Skoðun

Ríkis­borgararéttur – sömu reglur eiga að gilda fyrir alla

Katrín Haukdal Magnúsdóttir skrifar

Ríkisborgararéttur er eitt veigamesta réttarsamband sem einstaklingur getur átt við ríki. Hann markar fulla aðild að samfélagi, með réttindum og skyldum og er grundvallarþáttur í réttarríki. Af þeim sökum getur veiting ríkisborgararéttar aldrei verið formsatriði eða háð hentugleika.

Í íslenskum lögum er skýrt kveðið á um skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Umsækjendur þurfa m.a. að hafa haft samfellda búsetu hér á landi, vera með hreint sakavottorð og sýna fram á grunnþekkingu í íslensku. Umsóknir eru metnar í stjórnsýslu samkvæmt fyrirfram skilgreindum og hlutlægum viðmiðum. Þeir sem uppfylla skilyrðin fá ríkisborgararétt.

Samhliða þessu kerfi hefur þróast sú framkvæmd að Alþingi veitir ríkisborgararétt í sérstökum tilvikum, utan hins hefðbundna stjórnsýsluferlis. Þar hafa einstaklingar hlotið ríkisborgararétt þrátt fyrir að hafa fengið synjun á öllum stjórnsýslustigum. Í slíkum tilvikum gilda ekki sömu lagaskilyrði og almennt eru gerð. Þetta skapar tvöfalt kerfi; annars vegar lögbundið ferli sem flestir þurfa að fylgja, hins vegar pólitíska undantekningu fyrir útvalda.

Þetta er alvarlegt jafnræðismál. Þegar ákvörðun um ríkisborgararétt færist úr höndum fagaðila í stjórnsýslu yfir til þingnefnda skapast rými fyrir huglægt mat og pólitískan þrýsting. Þar gilda ekki lengur sömu hlutlægu viðmiðin og ekki eru gerðar sömu kröfur um jafnræði umsækjenda.

Í slíkum aðstæðum er raunveruleg hætta á að þeir sem hafa aðgang að fjölmiðlum, njóta stuðnings áhrifafólks eða verða að umtalsefni í opinberri umræðu fái greiðari leið að ríkisborgararétti en aðrir. Þegar mótmæli, undirskriftalistar eða fjölmiðlaumfjöllun vega þyngra en lögbundin skilyrði er jafnræði umsækjenda ekki lengur tryggt.

Ríkisborgararéttur á ekki að vera neyðarútgangur úr synjunarferli né pólitískt undantekningartæki. Hann á að vera niðurstaða gegnsæs, faglegs ferlis byggt á jafnræði. Þegar Alþingi grípur fram fyrir stjórnsýsluna og veitir ríkisborgararétt á grundvelli pólitísks þrýstings grefur það undan trausti á lögum og réttarríki.

Umræðan snýst ekki um að vera með eða á móti innflytjendum. Hún snýst um það hvernig ríki skilgreinir aðild að samfélagi sínu og hvort grundvallarreglur jafnræðis og réttarríkis séu virtar í reynd.

Það er tímabært að Alþingi endurskoði þetta fyrirkomulag. Ef þingið ætlar áfram að veita ríkisborgararétt verður að tryggja að sömu kröfur gildi fyrir alla, án undantekninga. Annað er ósanngjarnt og samræmist hvorki jafnræðisreglu né heilbrigðu réttarríki.

Höfundur er í stjórn Miðflokksins í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×