun Reykjavíkurborgar hófst í morgun

Árleg vorhreinsun Reykjavíkurborgar hófst í morgun og stendur til 5. maí. Hverfstöðvar munu sjá um að fjarlægja garðaúrgang sem settur hefur verið út fyrir lóðarmörk. Garðeigendur eru beðnir um að nýta tækifærið og klippa grópur sem vex út fyrir lóðamörk og hindrar umferð.

Frá uppgröftrum

Mikil umskipti í fornleifarannsóknum á síðustu árum eru að skila bráðabirgðaniðurstöðum og þeim verður að skila til almennings og fræðasamfélagsins, heima og heiman. Fornleifafræðingar halda ráðstefnu í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í dag og kynna bráðabirgðaniðurstöður úr rannsóknum sem eru í gangi og hefst hún kl. 13 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins.

Kveikt í óskráðum bifreiðum í Keflavík

Grunur leikur á að kveikt hafi verið í óskráðum bíl rétt eftir miðnætti í nótt í Keflavík. Slökkvilið var kallað til og réði niðurlögum eldsins. Á síðustu tveimur vikum er grunur um íkveikju í fimm tilfellum þar sem eldur kom upp í óskráðum bifreiðum í Njarðvík og Keflavík.

Aflétta banni á demanta-útflutningi

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í gær að aflétta banni á útflutningi á demöntum frá Afríkuríkinu Líberíu. Bannið hefur verið í gildi frá 2001 og var sett á til að koma í veg fyrir að ágóðinni af sölunni yrði notaður til að fjármagna stríð í Vestur-Afríku.

Jarðskjálfti skók Kent sýslu í Englandi

Jarðskjálfti sem mældist fjórir komma sjö á Richter skók Kent-sýslu á Englandi í morgun. Raflínur féllu til jarðar og rafmagnslaust er á stóru svæði. Skemmdir urðu á húsum. Engar fréttir hafa borist af slysum á fólki. Fram kemur á fréttavef BBC að sérfræðingar telji upptök skjálftans hafa orðið um tuttugu og fimm kílómetra suður af Canterbury og um tíu kílómetra undir jarðskorpunni.

Tíu særðust í mótmælum í Tallin

Tíu særðust og þrjú hundruð mótmælendur voru handteknir í óeirðum í Tallin, höfuðborg Eistlands, í gærkvöldi. Þetta er annar dagurinn í röð sem til átaka kemur. Tekist er á um niðurrif á sovésku minnismerki sem hefur staðið í miðborginni í áratugi.

Slasaðist alvarlega á fjórhjóli

Maður slasaðist alvarlega á fjórhjóli við Hvítársíðu skammt frá Húsafelli um tvö leitið í nótt. Hann var fluttur á slysadeild í Reykjavík. Samkvæmt vakthafandi lækni er maðurinn hryggbrotinn og liggur á gjögræslu. Hann fer í aðgerð seinna í dag. Tildrög slyssins eru ókunn.

Búið að opna þjóðveginn á Öxnadalsheiði

Búið er að opna þjóðveginn á Öxnadalsheiði eftir að vegurinn lokaðist þegar tengivagn af olíubíli valt þar í morgun. Enginn slys urðu á fólki en vagninn fór á hliðina ofan við Bakkaselsbrekku og úr honum lak skipaolía. Lögregla beindi umferð um Lágheiði, en nú er umferð stjórnað um svæðið þar sem óhappið varð.

Maðurinn sem fannst í blóði sínu í húsi í Hveragerði er látinn

Karlmaður á sextugsaldri sem fannst liggjandi í blóði sínu í heimahúsi í Hveragerði lést á sjúkrahúsi í Reykjavík í gærkvöldi. Ekki er talið að átök hafi átt sér stað, en húsráðandi gisti fangageymslur lögreglu í nótt vegna málsins. Vegna ölvunarástands var ekki unnt að yfirheyra hann fyrr en í morgun. Hann er nú frjáls ferða sinna.

Léttir að sleppa við stigafrádrátt

„Aðalmálið er að það voru ekki tekin af okkur stig. Það er langstærsta atriðið,“ sagði Eggert Magnússon, stjórnarformaður enska fótboltaliðsins West ham, sem í gær var sektað um jafnvirði 709 milljóna íslenskra króna.

Fékk meldingar og ræddi ekki Palestínu

Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra undrast að Geir H. Haarde forsætisráðherra taki ekki afstöðu til samskipta við Palestínu því málið hafi ekki verið rætt í ríkisstjórn. Hún hafi fengið meldingar um málið úr forsætisráðuneytinu.

Heyrnarlausar og þroskaheftar konur misnotaðar

Liðsmaður misnotaði kynferðislega tvær heyrnarlausar og þroskaheftar konur á menningarhátíð heyrnarlausra á síðasta ári. Konurnar hafa notið aðstoðar ráðgjafa en málið hefur ekki verið kært til lögreglu.

Grátbiðja Uribe um að hefja viðræður

Tólf kólumbískir þingmenn sendu í dag forseta landsins, Alvaro Uribe, skilaboð um að hefja viðræður við uppreisnarmenn, FARC, sem hafa haldið þeim föngnum síðastliðin fimm ár. Fjölskyldur mannanna grétu á meðan þær horfðu á myndband þar sem þeir minntust barnanna sinna, heilsuðu eiginkonum sínum og grátbáðu Uribe að hefja viðræður við uppreisnarmennina.

Ætla að auka viðskipti yfir Atlantshafið

Leiðtogar Bandaríkjanna og Evrópusambandsins munu á mánudaginn kemur taka stórt skref í áttina að því að auka viðskipti yfir Atlantshafið. Þá skrifa Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, undir rammasamkomulag um frekari viðskipti. Þau ætla sér einnig að reyna að ljúka Doha viðræðunum, sem núna eru á sjötta ári, fljótlega.

Knattspyrna hvetur til kynlífs

Þýsk yfirvöld hafa skýrt frá því að fæðingar hafa aukist um 30 prósent miðað við sama tíma í fyrra. Og hver gæti ástæðan verið? Jú, knattspyrna.

Wolfowitz yfirheyrður á mánudaginn

Paul Wolfowitz, forseti Alþjóðabankans, og kærastan hans, Shaha Riza, munu koma fram fyrir sérstaka nefnd Alþjóðabankans á mánudaginn kemur til þess að svara spurningum um aðkomu hans að stöðu- og launahækkun Riza. Lögfræðingur Wolfowitz segir að þar muni koma fram að engir hagsmunaárekstrar hafi átt sér stað og að allt sé með felldu.

Kona giftist fjórum konum

Nígerísk lesbía frá ríkinu Kano, sem giftist fjórum konum um síðustu helgi, hefur farið í felur til þess að forðast íslömsku lögregluna. Samkvæmt íslömskum Sharia-lögum, sem voru sett á fyrir sjö árum, er samkynhneigð sem og hjónabönd fólks af sama kyni bönnuð. Bæði brotin eru talin mjög alvarleg. Til að mynda var leikhúsið þar sem brúðkaupið fór fram brotið niður.

Tyrkneski herinn segist verndari stjórnkerfisins

Herinn í Tyrklandi sendi í kvöld frá sér yfirlýsingu um að hann fylgdist vel með forsetakosningum þar í landi. Herinn sagðist hafa áhyggjur af stöðu mála eftir að fyrsta umferð kosninganna leiddi til pattstöðu á milli stjórnarflokka og stjórnarandstöðu. Tyrkneska þingið kýs forseta landsins.

Eldur í heimahúsi í Hafnarfirði

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk klukkan 21:10 í kvöld tilkynningu um eld í heimahúsi við Öldugötu í Hafnarfirði. Íbúum hafði tekist að slökkva eldinn þegar að slökkvlið og lögreglu bar að garði en það var aðeins fjórum mínútum síðar. Á meðan reykræstingu stóð þurfti að loka götunni. Talið er að um minniháttar tjón hafi verið að ræða. Engin slys urðu á fólki.

Solana hvetur Bandaríkin til viðræðna

Utanríkismálaráðherra Evrópusambandsins, Javier Solana, hvatti í kvöld Bandaríkin til þess að hefja beinar viðræður við Írana um kjarnorkuáætlun þeirra. Solana sagðist jafnframt öruggur um að Íranar væru tilbúnir til slíkra viðræðna.

Kostnaður við endurbætur margfaldast

Kostnaður við endurbætur á Grímseyjarferju verður margfalt meiri en áætlun gerði ráð fyrir. Klúður segir þingmaður í samgöngunefnd alþingis sem telur að ódýrara hefði verið að kaupa nýtt skip.

Fannst liggjandi í blóði sínu

Í dag kl. 17:13 barst lögreglunni á Selfossi tilkynning um að maður á sextugsaldri lægi í blóði sínu í húsi í Hveragerði. Lögregla og sjúkraflutningamenn fóru þegar á vettvang . Maðurinn var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík og er þungt haldinn.

Viðskipti með demanta frá Líberíu leyfð

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna aflétti í dag sex ára banni á útflutning á líberískum demöntum. Banninu hafði verið ætlað að koma í veg fyrir viðskipti með svokallaða blóðdemanta en slík viðskipti fjármagna oftar en ekki stríðsherra í borgarastyrjöldum.

Sorpa fékk sjö metanknúna bíla

Sorpa bs. fékk í gær afhenta sjö metanknúna Volkswagen bíla frá Heklu. Þetta kom fram í fréttatilkynningu sem Hekla sendi frá sér í kvöld. Um er að ræða fjóra VW Caddy life EcoFuel og þrjá VW Caddy EcoFuel. Bílarnir eru með tvíbrennihreyfli, sem þýðir að þeir geta gengið bæði fyrir metani og bensíni.

Lýsir yfir vonbrigðum með þjóðkirkjuna

Formaður Samtakanna '78 segir vonbrigði að þjóðkirkjan sé ekki tilbúin að leggja hjúskap samkynhneigðra til jafns við gagnkynhneigðra. Tillaga um að þjóðkirkjan fari þess á leit við Alþingi, að lögum verði breytt á þann veg að prestar fái að gefa saman samkynhneigð pör, var felld á Prestastefnu sem lauk í gær.

Uppsagnir í Bolungarvík

Stærsti vinnuveitandi Bolungarvíkur hefur sagt upp meginhluta starfsfólks síns. 48 starfsmönnum hjá rækjuvinnslunni Bakkavík í Bolungarvík hefur verið sagt upp í landvinnslu félagsins. Hjá landvinnslunni störfuðu 60 manns áður en til uppsagna kom Í tilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að rekstur rækjuvinnslunnar hafi gengið erfiðlega undanfarin ár.

Reyndu að senda inn framboð eftir að frestur rann út

Baráttusamtökin náðu aðeins að skila inn framboðslista fyrir komandi alþingiskosningar í einu kjördæmi áður en framboðsfrestur rann út á hádegi í dag. Samtökin gerðu hins vegar tilraun til að skila inn framboðum í hinum fimm kjördæmunum eftir að fresturinn rann út. Alls bjóða sex flokkar fram á landinu öllu en tæplega átta hundruð einstaklingar eru í framboði.

Kom ekki nálægt umsókn tengdadóttur sinnar

Umhverfisráðherra segist ekki hafa komið nálægt afgreiðslu umsóknar tengdadóttur sinnar um íslenskan ríkisborgararétt. Formaður allsherjarnefndar Alþingis segir nefndina ekki hafa vitað af tengslunum og ekkert athugavert sé við að henni var veittur ríkisborgararéttur eftir fimmtán mánaða dvöl á landinu.

Sláandi lík lógó

Umræða um það hve vörumerki geta oft verið keimlík kviknaði fyrr í mánuðinum þegar sameinuð félög ESSO, Bílanausts og fleiri fyrirtækja kynntu nýja nafnið sitt N1 og þar með nýtt vörumerki. ESSO merkið gamla var þurrkað út og N1 kom í staðinn. Vakti merkið reiði hjá forsvarsmönnum fjölmiðlafyrirtækisins N4 á Akureyri. Þótti merkið hjá N einum sláandi líkt N fjórum.

Þéttriðið varnarnet á Atlantshafi

Samningarnir við Dani og Norðmenn um öryggis- og varnarmál er liður í að þróa þéttriðið varnarnet á Norður-Atlantshafi. Það þurfi eftir brotthvarf Bandaríkjamanna. Þetta segir ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu. Nú sé samið við Breta og Kanadamenn og Þjóðverjar væntanlegir hingað til lands í næta mánuði að skoða aðstöðu.

172 al-Kaída liðar handteknir í Sádi-Arabíu

Yfirvöld í Sádi-Arabíu segjast hafa komið upp um ráðagerð al-Kaída um að ráðast á olíu- og herstöðvar í landinu. Lögreglan handtók 172, þar á meðal menn sem voru í þjálfun til þess að gerast sjálfsmorðsflugmenn. Þá lagði lögreglan hald á fjölvörg vopn og meira en 340 milljónir íslenskra króna.

Hættan liðin hjá?

Svissneska lyfjafyrirtækið Roche, framleiðandi inflúensulyfsins Tamiflu, hefur dregið úr framleiðslu á lyfinu þar sem framboð er orðið meira en eftirspurn. Lyfið er það sem helst hefur verið talið gagnast gegn mögulega mannskæðu afbrigði fuglaflensunnar, H5NI. Þá er lyfið einnig notað við hefðbundnum inflúensufaröldrum.

Líkamsmeiðingum fjölgar um helming

Fjöldi líkamsmeiðinga sem tilkynntar voru til lögreglu í mars fjölgaði um 50 prósent miðað við marsmánuð á síðasta ári. Ölvunarakstursbrot jukust um rúmlega 40 prósent. Þá hefur tíðni fíkniefnabrota stigvaxið í mánuðinum frá árinu 2003, en flest þeirra eru framin frá miðnætti til klukkan sex að morgni. Þetta kemur fram í nýrri samantekt lögreglunnar um fjölda afbrota á landinu í marsmánuði síðastliðin ár.

Landshlutafréttir streyma á Vísi

Íslendingar sem vilja fylgjast með fréttum utan höfuðborgarsvæðisins geta nú gert það á einum stað. Fréttir nokkurra helstu landshlutamiðla á Íslandi birtast nú á visir.is, á sérstökum vefhluta sem nefnist Landið, samkvæmt samkomulagi milli Vísis og viðkomandi miðla. "Þetta er liður í að efla enn fréttaþjónustu á visir.is," segir Þórir Guðmundsson ritstjóri Vísis. "Nú þegar starfar rúmur tugur fréttamanna við fréttaskrif á Vísi auk þess sem við birtum fréttir úr Fréttablaðinu og af Stöð tvö. Beinar útsendingar á Vísi af viðburðum innan- lands og utan eru stundum nokkrar á dag. Með þessari viðbót fá notendur okkar fréttir af landsbyggðinni skrifaðar af fagmönnum úr sinni heimabyggð." Fréttir frá vikurfrettir.is, skessuhorn.is, horn.is og austurlandid.is eru þegar farnar að birtast á Landinu. Gert er ráð fyrir að fleiri landshlutamiðlar bætist við á næstu vikum.

Sjá næstu 50 fréttir