Upp­gjörið: Njarð­vík - Hamar/Þór 88-61 | Auð­sóttur sigur Njarðvíkinga

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Njarðvík ætlar sér langt í vetur.
Njarðvík ætlar sér langt í vetur. vísir/Anton

Njarðvík tók á móti stigalausu liði Hamars/Þórs í Bónus-deild kvenna og vann nokkuð þægilegan sigur, lokatölur 88-61.

Njarðvík komst með sigrinum á topp deildarinnar en gestirnir bíða enn eftir sínum fyrsta sigri og stigum.

Njarðvík fór kröftuglega af stað og skoraði fyrstu níu stig leiksins áður en Jóhanna Ýr Ágústsdóttir setti fyrstu stig gestana með þrist úr horninu.

Sóknarleikur Njarðvíkur virkaði full auðveldur á köflum í upphafi leiks á meðan sóknarleikur Hamar/Þórs virkaði full erfiður. Njarðvík var skrefinu á undan og leiddi eftir fyrsta leikhluta 22-13.

Það kom kraftur með Hamar/Þór inn í annan leikhluta og þær söxuðu vel á forkot Njarðvíkur niður í þrjú stig. Gestirnir fengu nokkur tækifæri til þess að jafna leikinn en skotin voru ekki að detta fyrir þær.

Njarðvík skipti um gír undir lok leikhlutans eftir að hafa haft heldur hægt um sig og náðu að keyra upp hraðann í leiknum. Þær fóru með fjórtán stiga forskot inn í hálfleikinn 41-27.

Þriðji leikhluti byrjaði ekkert svo ólíkt öðrum þar sem gestirnir í Hamar/Þór settu þrist og byrjuðu svo að éta niður forskot Njarðvíkur. Það var seigla í gestunum en manni fannst þó leikurinn ekki vera í neinni hættu fyrir Njarðvík. Staðan eftir þriðja leikhluta var 59-48 Njarðvík í vil.

Njarðvík byrjaði fjórða leikhlutann vel og réð Hamar/Þór illa við Paulina Hersler undir körfunni sem átti góðan leik fyrir Njarðvík.

Það varð fljótt ljóst í hvað stefndi í fjórða leikhluta og fóru Einar Árni og Hákon að rúlla sínum liðum. Njarðvík kláraði leikinn virkilega vel og fór með sannfærandi sigur af hólmi 88-61.

Atvik leiksins

Ekki endilega eitt atvik úr leiknum sem sker sig úr en ég hafði mjög gaman af þessum blindu sendingum frá Danielle Rodriguez í leiknum. Alvöru gæði í þessum leikmanni.

Stjörnur og skúrkar



Paulina Hersler var öflug undir körfunni fyrir Njarðvík og gríðarlega mikilvæg í þessu liði. Hún endaði stigahæst með 20 stig.

Danielle Rodriguez var líka mjög góð í liði Njarðvíkur og endaði með 15 stig.

Hjá Hamar/Þór var Mariana Duran öflug og endaði stigahæst á vellinum með 22 stig.

Dómararnir

Kristinn Óskarsson, Jakob Árni Ísleifsson og Sigurbaldur Frímannsson dæmdu þennan leik.

Að mínu mati var þetta bara þokkalega vel dæmdur leikur og ekkert út á þeirra frammistöðu að setja.

Stemingin og umgjörð

Það er alltaf góð stemning í Njarðvík svo ég tali nú ekki um umgjörðina sem er alltaf upp á 10,5!

Viðtöl

Einar Árni Jóhannsson þjáflari NjarðvíkurAnton Brink/Vísir

„Held að við séum betra lið í körfubolta fyrst og síðast“

„Ánægður með sigurinn“ sagði Einar Árni Jóhannsson þjálfari Njarðvíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Ég held að við séum betra lið í körfubolta fyrst og síðast. Við áttum bara fína spretti hérna í dag. Þetta var kannski eins og maður óttaðist, þriðji leikur á sjö dögum og svona snemma í keppnistímabili þá svolítið köflótt“

„Við hreyfðum boltan betur í síðari hálfleik. Við vorum bara með fimm stoðsendingar í fyrri hálfleik og förum í fimmtán í seinni og það var bara svona vinnumarkmið hjá okkur að gera betur þar“

„Varnarlega þá er þetta bara ágætt. Við höldum þeim í 61 stigi þannig þetta reyndi ekkert mikið á púlsinn, þannig“ sagði Einar Árni Jóhannsson. 

Hákon Hjartarson er þjálfari Hamars/Þórs.Vísir/Anton Brink

„Eins og yfirleitt þá eru þessar rispur of fáar og stuttar“

„Við eigum alveg fínar rispur í þessum leik“ sagði Hákon Hjartarson þjálfari Hamar/Þórs eftir tapið í kvöld. 

„Eins og yfirleitt þá eru þessar rispur of fáar og stuttar en að ná samt alveg þangað til í restina að halda í við þær og Kaninn okkar ákvað að mæta ekki til leiks. Það er bara stærsti skellurinn“

Hamar/Þór náði að halda þokkalega í við Njarðvík framan af en misstu þær alveg frá sér í fjórða leikhluta.

„Þær voru orðnar þreyttar bara og við vorum að spila á þunnri róteringu og villuvandræði. Ellen þurfti að sitja mikið í seinni hálfleik afþví að hún fékk fjórðu villuna mjög snemma í þriðja“

„Ég ætla ekki að taka neitt af Njarðvík, þetta eru engir viðvaningar. Við erum að spila við mjög gott lið og við megum ekkert sofna á verðinum. Við verðum að vera með orkuna í toppi allan tímann. Við megum ekkert bakka frá þeim“ sagði Hákon Hjartarson.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira