Skoðun

Hvers­dagurinn er ævin­týri

Skúli S. Ólafsson skrifar

Í desember óskuðum við hvert öðru gleði á jólum, nýju ári, höfðum stór orð á vörum, hátíð og farsæld. En hvað með hvunndaginn, tímann sem líður á milli stórhátíðanna? Er ekki tilefni til að við gefum honum gaum í kveðjum okkar?

Þú átt gott

Ein af eftirminnilegustu bókunum sem ég las fyrir börnin mín þegar þau voru lítil hét, Þú átt gott Einar Áskell. Þar er hversdeginum sungið lof. Í sögunni eru þeir feðgar niðurdregnir að loknum jólum. Skrautið er komið í kassa, eftirvæntingin er að baki, gjafir skipta ekki um hendur, engin veisluhöld eru framundan: Tilbreytingarleysið mætir þeim.

Já, af hverju er ekki hægt að hafa hátíð á hverjum einasta degi? En amma söguhetjunnar er á öðru máli og er einmitt titill bókarinnar sóttur í orð hennar. Hún flytur tilbreytingaleysinu lof, bendir á töfra hins fábrotna og hversdagslega. Ef ekki væri fyrir það, hefði hátíðin ekkert gildi.

Já, hún veit sínu viti, og smám saman fara feðgarnir að velta því fyrir sér hvaða tækifæri kunni að leynast í leiðindunum. Og finna gleðina í hinu fábrotna, enda er hún sannarlega til staðar.

Hversdagslegir leiðtogar

Boðskapur ömmunnar birtist okkur í ýmsu samhengi. Í Biblíunni er varað við þeim leiðtogum sem fara með háreisti og digurbarkalegum yfirlýsingum. Þess í stað tefla höfundar bóka ritningarinnar fram þjóninum sem færir fólkinu réttlæti. Þar er ekki hömlulausri ásælni fyrir að fara heldur þjónustu sem stefnir að háleitu marki. Við getum borið saman þá sýn við þann yfirgengilega hávaða sem mætir okkur úr hásætum heimsins á okkar dögum: „Hann kallar ekki og hrópar ekki og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum” Svona lýsir spámaðurinn Jesaja þeim leiðtoga sem þjóðin megi vænta (Jes. 42.2).

Þetta er á sinn hátt lof hins fábrotna, upphafning þess sem hvílir á hugsjón fremur en stjórnlausri fíkn í meiri auð og meiri völd. Andstæða þjónins er okkur kunnugleg. Þau sem hrópa og gala, ferðast um á miðlunum með stórar yfirlýsingar, hella sér yfir mann og annan, búa til óreiðu og já endalausan hávaða. Þá má yfirgnæfa alla skynsamlega hugsun, viðleitni til réttlætis og farsældar.

Amman veit!

Þetta kjarnar barnabókahöfundurinn í téðri bók þar sem Einar Áskell og pabbi hans barma sér undan því að óhóf hátíðarinnar skuli hafa vikið fyrir fábreytni hinna virku daga. Amman er eins og postuli eða spámaður sem talar af viti inn í vitlausan heim.

Hún minnir okkur á að lífið gengur ekki út á það að flýja leiðindin, kaupa sér stundarfró með nýjum leikföngum. Ef við fáum ekki leið á því sem við eigum, ef það bilar ekki samkvæmt áætlunum þá loka búðir og verksmiðjur. En við sjáum um leið skuggahliðar heimtufrekjunnar, áganginn á náttúruna og auðvitað grimmdina þegar þjóðir berast á banaspjótum um takmarkaðar auðlindir.

Boðskapur ömmunnar talar til okkar í annríki daganna, valkostum hversdagsleikans þar sem við vegum og metum stöðu okkar og framgöngu gagnvart okkar minnstu sysktinum. Tilgangi okkar mætum við í fólkinu sem verður á vegi okkar í lífinu. Sá tilgangur er algildur – hann á ekki aðeins við þegar ljósadýrðin ljómar, hann varðar hverja vökustund okkar og þá arfleifð sem við svo skiljum eftir okkur.

Lífið okkar er í þeim skilningi þrungið merkingu og fyrir vikið er hversdagurinn sannkallað ævintýri.

Höfundur er sóknarprestur í Neskirkju.




Skoðun

Sjá meira


×