Körfubolti

Kári: Það koma dalir á hverju tíma­bili

Árni Jóhannsson skrifar
Kári Jónsson var frábær gegn Álftanesi í kvöld.
Kári Jónsson var frábær gegn Álftanesi í kvöld. vísir/Diego

Kári Jónsson dró sína menn áfram í leik sem hægt er að lýsa sem leðjuslag þegar Valsmenn unnu Þór Þ. í framlengdum leik. Kári skoraði 22 stig og gaf átta stoðsendingar og setti mjög mikilvægar körfur í framlengingunni.

Kári var spurður að því hvort eitthvað annað væri hægt að segja en að þetta hafðist.

„Já ég held að það sé bara mjög góð greining á þessum leik. Þetta hafðist hjá okkur.“

Kári var beðinn um að reyna að útskýra þennan leik sem var ekki góður ef satt skal segjast.

„Bæði lið ekki sérstök. 65-65 eftir venjulegan leiktíma er sjaldséð eftir venjulegan leiktíma og oft þegar við höldum liðum svona lágt þá eru það leikir sem við viljum vinna. Við hittum illa eiginlega allan leikinn eða þangað til í framlengingunni þegar við settum niður nokkur skot og náðum að ná í sigur. Varnarlega vorum við þéttir allan leikinn. Gerðum vel á Ross framan af og eiginlega allan leikinn. Við getum tekið margt jákvætt þannig út úr því.“

Það hafa verið erfiðar vikur hjá Val undanfarið. Meiðsli og þrír tapleikir í röð. Gat Kári varpað einhverju ljósi á aðstæðurnar hjá Val á þessum tíma?

„Við áttum þrjá tapleiki á einni viku og það var bara erfitt. Súrt tap í bikarnum. Það koma alltaf dalir á hverju tímabili og við erum núna bara að vinna okkur upp úr því. Gerðum margt vel í dag varðandi það sem við vorum að gera í vikunni á æfingum. Svo bara skref fyrir skref kemur þetta betur.“

Kári var talsvert betri í kvöld en í síðustu viku á móti Ármanni. Getur hann útskýrt muninn á sjálfum sér milli leikja.

„Nei, ég var bara hundlélegur í síðasta leik og engar afsakanir þar. Mér fannst ég ekki sérstakur í dag fyrr en í lokin. Stundum koma svona leikir þar sem allt fer ofan í og svo koma leikir þar sem það þarf að hafa meira fyrir því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×