Handbolti

Guð­jón Valur fær Garðar til Gummersbach

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Garðar Ingi Sindrason hefur skorað 77 mörk og gefið 86 stoðsendingar fyrir FH í Olís-deildinni í vetur.
Garðar Ingi Sindrason hefur skorað 77 mörk og gefið 86 stoðsendingar fyrir FH í Olís-deildinni í vetur. vísir/anton

FH-ingurinn ungi, Garðar Ingi Sindrason, gengur í raðir þýska úrvalsdeildarliðsins Gummersbach fyrir næsta tímabil.

Á heimasíðu sinni greinir Gummersbach frá því að hinn átján ára Garðar hafi skrifað undir þriggja ára samning við félagið.

Á síðasta tímabili spilaði Garðar með FH gegn Gummersbach í Evrópudeildinni og fékk þar forsmekkinn af því að spila á heimavelli þýska liðsins.

„Gassi er enn gríðarlega ungur og einn af hæfileikaríkustu leikmönnum Íslands. En hann mun klárlega þurfa sinn tíma,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, þjálfari Gummersbach, í fréttatilkynningu félagsins. 

„Við þurfum að byggja hann vel upp, því skrefið frá Íslandi til Þýskalands er ansi stórt en við höfum að sjálfsögðu miklar væntingar til hans til framtíðar og erum mjög ánægðir með þessi félagaskipti.“

Tveir Íslendingar leika með Gummersbach; landsliðsmennirnir Elliði Snær Viðarsson og Teitur Örn Einarsson.

Í fréttinni á heimasíðu Gummersbach kemur fram að Aron Pálmarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði, hafi aðstoðað við félagaskiptin og samningaviðræðurnar en hann er frændi Garðars.

„Gummersbach er eitt af bestu félögum Þýskalands. Mér fannst mikill heiður þegar þeir höfðu samband við mig. Þeir hafa Guðjón Val Sigurðsson sem þjálfara, stefna hátt og eiga frábæra stuðningsmenn. Ég er mjög spenntur fyrir því að verða brátt hluti af þessu frábæra félagi,“ sagði Garðar um verðandi vistaskipti til Þýskalands.

Guðjón Valur hefur stýrt Gummersbach frá 2020 og undir hans stjórn hefur liðið farið upp úr B-deildinni og í efri hluta úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×