Skoðun

Nýtum kennslu­að­ferðir sem skila betri árangri

Skúli Helgason skrifar

Mikil umræða er um menntamál í samfélaginu ekki síst um kosti og galla hugmyndafræðinnar skóli án aðgreiningar, hvort námsmat er birt í bókstöfum eða tölustöfum, samræmd próf og árangur á PISA prófum sem sýna samanburð á milli skólakerfa víða um heim. Mun sjaldnar er rætt um það starf sem fram fer í skólunum, kennsluhætti og áhrif mismunandi aðferða.

Byggjum á vönduðum rannsóknum

Ég vil leggja mitt af mörkum til umræðu um kennsluaðferðir. Mín sýn er sú að það geti ráðið miklu um námsárangur og menntun barna í grunnskólum að kennarar nýti í auknum mæli kennsluaðferðir sem studdar eru vönduðum rannsóknum. Svokallaðar gagnreyndar aðferðir. Til að aðferð teljist gagnreynd þurfa endurteknar samanburðarrannsóknir að hafa sýnt jákvæð áhrif af kennsluaðferðinni umfram aðrar aðferðir. Góðu heilli höfum við aðgang að miklum sjóði vandaðra innlendra og erlendra rannsókna sem hafa sýnt hvaða kennsluaðferðir eru gagnreyndar. Þær getum við og eigum að nýta mun meira og markvissar í skólunum til að bæta námsárangur.

Félagakennsla skilar miklum ávinningi

Sem dæmi má nefna nýlegar rannsóknir fræðimanna t.d. Auðar Soffíu Björgvinsdóttur á Menntavísindasviði Háskóla Íslands um áhrif svokallaðrar PALS félagakennslu á lestrarfærni barna í yngstu bekkjum grunnskóla. PALS félagakennsla (Peer assistand learning strategies (PALS) hefur verið þýtt sem Pör að læra saman á íslensku og er vel rannsökuð og árangursrík kennsluaðferð til að þjálfa lesfimi og lesskilningsaðferðir í blönduðum bekkjardeildum. Umsjónarkennari styðst við niðurstöður úr lesfimiprófum til að para nemendur, tvo og tvo saman. Hann byrjar á að skipta nemendahópnum í tvo hópa, þá sem lesa hratt og þá sem lesa ekki eins hratt. Niðurstöður í doktorsverkefni Auðar sýndu að nemendur sem fengu félagakennslu juku lestrarfærni sína umfram nemendur í samanburðarhópi og náðu marktækt betri árangri á öllum sviðum sem mæld voru. Þetta er sérlega áhugavert í því ljósi að þátttakendur höfðu litla undirstöðufærni í lestri og áttu því í verulegri hættu að lenda í lestrarerfiðleikum. Hliðstæð jákvæð áhrif hafa reynst af félagakennslu á lestrarfærni nemenda með íslensku sem annað tungumál og elstu börnin í leikskóla, eins og sjá má í greininni Samvinna um læsi í leikskóla.

Mikill ábati af vönduðum aðferðum

Á vegum hinnar virtu stofnunar Washington State Institute for Public Policy (WSIPP) hefur verið safnað og miðlað þekkingu um kostnaðar- og ábatagreiningar á mismunandi kennsluaðferðum. Þar koma fram mjög áhugaverðar niðurstöður. Til dæmis að fjármagn sem sett er í félagakennslu skilar margföldum ávinningi til baka. Ávinningurinn er metinn mestur fyrir námsárangur þeirra nemenda sem taka þátt í félagakennslu en samfélagslegur ábati er líka verulegur af notkun þessarar aðferðar í formi jákvæðra afleiðinga af hærra menntunarstigi.

Annað dæmi um verkefni sem skilað hefur miklum árangri er Lesvörður í leikskóla þar sem börn á elsta ári leikskóla, sem eiga í hættu að lenda í lestrarerfiðleikum fá sérstaka þjálfun í atriðum sem styðja við uppbyggingu hljóðkerfisvitundar og undirbúning lestrarnáms í 10-20 mínútur á dag 5 daga vikunnar. Niðurstöðurnar hafa skilað margföldum ávinningi miðað við samanburðaraðferðir.

Niðurstöður WSIPP taka ekki eingöngu til kennsluaðferða heldur eru líka metnar leiðir til að virkja foreldra betur varðandi nám barna sinna. Þar vekur m.a. athygli rannsókn sem sýnir mikinn ábata af markvissri samvinnu skóla og foreldra til að styðja við nám barnanna. Þar kom fram að einföld en regluleg upplýsingamiðlun frá skólum til foreldra með textaskilaboðum hafði marktæk jákvæð áhrif á námsárangur.

Nýtum það sem virkar

Niðurstaðan er skýr: Föllum ekki í þá gryfju að innleiða í stórum stíl í skólakerfinu aðferðir sem ekki hafa verið rannsakaðar til hlítar með vönduðum samanburði við aðrar kennsluaðferðir. Förum ekki í skotgrafir með og á móti tilteknum aðferðum. Sameinumst frekar um að nota kennsluaðferðir sem samanburðarrannsóknir hafa staðfest að skila betri árangri – ekki bara fyrir börnin, heldur líka kennara, foreldra og samfélagið í heild. Miðlum þeim upplýsingum skýrt til stjórnenda og styðjum kennara þannig að ná megi betri árangri í skólakerfinu. Leggjum okkur fram um að ná samstöðu ríkis og sveitarfélaga, kennara og annars fagfólks skóla auk foreldra um að nýta betur rannsóknir í skólum við val á kennsluaðferðum því þá mun betri námsárangur fylgja hratt í kjölfarið. Árangur næst þar sem öll leggjast á eitt!

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Sjá meira


×