FH - KA 45-32 | KA-menn kjöldregnir í Kapla­krika

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Garðar Ingi Sindrason skoraði þrettán mörk fyrir FH.
Garðar Ingi Sindrason skoraði þrettán mörk fyrir FH. Vísir/Hulda Margrét

FH vann afar sannfærandi þrettán marka sigur er liðið tók á móti KA í tíundu umferð Olís-deildar karla í handbolta í kvöld, 45-32.

Það varð snemma ljóst í hvað stefndi í kvöld. FH-ingar náðu fljótt upp góðu forskoti og snemma leiks var Jón Bjarni Ólafsson búinn að skora fjögur mörk fyrir liðið á meðan Akureyringar höfðu aðeins skorað samtals tvö.

Heimamenn komust í 7-3 áður en KA-menn minnkuðu muninn niður í eitt mark í stöðunni 7-6, en eftir það tóku FH-ingar öll völd á vellinum.

Hafnfirðingar sigldu hratt og örugglega fram úr gestunum og náðu mest tíu marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 19-9. Norðanmenn löguðu stöðuna lítillega fyrir hálfleik, en staðan var 22-14 þegar flautað var til hlés og liðin gengu til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur bar þess svo að mestu merki að úrslitin væru svo gott sem ráðin fyrir hlé. 

FH-ingar héldu góðu forskoti framan af seinni hálfleik, en eftir að KA-menn skiptu yfir í framliggjandi vörn fór þó munurinn að minnka.

Gestirnir náðu að minnka muninn niður í fimm mörk þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka, en eftir það hrundi allt aftur og niðurstaðan varð að lokum þrettán marka sigur FH, 45-32.

Atvik leiksins

Þegar rúmar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum fékk Bjarni Ófeigur Valdimarsson tveggja mínútna brottvísun. Fyrir hvað, veit að ég held enginn nema dómararnir og eftirlitsmaðurinn, sem stöðvaði leikinn til að láta vita af því að Bjarni Ófeigur ætti að fá refsingu örfáum sekúndum eftir að hann kom inn af varamannabekknum. Þrátt fyrir að hafa horft nokkuð oft á atvikið aftur er ég engu nær um það hvers vegna Bjarni var rekinn af velli. Líklega var um ólöglega skiptingu að ræða.

Stjörnur og skúrkar

Að öðrum í FH-liðinu ólöstuðum þá var Garðar Ingi Sindrason besti maður vallarins í kvöld. Hann skoraði þrettán mörk fyrir heimamenn úr jafn mörgum skotum og virtist ekki geta stigið feilspor í sóknarleik FH.

Vörn og markvarsla gestanna fær hins vegar á sig skúrkastimpilinn. Að fá á sig 22 mörk í fyrri hálfleik er ekki boðlegt, en að svara því svo með því að fá á sig 23 mörk í seinni hálfleik er eitthvað sem KA-menn vilja líklega helst ekki að spyrjist út.

Dómararnir

Bóas Börkur Bóasson og Bjarki Bóasson þurftu ekki að taka margar stórar ákvarðanir í kvöld. Fyrir utan atvikið þar sem Bjarni Ófeigur var óvænt rekinn af velli er lítið út á frammistöðu yfirvaldsins að setja.

Stemning og umgjörð

Það var kannski ekki rífandi stemning í stúkunni í kvöld, enda þurftu FH-ingar á lítilli hvatningu að halda. Þeir sáu alveg um hana sjálfir inni á vellinum. 

Hins vegar var vel mætt í Kaplakrika í kvöld og umgjörð FH-inga til fyrirmyndar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira