Haukar - KA 42-38 | Markaflóð á Ásvöllum Ingvi Þór Sæmundsson skrifar 3. desember 2025 22:40 Adam Haukur Baumruk skoraði sex mörk. vísir/vilhelm Haukar unnu KA í miklum markaleik á Ásvöllum í Olís-deild karla í kvöld, 42-38. Haukar eru með eins stigs forskot á toppi deildarinnar en KA-menn í 4. sætinu. Stundum er sagt að fátt hafi verið um varnir. Í þessum leik var ekkert um varnir eins og lokatölurnar gefa til kynna. Sóknir beggja liða voru hins vegar afar beittar lengst af. KA var tveimur mörkum yfir í hálfleik en um miðjan seinni hálfleik hrukku Haukar í gang. Þeir breyttu stöðunni úr 25-27 í 35-30 á níu mínútna kafla og kláruðu leikinn svo af öryggi. KA spilaði svo til á sama liðinu allan tímann á meðan Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, spilaði á fleiri leikmönnum og þegar líða tók á leikinn áttu Hafnfirðingar meira á tankinum en Akureyringar. Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Oftast var munurinn bara eitt mark og forystan sveiflaðist á milli. Bruno Bernat varði vel í marki KA, meðal annars tvö vítaköst, á meðan Aron Rafn Eðvarðsson náði sér ekki á strik í marki Hauka. Sóknarleikur gestanna að norðan var afar skilvirkur og þeir opnuðu vörn heimamanna hvað eftir annað, sérstaklega seinni hluta fyrri hálfleiks. Andri Fannar Elísson jafnaði í 17-17 úr vítakasti en KA skoraði síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks, 17-19. Það fyrra gerði Morten Linder og Bruno skoraði svo með skoti yfir allan völlinn. Morten var mjög öflugur í fyrri hálfleik og þeir Giorgi Arvelodi Dikhaminjia á hægri vængnum skoruðu samtals níu mörk úr jafn mörgum skotum fyrir hlé. Varnarleikur Hauka lagaðist ekkert framan af seinni hálfleik og KA hélt forskotinu. Jens Bragi Bergþórsson fór mikinn á línunni, skoraði grimmt og hann kom gestunum tveimur mörkum yfir, 25-27, þegar sautján mínútur voru eftir. Bjarni Ófeigur Valdimarsson tapaði boltanum með skömmu millibili og Haukar refsuðu. Þeir skoruðu þrjú mörk í röð, náðu forystunni, 28-27, í fyrsta sinn í seinni hálfleik og sigldu svo fram úr. Eftir að hafa spilað stórvel í sókninni framan af leik fjölgaði mistökunum hjá KA eftir því sem líða tók á. Haukar nýttu sér mistök KA til hins ítrasta og skoruðu nánast í hverri sókn. Bruno datt niður í markinu enda fékk hann á sig hvert dauðafærið á fætur öðru. Hann endaði með átján varin skot (31 prósent) en eftir mörg þeirra var dæmt auka- eða vítakast. Engu skipti þótt markvarslan hjá Haukum væri lítil sem engin. Þeir röðuðu bara inn mörkum og eftir að þeir náðu forystunni var ljóst í hvað stefndi. KA-menn áttu ekki orku til að koma til baka og Haukar gáfu þeim heldur aldrei tækifæri til þess. Haukar náðu mest sex marka forskoti, 37-31, en unnu að lokum fjögurra marka sigur, 42-38. Þeir skoruðu 25 mörk í seinni hálfleik og unnu síðustu sautján mínúturnar, 17-11. Atvik leiksins Í stöðunni 27-27 tapaði Bjarni Ófeigur boltanum í annað sinn í röð og Össur Haraldsson kom Haukum í kjölfarið yfir, 28-27, í fyrsta sinn síðan í stöðunni 14-13. Eftir þetta litu Haukar ekki um öxl. Stjörnur og skúrkar Ekki vantaði góðar sóknarframmistöðu hjá leikmönnum liðanna í kvöld. Eftir að Haukar höfðu klikkað á fyrstu tveimur vítaköstunum sínum tók Andri Fannar við því kefli og nýtti öll sjö vítin sín. Hann skoraði alls tíu mörk og var markahæstur í liði Hauka. Freyr Aronsson skoraði átta mörk og stýrði sóknarleik Hauka af myndarbrag. Drengurinn er aðeins sautján ára en spilar eins og hann sé 27 ára. Adam Haukur sýndi gamla sóknartakta og skoraði sex mörk sem og Össur. Ólafur Ægir Ólafsson og Hergeir Grímsson spiluðu einnig vel. Linder skoraði tíu mörk fyrir KA og Jens Bragi nýtti öll átta skotin sín af línunni. Bjarni Ófeigur, markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar, lét ekki mikið að sér kveða í markaskorun, spilaði samherja sína oft vel uppi en mistök hans um miðbik seinni hálfleiks, þegar leikurinn snerist á band Hauka, reyndust dýrkeypt. Dómarar Okkar reyndasta og besta dómarapar, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, voru með allt á hreinu í kvöld og komust vel frá sínu. Stemmning og umgjörð Haukar buðu upp á glæsilega leikmannakynningu, ljósasjóv og læti, og umgjörðin var í góðu lagi. En það var afar fámennt á Ásvöllum í kvöld. Leikurinn byrjaði vissulega seint (klukkan 20:15) en þrátt fyrir það var mætingin með daprasta móti. Olís-deild karla Haukar KA
Haukar unnu KA í miklum markaleik á Ásvöllum í Olís-deild karla í kvöld, 42-38. Haukar eru með eins stigs forskot á toppi deildarinnar en KA-menn í 4. sætinu. Stundum er sagt að fátt hafi verið um varnir. Í þessum leik var ekkert um varnir eins og lokatölurnar gefa til kynna. Sóknir beggja liða voru hins vegar afar beittar lengst af. KA var tveimur mörkum yfir í hálfleik en um miðjan seinni hálfleik hrukku Haukar í gang. Þeir breyttu stöðunni úr 25-27 í 35-30 á níu mínútna kafla og kláruðu leikinn svo af öryggi. KA spilaði svo til á sama liðinu allan tímann á meðan Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, spilaði á fleiri leikmönnum og þegar líða tók á leikinn áttu Hafnfirðingar meira á tankinum en Akureyringar. Fyrri hálfleikurinn var mjög jafn og aldrei munaði meira en tveimur mörkum á liðunum. Oftast var munurinn bara eitt mark og forystan sveiflaðist á milli. Bruno Bernat varði vel í marki KA, meðal annars tvö vítaköst, á meðan Aron Rafn Eðvarðsson náði sér ekki á strik í marki Hauka. Sóknarleikur gestanna að norðan var afar skilvirkur og þeir opnuðu vörn heimamanna hvað eftir annað, sérstaklega seinni hluta fyrri hálfleiks. Andri Fannar Elísson jafnaði í 17-17 úr vítakasti en KA skoraði síðustu tvö mörk fyrri hálfleiks, 17-19. Það fyrra gerði Morten Linder og Bruno skoraði svo með skoti yfir allan völlinn. Morten var mjög öflugur í fyrri hálfleik og þeir Giorgi Arvelodi Dikhaminjia á hægri vængnum skoruðu samtals níu mörk úr jafn mörgum skotum fyrir hlé. Varnarleikur Hauka lagaðist ekkert framan af seinni hálfleik og KA hélt forskotinu. Jens Bragi Bergþórsson fór mikinn á línunni, skoraði grimmt og hann kom gestunum tveimur mörkum yfir, 25-27, þegar sautján mínútur voru eftir. Bjarni Ófeigur Valdimarsson tapaði boltanum með skömmu millibili og Haukar refsuðu. Þeir skoruðu þrjú mörk í röð, náðu forystunni, 28-27, í fyrsta sinn í seinni hálfleik og sigldu svo fram úr. Eftir að hafa spilað stórvel í sókninni framan af leik fjölgaði mistökunum hjá KA eftir því sem líða tók á. Haukar nýttu sér mistök KA til hins ítrasta og skoruðu nánast í hverri sókn. Bruno datt niður í markinu enda fékk hann á sig hvert dauðafærið á fætur öðru. Hann endaði með átján varin skot (31 prósent) en eftir mörg þeirra var dæmt auka- eða vítakast. Engu skipti þótt markvarslan hjá Haukum væri lítil sem engin. Þeir röðuðu bara inn mörkum og eftir að þeir náðu forystunni var ljóst í hvað stefndi. KA-menn áttu ekki orku til að koma til baka og Haukar gáfu þeim heldur aldrei tækifæri til þess. Haukar náðu mest sex marka forskoti, 37-31, en unnu að lokum fjögurra marka sigur, 42-38. Þeir skoruðu 25 mörk í seinni hálfleik og unnu síðustu sautján mínúturnar, 17-11. Atvik leiksins Í stöðunni 27-27 tapaði Bjarni Ófeigur boltanum í annað sinn í röð og Össur Haraldsson kom Haukum í kjölfarið yfir, 28-27, í fyrsta sinn síðan í stöðunni 14-13. Eftir þetta litu Haukar ekki um öxl. Stjörnur og skúrkar Ekki vantaði góðar sóknarframmistöðu hjá leikmönnum liðanna í kvöld. Eftir að Haukar höfðu klikkað á fyrstu tveimur vítaköstunum sínum tók Andri Fannar við því kefli og nýtti öll sjö vítin sín. Hann skoraði alls tíu mörk og var markahæstur í liði Hauka. Freyr Aronsson skoraði átta mörk og stýrði sóknarleik Hauka af myndarbrag. Drengurinn er aðeins sautján ára en spilar eins og hann sé 27 ára. Adam Haukur sýndi gamla sóknartakta og skoraði sex mörk sem og Össur. Ólafur Ægir Ólafsson og Hergeir Grímsson spiluðu einnig vel. Linder skoraði tíu mörk fyrir KA og Jens Bragi nýtti öll átta skotin sín af línunni. Bjarni Ófeigur, markahæsti leikmaður Olís-deildarinnar, lét ekki mikið að sér kveða í markaskorun, spilaði samherja sína oft vel uppi en mistök hans um miðbik seinni hálfleiks, þegar leikurinn snerist á band Hauka, reyndust dýrkeypt. Dómarar Okkar reyndasta og besta dómarapar, Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, voru með allt á hreinu í kvöld og komust vel frá sínu. Stemmning og umgjörð Haukar buðu upp á glæsilega leikmannakynningu, ljósasjóv og læti, og umgjörðin var í góðu lagi. En það var afar fámennt á Ásvöllum í kvöld. Leikurinn byrjaði vissulega seint (klukkan 20:15) en þrátt fyrir það var mætingin með daprasta móti.