KR - Njarð­vík 88-97 | Dýr­mætur sigur gestanna

Pálmi Þórsson skrifar
Mario Matasovic uppskar sigur með Njarðvík í kvöld en meiddist því miður í þriðja leikhluta.
Mario Matasovic uppskar sigur með Njarðvík í kvöld en meiddist því miður í þriðja leikhluta. Vísir/Hulda Margrét

KR-ingar fengu Njarðvíkinga í heimsókn í kvöld en urðu að sætta sig við tap, 88-97, í Bónus-deild karla í körfubolta. 

Fyrir leikinn voru KR-ingar í fínum málum í 5. sætinu meðan Njarðvíkingar sátu í því 8. og í mikilli hættu að sogast eitthvað neðar í töflunni ef ekki færi vel.

Úr varð hinn fínasti leikur sem byrjaði af mikilli hörku og með miklum látum. Bæði lið skiptust á því að skora en eftir því sem leið á leik þá hertu liðin sig í vörninni og fóru aðeins að berja á hvort öðru. Staðan eftir 1. leikhluta var 22-23 og bæði lið búin að hóta því að taka svolítið yfir leikinn. Það gerðu síðan KR-ingar í 2. leikhluta en þeim tókst að komast í 5 stiga forystu þegar um 2 mínútur voru til hálfleiks. Njarðvíkingar voru ekki til í það, jöfnuðu metin 46-46 og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var allur Njarðvíkinga. 17-2 kafli hjá þeim í 3. leikhluta var það sem að skildi liðin að í lokin. KR-ingar reyndu hvað þeir gátu að koma til baka en Njarðvíkingar stóðu af sér alla storma og komu alltaf með svör. Lokatölur voru því 88-97 og gríðarlega mikilvægur sigur hjá Njarðvík sem jafnaði KR að stigum. Súrt fyrir KR-inga sem hefðu getað styrkt stöðu sína í efri hlutanum.

Atvik leiksins

Fyrir utan 17-2 kaflann hjá Njarðvík sem skóp sigurinn þá meiddist Mario Matasovic illa í 3.leikhluta. Erfitt að segja hversu illa en tímabilið bæði hjá honum og Njarðvík gæti verið í hættu.

Stjörnur og skúrkar

Skúrkurinn er KR liðið í heild sinni þessar fimm mínútur í 3. leikhluta þegar Njarðvík tók áhlaupið sitt meðan Njarðvíkur liðið í heild sinni átti frábæran leik en 6 leikmenn skoruðu fleiri en 10 stig. Það er ekki týnt upp úr götunni. Sérstaklega þar sem mikið hefur verið talað um breidd liðsins.

Dómarar

Gunnlaugur Briem, Bjarni Rúnar og Stefán mynduðu dómaratríóið í kvöld. Þeir voru með fína stjórn á leiknum en það var ekki alltaf jólin hjá þeim. Leikurinn var bæði mjög harður en einnig mikill hiti í stúkunni sem var ósammála öllu sem þeir gerðu.

Stemning og umgjörð

Það er alltaf ákveðin stemning í Vesturbænum. Það var vel mætt og fólki var heitt í hamsi. Það er greinilega gaman hjá fólki í Vesturbæ Reykjavíkur að mæta á körfuboltaleiki.

Viðtöl

Rúnar: „Þetta var ótrúlega ljótt“

Rúnar Erlingsson var að vonum kátur með sigur sinna manna en skiljanlega leiður yfir ljótum meiðslum eins af hans lykilmönnum. 

„Bara virkilega ánægður að koma á erfiðan útivöll og taka 2 stig. Öll stig í þessari deild eru erfið og koma hérna er alltaf erfitt. Við lentum í tvisvar sinnum í bölvuðu basli hérna í fyrra og ég er mjög ánægður með að labba hérna út með 2 stig.“ 

En Njarðvíkingar gerðu vel í byrjun 3. leikhluta sem skilaði sigrinum. 

„Þetta snýst allt um vörn og við erum alltaf að tala um það. Höfum verið mikið að vinna í því í vikunni. Komum inn í þennan leik þar sem að planið okkar er sett úr skorðum bara út af því hverjir eru í búning hjá þeim í kvöld. Öðruvísi leikmenn og kannski sérstaklega Friðrik „Sniper“Jónsson með 23 stig og við reyndum að aðlaga. Mér fannst við gera vel heilt yfir varnarlega og það var vörnin hér í 3. leikhluta sem skóp þennan sigur,“ sagði Rúnar brattur. 

En þessi leikur var ekki bara dans á rósum fyrir Njarðvíkinga. Í 3. leikhluta þá fór fyrirliðinn Mario Matosovic niður með vond meiðsli og spilaði ekki meir. 

„Þetta var ótrúlega ljótt og ég býst ekkert við honum á gólfinu á næstunni. Ég er bara miður mín. Það er frábært að ná í sigur en svo mun þessi raunveruleiki kannski banka upp á dyrnar og þá er þetta eiginlega ömurlegt. Sérstaklega fyrir þennan dugnaðarfork og hjartað í liðinu. Við vonum það besta en eins og þetta lítur út núna þá er þetta basl,“ sagði Rúnar smá sár en horfir bara fram á veginn. 

„Það er bara sama rútína. Vika á milli leikja þannig við undirbúum okkur fyrir flott lið Ármanns. Við töpuðum fyrir þeim í í IceMar höllinni í undirbúnings tímabilinu. Við ætlum okkur að ná í sigur þar og koma okkur í jafnvægi 50-50 sigurhlutfall fyrir landsleikjahlé,“ sagði Rúnar að lokum.

Jakob: „Bara mjög sárt“

Jakob Sigurðsson þjálfari KR var svekktur eftir leik. 

„Bara mjög sárt. Mikilvægur og stór leikur fyrir okkur. Bara gríðarlega vonsvikinn að tapa honum. Við fengum tækifæri í fyrri hálfleik að byggja upp smá forystu í fyrri hálfleik sem við klikkuðum á og svo var byrjunin á 3. leikhluta mjög slæm hjá okkur.“ 

En vond byrjun í seinni hálfleik var einmitt munurinn á liðunum. 

„Ég veit ekki alveg. Ég þarf að skoða betur hvað var að gerast þarna í 3. leikhluta en eftir það þá var þetta svolítið fram og til baka. Mér fannst við fá tækifæri til að koma okkur almennilega inn í leikinn. Til að jafna leikinn og gera þetta að alvöru leik. Við fengum skotin til þess en þau bara klikkuðu. Tilfinningin er byrjun seinni hálfleiks vorum við ekki nógu góður varnarlega og við þurfum að stíga upp þar,“ bætti Jakob við. 

En Vlatko Granic var með endurkomu í lið KR í kvöld. 

„Hann stóð sig bara mjög vel. Búinn að ná einni æfingu. Kom til landsins í gær og ég var ekki stórar væntingar til hans í kvöld. Við bara þurftum á honum að halda. Meira en ég bjóst við útaf villuvandræðum. En bara stóð sig vel miða við aðstæður.“ 

En Jakob vill meina að það séu engar fleiri breytingar í vændum á KR liðinu.

Friðrik Anton Jónsson átti frábæran leik en mun mínútum hans fækka með komu Vlajko? 

„Það er ekki planið. Friðrik var góður hér í kvöld. Ég er búinn að vera gríðarlega ánægður með hann í vetur. Hann er búinn að vera mjög flottur og mér finnst hann vera búin að taka skref áfram nánast í hverri viku með hverjum leiknum. Ég er mjög ánægður með Frikka og hann var flottur hérna í kvöld. Bæði að skora og taka fráköst. Svo stóð hann sig fínt varnarlega,“ sagði Jakob að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira