Handbolti

Stjarnan sneri leiknum og lagði FH

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Benedikt Marinó skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna í kvöld. 
Benedikt Marinó skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna í kvöld. 

Stjarnan vann 28-23 endurkomusigur gegn FH eftir að hafa verið 14-11 undir í hálfleik, í fjórðu umferð Olís deildar karla.

Hafnfirðingarnir sýndu frumkvæðið, tóku forystuna fyrst um sinn og leiddu með þremur mörkum í hálfleik þó leikurinn hafi oft orðið jafn þess á milli.

Seinni hálfleikur fór hins vegar illa af stað hjá gestunum, fljótlega var Stjarnan búin að jafna og það sem eftir lifði leiks voru heimamenn við völd.

Stjörnustrákarnir komu sér í tveggja marka forystu fyrir lokakaflann og brunuðu svo fram úr síðustu tíu mínúturnar, þangað til þeir sigldu fimm marka sigri í höfn, 28-23.

Gauti Gunnarsson var markahæstur hjá Stjörnunni með sjö mörk en Daníel Karl Gunnarsson og Benedikt Marínó Herdísarson fylgdu honum eftir með fimm mörk hver.

Stjarnan hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir töp í fyrstu tveimur leikjum tímabilsins. Liðin eru því jöfn að stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×