Tíska og hönnun

Aldrei of seint að prófa sig á­fram

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Tískudrottningin, fatahönnuðurinn, ofurpæjan og suskin skvísan Thelma Gunnarsdóttir ræddi við blaðamann um tískuna.
Tískudrottningin, fatahönnuðurinn, ofurpæjan og suskin skvísan Thelma Gunnarsdóttir ræddi við blaðamann um tískuna. Aðsend

„Þegar ég klæði mig í liti líður mér eins og ég sé að fara í búning,“ segir fatahönnuðurinn Thelma Gunnarsdóttir. Tískan hefur gríðarleg áhrif á daglegt líf Thelmu sem er einn af eigendum íslenska tískumerkisins Suskin og starfar í Andrá Reykjavík.

Thelma er 25 ára gömul og með BA gráðu í fatahönnun. Hún stofnaði tösku-og tískumerkið Suskin ásamt vinkonu sinni Karítas Spano en töskurnar eru framleiddar á Ítalíu og hafa vakið mikla athygli. 

Thelma ræddi við blaðamann um tískuna, persónulegan stíl og fataskápinn.

Thelma elskar ljósa liti.Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Ég kann að meta vel hannaða og útfærða flík en það sem heillar mig mest er ímyndun og heimurinn sem fötin byggja í kringum sig. 

Ég hef sérstaklega gaman af því þegar tískusýningar verða að heimi út af fyrir sig, þar sem fötin segja sögu og skapa andrúmsloft sem dregur mann inn.

Mér finnst það vera toppurinn að fá að kynnast nýju merki sem nær að verða einstakt og einkennandi í hverju einasta smáatriði, í hvaða formi sem er.

Sama á við um minn persónulega stíl. Hann er leið til þess að spegla hver ég er og þann heim sem ég byggi upp í kringum mig.

Mér finnst flest allt passa inn í minn heim nema það að ég keyri eldrauðan Toyota Yaris. Það er kannski smá off brand en ég elska hann samt.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Þegar ég varð tvítug uppgötvaði ég að kaupa notuð föt. Síðan þá hef ég keypt margar af mínum uppáhalds flíkum en líka flíkur sem hafa fengið mig og vinkonu mínar að hníga niður í gólfið úr hlátri yfir.

Daginn sem ég kom heim með hvítt plíserað pils með blúndu yfir mjöðmunum var eitt af þeim skiptum. Það getur líka verið að glansandi fjólubláa síðpilsið úr einhverju hrikalegu gerviefni sem ég keypti líka hafi haft áhrif á alla heildina þann dag. 

Sem betur fer fattaði ég að hvíta pilsið mitt væri eitthvað sem ég þyrfti að eiga. Mér líður alltaf best í því og ég nota það bæði hversdags og fyrir mín öll helstu tilefni.

Pilsið er í miklu uppáhaldi hjá Thelmu!Aðsend

Eyðir þú miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Það fer algjörlega eftir aðstæðum. Ég get verið að leika mér að para saman flíkur allan daginn ef ég hef tíma. Oftast hendi ég þó einhverju saman.

Skvísulæti! Aðsend

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?

Ég elska að klæðast ljósum og daufum litum. Svo finnst mér gaman að para saman lífrænum víbrum með einhverju sem er aðeins meira sterílt. 

Það er svona jarðar-álfa orka yfir stílnum en ég vil jafna hana út með einhverju sem er meira út í götustíl eða skrifstofustíl .

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Já, hann breytist og mótast með umhverfinu mínu en það er alltaf ákveðin kjarni sem heldur sér. 

Ég hef til dæmis oft reynt að vera aðeins litríkari og ég reyni það enn í dag þó að fólk trúi því kannski ekki. Þegar þegar ég reyni að klæða mig í liti þá líður mér samt eins og ég sé í búning, allavega hingað til.

Thelma fer eigin leiðir í fatavali.Aðsend

Nýturðu þess að klæða þig upp?

Það er ekkert skemmtilegra en að velja sér föt fyrir daginn með allan tímann í heiminum. 

Sem barn laumaðist ég í fataskápana heima og stal stærstu hælunum sem ég fann hjá systur minni.

Á heimilinu var langur gangur og á öðrum endanum stóð stór spegill. Þar eyddi ég ótal stundum við að máta föt, para saman flíkur, ganga upp og niður ganginn og ímynda mér að ég væri að ganga á tískusýningu. 

Stór ástæða þess að ég ákvað að gerast fatahönnuður var sú að ég var alltaf að ímynda mér flíkur sem ég gæti gengið í og stíliserað.

Thelma veit fátt skemmtilegra en að setja saman föt.Aðsend

Hvað skiptir þig mestu máli í klæðaburði?

Klæðaburðurinn minn er eins konar framlenging á mér sjálfri. Ég elska að prófa nýja hluti og tappa inn á alls konar karaktera. 

Það sem skiptir mig mestu máli er að flíkurnar haldi tengingunni við mig og að mér líði eins og sjálfri mér í þeim.

Thelma er alltaf samkvæm sjálfri sér í klæðaburði.Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Fyrst og fremst til vina minna. Þau eru öll svo flott og geggjuð, svo einfalt er það.

Thelma sækir innblástur til vina sinna. Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Nei, engin.

Boð og bönn? Nei takk.Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Það er ekki flík en uppáhalds fylgihluturinn minn er Suskin taskan mín. Hún hefur fylgt mér og verið „my ride og die“ á hverju einasta degi í klæðaburði síðastliðin þrjú ár. 

Taskan er það fyrsta sem ég og Karítas hönnuðum saman og fyrsta afurð Suskin. Hún er mjög dýrmæt og eftirminnileg.

Suskin taskan er alltaf við hlið Thelmu!Aðsend

Hvað finnst þér heitast fyrir haustið?

Ég var eitthvað að pæla í því að hekla legghlífar og sjá hvort það sé einhver stemning fyrir haustið. 

Ég er líka búin að vera fíla að rokka stuttermaboli yfir langermaboli eða hlýrabol yfir skyrtu, flíkur ofan á flíkur eða layering er alltaf heitt á haustin.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Fyrir þá sem eru óvissir um sinn stíl myndi ég segja að það væri aldrei of seint að byrja að prófa sig áfram. Stíll kemur með tímanum og æfingu en sjálfstraustið skiptir mestu. Föt geta akkúrat ýtt undir sjálfstraustið.

Mitt helsta ráð er að finna flíkur sem þér líður vel í og ekki ofhugsa þetta. Í versta falli ertu í þessum klæðaburði í nokkra tíma ef allt fer norður og niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.