Skoðun

Hafnar­fjarðar­bær: þjónustu­stofnun eða valda­kerfi?

Óskar Steinn Ómarsson skrifar

Þann 11. október 2024 kvartaði ég til Umboðsmanns Alþingis vegna þeirrar ákvörðunar skólastjóra Hraunvallaskóla að falla frá ráðningu í starf deildarstjóra tómstundamiðstöðvar skólans, þremur vikum eftir að hafa ráðið mig til starfsins.

Nú liggur álit Umboðsmanns í málinu fyrir og verður því ekki lýst öðruvísi en sem áfellisdómi yfir stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar. Málatilbúnaði bæjarins er hafnað og niðurstaðan sú að hann hafi skort lagaheimild til að falla frá ráðningunni. Enn fremur hafi málsmeðferð bæjarins brotið í bága við stjórnsýslulög.

Skömminni skilað

Rannsókn Umboðsmanns varpar ljósi á undarleg tölvupóstsamskipti sem embættismenn bæjarins höfðu áður fullyrt að væru ekki til. Nánar tiltekið tölvupóst sem mannauðsstjóri bæjarins sendi skólastjóranum þremur vikum eftir að ég var ráðinn í starfið og sama dag og skoðanagrein mín um lokun ungmennahússins Hamarsins birtist á Vísi. Tölvupósturinn innihélt skjáskot af ummælum mínum á samfélagsmiðlum. Morguninn eftir tilkynnti skólastjórinn mér að hann hefði fallið frá ráðningunni.

Tímasetning þessara undarlegu afskipta mannauðsstjórans bendir til þess að sú gagnrýni á meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem kom fram í Vísisgreininni hafi orðið til þess að komið var í veg fyrir ráðningu mína í umrætt starf. Eftir 18 mánuði af gaslýsingum bæjarins í málinu er ólýsanlegur léttir að fá loks álit Umboðsmanns og geta skilað skömminni þangað sem hún á heima: í ráðhús Hafnarfjarðar.

Ekki einsdæmi

Meðferð Hafnarfjarðarbæjar á mér sumarið 2024 er alls ekkert einsdæmi. Því miður er það tilfinning margra Hafnfirðinga að pólitísk spilling og óeðlileg afskipti stjórnmálanna af faglegri stjórnsýslu bæjarins hafi aukist undanfarin ár. Af þessu hefur bæði núverandi og fyrrverandi starfsfólk bæjarins áhyggjur þó að fæstir treysti sér til að tjá sig um það opinberlega. Engan skal undra, miðað við þær afleiðingar sem ég mátti sæta fyrir pólitíska tjáningu mína í fyrrasumar.

Afturköllun ráðningar minnar í kjölfar pólitískrar gagnrýni er skólabókardæmi um það þegar opinberu valdi er misbeitt í pólitískum tilgangi. Stjórnsýsla Hafnarfjarðarbæjar virðist orðin samofin þeim pólitísku öflum sem ráðið hafa ríkjum í sveitarfélaginu undanfarin ár. Það sem einkennir slíkt ástand er ógnarstjórn, samtrygging og fyrirgreiðslustjórnmál frekar en þjónustulund, gagnsæi og fagleg stjórnsýsla.

Burt með valdakerfið

Á 30 ára afmælismálþingi Reykjavíkurlistans þann 13. júní 2024 sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrsti borgarstjóri listans, að stóra arfleið hans sé að hafa breytt Reykjavíkurborg „úr valdakerfi í þjónustustofnun.“ Til þess hafi þurft að binda enda á langa valdatíð Sjálfstæðisflokksins sem hafi verið orðinn „einráður í borginni.“

Margt bendir til þess að við séum farin að búa við slíkt valdakerfi í Hafnarfirði eftir langa valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Kæru Hafnfirðingar: Í kosningunum þann 16. maí höfum við tækifæri til að brjóta niður valdakerfið og breyta sveitarfélaginu í þjónustustofnun fyrir alla íbúa. Heilbrigt samfélag þar sem fólk þarf ekki að óttast refsingu fyrir opinbera tjáningu eða gagnrýni á kjörna fulltrúa. Grípum tækifærið!

Höfundur er Hafnfirðingur.




Skoðun

Sjá meira


×