Þór Þ. - Stjarnan 99-97 | Langþráðum sigri fagnað í Þorlákshöfn Magnús S. Guðmundsson skrifar 20. nóvember 2025 21:00 Þórsarar voru næstum því búnir að missa sigurinn frá sér undir lokin. vísir Þór Þorlákshöfn fagnaði 99-97 sigri gegn Stjörnunni í 8. umferð Bónus deildar karla. Þetta var aðeins annar sigur Þórs á tímabilinu en fimmta tapið hjá Íslandsmeisturunum. Leikurinn var naglbítur frá upphafi til enda. Jacoby Ross klúðraði tveimur vítaskotum á lokasekúndum leiksins sem gaf Stjörnunni tækifæri til að jafna en Giannis Agravanis fann ekki skotið og tíminn rann út, Þórsurum til mikillar gleði. Þórsarar hafa verið í brekku í upphafi tímabils og höfðu fyrir leikinn aðeins unnið einn leik. Þeir mættu Tindastól í Síkinu í síðustu umferð en eftir jafnan fyrri hálfleik mættu Stólarnir trylltir til leiks í þeim síðari og sigldu sigrinum heim. Þórsarar frumsýndu þar nýjan serbneskan miðherja, Djordje Dzeletovic, sem býr yfir fjölbreyttri reynslu úr evrópskum körfubolta. Hann sýndi lipra spretti fyrir norðan og voru íbúar í Ölfusi spenntir að sjá hann á parketinu í Icelandic Glacial höllinni. Garðbæingar mættu með kassann úti eftir að hafa sótt tvo sigra í röð. Liðið hefur verið að leika vel á köflum en þriggja stiga nýtingin á útivelli hefur geigað. Það var hugur í gestunum sem vonuðust til að vera komnir í fluggírinn. Baldur Þór Ragnarsson þjálfari liðsins þekkir hverja einustu parketfjöl í húsinu. Gæinn lék fyrir Þórsara um langa hríð og hóf sinn þjálfaraferil hjá klúbbnum. Foreldrar hans eru burðarásarnir í sveitarfélaginu og Hjörtur stóri bróðir hans er aðstoðarþjálfari Þórsara. Fjölskylduböndin voru lögð á hilluna í kvöld og svo ræða þau án efa bara málin í næsta vöfflukaffi. Leikurinn fór brösulega af stað. Liðin skiptust á að gera mistök en svo hristu svo af sér slenið. Í lok fyrsta leikhluta var leikurinn jafn 25-22. Stjarnan kom beittari til leiks í öðrum leikhluta og hafði Baldur Þór blásið mönnum sínum baráttuþel í brjóst. Enginn þjálfari gerir það betur en þessi baráttujaxl. Hraðinn var mikill en flest datt einfaldlega betur hjá gestunum. Stjörnumenn voru sterkari og fóru inn í hálfleikinn með þriggja stiga forystu. Eftir hálfleikinn þá mætti aðeins annað liðið til leiks endurnært. Stjarnan hélt áfram að spila hratt og fíflaði Þór oft og iðulega. Ægir Þór Steinarsson barðist eins og ljón og dró sína menn áfram. Þórsarar náðu að svara þegar ég hélt að þeir væru að fara að henda inn handklæðinu. Við lok þriðja leikhluta voru gestirnir með 9 stiga forystu og það var ekkert í kortunum að þeir ætluðu að gefa þá forystu eitthvað eftir. Þá kviknaði loks á Þórsurum. Þeir settu mikilvægan þrist í upphafi fjórða leikhluta og taugarnar hjá gestunum urðu þandar. Viðsnúningurinn fór í hausinn á gestunum og var kominn hiti í Giannis Agravanis sem sparkaði stólum til á hliðarlínunni. Hann var ósáttur við þjálfarana sína og sagðist ekki skilja leiðbeiningarnar. Þórsarar jafna leikinn og stúkan ærðist. Stjörnumenn fengu dæmd á sig skref í stöðunni 87-87 og bekkurinn hjá gestunum var vægast sagt brjálaður. Rafmögnuð spenna var svo allt til loka leiksins. Þórsarar hleyptu Stjörnunni ekki inn í leikinn og svöruðu hverri körfunni á fætur annarri. Þór Þorlákshöfn unnu þennan naglbít 99-97 og geta gengið stoltir frá borði. Sigurinn var sætur og bitu þeir hressilega frá sér. Stjarnan heldur áfram að spila undir getu en varnarleikur þeirra hrundi í lok leiksins. Það er áhyggjuefni. Atvik leiksins Frammistaða leiksins var mögulega feluleikur Baldurs Þór Ragnarssonar eftir leik. Hann var líflegur að vanda á bekknum en þegar reynt var að ná í hann í viðtal eftir leik þá var hann farinn úr húsi. Mögulega þurfti hann að drífa sig í kaffi til foreldrana…. því ekki var færðin yfir Þrengslin eitthvað þung. Ingi Þór aðstoðarþjálfari hljóp í skarðið og kom í viðtal og var flottur að vanda. Stjörnur og skúrkar Rafail Lanaras var á eldi í liði heimamanna. Hann steig upp á ögurstundu og raðaði niður körfunum. Gæinn setti niður 33 stig og var með 6 stoðsendingar. Jacoby Ross hélt áfram að vera drjúgur og skoraði 23 stig. Hjá Stjörnunni var stigaskor mun jafnara. Sex leikmenn skoruðu yfir 11 stig en Orri Gunnarsson var fremstur meðal jafningja. Hann skoraði 20 stig og dró lestina á löngum köflum. Skúrkarnir voru engir enda fengu áhorfendur frábæran leik sem gladdi augað. Dómararnir Leikurinn í kvöld var ekki auðveldur að dæma. Hraðinn var mikill og leikurinn rafmagnaður. Það er ekki auðvelt hlutverk að dæma svona naglbít og virkuðu dómararnir stressaðir á köflum. Bekkir beggja liða tóku virkan þátt í leiknum og skiptust á að aðstoða dómarana við að komast að niðurstöðu í ákvörðunum sínum. Frammistaða dómarana fór í taugarnar á Stjörnumönnum þegar mest á reyndi. Dómararnir fá þó ekki falleinkunn. Snúinn leikur í alla staði. Stemmingin og umgjörð Þorlákshöfn skartaði sínu fegursta. Heimamenn voru svolítið seinir í hús eftir kvöldmatinn. Það var fínasta mæting og létu stuðningsmenn beggja liða vel í sér heyra. Umgjörðin í höllinni var hin glæsilegasta og var vel hægt að sjá hversu miklu þessi sigur skipti íbúa Ölfuss máli. Þakið ætlaði að rifna af í lokin. Viðtöl Lárus Jónsson þjálfari Þórs var ánægður með sigur sinna manna. Aðspurður sagði hann liðið ekki hafa verið í brekku heldur halla. „Við höfum verið að spila nokkuð vel upp á síðkastið. Áttum góðan leik á móti Val hér heima, töpum í framlengingu, vorum góðir á móti Keflavík á útivelli, vinnum svo ÍR og eigum loks hörkuleik við Tindastól.” Hann sagði sína menn aldrei hafa misst trúnna þrátt fyrir að hafa tapað nokkrum leikjum. Lárus sagðist vera ánægður með nýja Serbann þrátt fyrir að tölfræðin hefði ekki verið eitthvað til að hrópa húrra yfir. Reynsla hans væri að nýtast vel og hann hefði góð áhrif á anda liðsins. „Mér fannst munurinn á liðunum í kvöld vera Rafail Lanaras. Hann einfaldlega vann leikinn fyrir okkur.” Baldur Þór Ragnarsson lét ekki ná í sig eftir leik og mætti Ingi Þór aðstoðarþjálfari í viðtöl. Hann sagðist vera súr með töp liðsins í krönsinu. „Varnarlega erum við slakir. Þeir skjóta ljósin úr húsinu hérna og við náum ekki að svara. Vorum einfaldlega ekki nógu góðir í dag.” Ingi sagði aðspurður að margt hefðu sínir menn verið að gera vel en í loka leikhlutanum hefðu þeir ekki skorað nóg. Aftur á móti hefði allt gengið upp hjá Þórsurum og Grikkinn hjá þeim hefði einfaldlega verið óaðfinnanlegur. Bónus-deild karla Þór Þorlákshöfn Stjarnan
Þór Þorlákshöfn fagnaði 99-97 sigri gegn Stjörnunni í 8. umferð Bónus deildar karla. Þetta var aðeins annar sigur Þórs á tímabilinu en fimmta tapið hjá Íslandsmeisturunum. Leikurinn var naglbítur frá upphafi til enda. Jacoby Ross klúðraði tveimur vítaskotum á lokasekúndum leiksins sem gaf Stjörnunni tækifæri til að jafna en Giannis Agravanis fann ekki skotið og tíminn rann út, Þórsurum til mikillar gleði. Þórsarar hafa verið í brekku í upphafi tímabils og höfðu fyrir leikinn aðeins unnið einn leik. Þeir mættu Tindastól í Síkinu í síðustu umferð en eftir jafnan fyrri hálfleik mættu Stólarnir trylltir til leiks í þeim síðari og sigldu sigrinum heim. Þórsarar frumsýndu þar nýjan serbneskan miðherja, Djordje Dzeletovic, sem býr yfir fjölbreyttri reynslu úr evrópskum körfubolta. Hann sýndi lipra spretti fyrir norðan og voru íbúar í Ölfusi spenntir að sjá hann á parketinu í Icelandic Glacial höllinni. Garðbæingar mættu með kassann úti eftir að hafa sótt tvo sigra í röð. Liðið hefur verið að leika vel á köflum en þriggja stiga nýtingin á útivelli hefur geigað. Það var hugur í gestunum sem vonuðust til að vera komnir í fluggírinn. Baldur Þór Ragnarsson þjálfari liðsins þekkir hverja einustu parketfjöl í húsinu. Gæinn lék fyrir Þórsara um langa hríð og hóf sinn þjálfaraferil hjá klúbbnum. Foreldrar hans eru burðarásarnir í sveitarfélaginu og Hjörtur stóri bróðir hans er aðstoðarþjálfari Þórsara. Fjölskylduböndin voru lögð á hilluna í kvöld og svo ræða þau án efa bara málin í næsta vöfflukaffi. Leikurinn fór brösulega af stað. Liðin skiptust á að gera mistök en svo hristu svo af sér slenið. Í lok fyrsta leikhluta var leikurinn jafn 25-22. Stjarnan kom beittari til leiks í öðrum leikhluta og hafði Baldur Þór blásið mönnum sínum baráttuþel í brjóst. Enginn þjálfari gerir það betur en þessi baráttujaxl. Hraðinn var mikill en flest datt einfaldlega betur hjá gestunum. Stjörnumenn voru sterkari og fóru inn í hálfleikinn með þriggja stiga forystu. Eftir hálfleikinn þá mætti aðeins annað liðið til leiks endurnært. Stjarnan hélt áfram að spila hratt og fíflaði Þór oft og iðulega. Ægir Þór Steinarsson barðist eins og ljón og dró sína menn áfram. Þórsarar náðu að svara þegar ég hélt að þeir væru að fara að henda inn handklæðinu. Við lok þriðja leikhluta voru gestirnir með 9 stiga forystu og það var ekkert í kortunum að þeir ætluðu að gefa þá forystu eitthvað eftir. Þá kviknaði loks á Þórsurum. Þeir settu mikilvægan þrist í upphafi fjórða leikhluta og taugarnar hjá gestunum urðu þandar. Viðsnúningurinn fór í hausinn á gestunum og var kominn hiti í Giannis Agravanis sem sparkaði stólum til á hliðarlínunni. Hann var ósáttur við þjálfarana sína og sagðist ekki skilja leiðbeiningarnar. Þórsarar jafna leikinn og stúkan ærðist. Stjörnumenn fengu dæmd á sig skref í stöðunni 87-87 og bekkurinn hjá gestunum var vægast sagt brjálaður. Rafmögnuð spenna var svo allt til loka leiksins. Þórsarar hleyptu Stjörnunni ekki inn í leikinn og svöruðu hverri körfunni á fætur annarri. Þór Þorlákshöfn unnu þennan naglbít 99-97 og geta gengið stoltir frá borði. Sigurinn var sætur og bitu þeir hressilega frá sér. Stjarnan heldur áfram að spila undir getu en varnarleikur þeirra hrundi í lok leiksins. Það er áhyggjuefni. Atvik leiksins Frammistaða leiksins var mögulega feluleikur Baldurs Þór Ragnarssonar eftir leik. Hann var líflegur að vanda á bekknum en þegar reynt var að ná í hann í viðtal eftir leik þá var hann farinn úr húsi. Mögulega þurfti hann að drífa sig í kaffi til foreldrana…. því ekki var færðin yfir Þrengslin eitthvað þung. Ingi Þór aðstoðarþjálfari hljóp í skarðið og kom í viðtal og var flottur að vanda. Stjörnur og skúrkar Rafail Lanaras var á eldi í liði heimamanna. Hann steig upp á ögurstundu og raðaði niður körfunum. Gæinn setti niður 33 stig og var með 6 stoðsendingar. Jacoby Ross hélt áfram að vera drjúgur og skoraði 23 stig. Hjá Stjörnunni var stigaskor mun jafnara. Sex leikmenn skoruðu yfir 11 stig en Orri Gunnarsson var fremstur meðal jafningja. Hann skoraði 20 stig og dró lestina á löngum köflum. Skúrkarnir voru engir enda fengu áhorfendur frábæran leik sem gladdi augað. Dómararnir Leikurinn í kvöld var ekki auðveldur að dæma. Hraðinn var mikill og leikurinn rafmagnaður. Það er ekki auðvelt hlutverk að dæma svona naglbít og virkuðu dómararnir stressaðir á köflum. Bekkir beggja liða tóku virkan þátt í leiknum og skiptust á að aðstoða dómarana við að komast að niðurstöðu í ákvörðunum sínum. Frammistaða dómarana fór í taugarnar á Stjörnumönnum þegar mest á reyndi. Dómararnir fá þó ekki falleinkunn. Snúinn leikur í alla staði. Stemmingin og umgjörð Þorlákshöfn skartaði sínu fegursta. Heimamenn voru svolítið seinir í hús eftir kvöldmatinn. Það var fínasta mæting og létu stuðningsmenn beggja liða vel í sér heyra. Umgjörðin í höllinni var hin glæsilegasta og var vel hægt að sjá hversu miklu þessi sigur skipti íbúa Ölfuss máli. Þakið ætlaði að rifna af í lokin. Viðtöl Lárus Jónsson þjálfari Þórs var ánægður með sigur sinna manna. Aðspurður sagði hann liðið ekki hafa verið í brekku heldur halla. „Við höfum verið að spila nokkuð vel upp á síðkastið. Áttum góðan leik á móti Val hér heima, töpum í framlengingu, vorum góðir á móti Keflavík á útivelli, vinnum svo ÍR og eigum loks hörkuleik við Tindastól.” Hann sagði sína menn aldrei hafa misst trúnna þrátt fyrir að hafa tapað nokkrum leikjum. Lárus sagðist vera ánægður með nýja Serbann þrátt fyrir að tölfræðin hefði ekki verið eitthvað til að hrópa húrra yfir. Reynsla hans væri að nýtast vel og hann hefði góð áhrif á anda liðsins. „Mér fannst munurinn á liðunum í kvöld vera Rafail Lanaras. Hann einfaldlega vann leikinn fyrir okkur.” Baldur Þór Ragnarsson lét ekki ná í sig eftir leik og mætti Ingi Þór aðstoðarþjálfari í viðtöl. Hann sagðist vera súr með töp liðsins í krönsinu. „Varnarlega erum við slakir. Þeir skjóta ljósin úr húsinu hérna og við náum ekki að svara. Vorum einfaldlega ekki nógu góðir í dag.” Ingi sagði aðspurður að margt hefðu sínir menn verið að gera vel en í loka leikhlutanum hefðu þeir ekki skorað nóg. Aftur á móti hefði allt gengið upp hjá Þórsurum og Grikkinn hjá þeim hefði einfaldlega verið óaðfinnanlegur.