Körfubolti

Yfir­lýsing KKÍ: Hætta ekki við leikinn við Ísrael

Sindri Sverrisson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason og félagar byrja EM á að mæta Ísrael eftir slétta viku.
Tryggvi Snær Hlinason og félagar byrja EM á að mæta Ísrael eftir slétta viku. vísir/Anton

Körfuknattleikssamband Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu í aðdraganda fyrsta leiks Íslands á Evrópumótinu, þegar liðið mætir Ísrael í Katowice í Póllandi eftir slétta viku. KKÍ muni ekki hætta við að mæta Ísraelsmönnum enda sé það ávísun á bönn og sektir.

Þátttaka Ísraels í alþjóðlegum íþróttakeppnum, á meðan ísraelski herinn drepur tugþúsundir saklausra borgara í stríðinu á Gaza, hefur verið afar umdeild. Á þeim 22 mánuðum sem stríðið hefur staðið yfir munu yfir 62.000 Palestínumenn hafa verið drepnir.

Nú síðast settu samtök fótboltaþjálfara á Ítalíu þrýsting á það að fótboltalið frá Ísrael yrðu bönnuð frá alþjóðlegri keppni.

Segjast hafa beitt sér gegn þátttöku Ísraels

Í yfirlýsingu KKÍ segir að ljóst sé að Ísland hafi ekki neitt val um hvaða mótherjum það mæti á EM. Rétt sé að taka fram að sambandið hafi írekað beitt sér innan FIBA Europe og FIBA gegn þeirri ákvörðun að leyfa Ísrael að spila á alþjóðlegum mótum en ekki haft erindi sem erfiði. Ólíklegt sé að það gerist á meðan að Alþjóða Ólympíuhreyfingin banni ekki þátttöku Ísraela.

Þó að Rússar hafi verið bannaðir frá keppni vegna innrásarinnar í Úkraínu þá hefur Ísrael áfram keppt í öllum íþróttum og er skemmst að minnast heimsóknar ísraelska kvennalandsliðsins í handbolta til Íslands í apríl. Þeir leikir fóru fram fyrir luktum dyrum og vann Ísland af öryggi og tryggði sér sæti á HM.

Félagið Ísland-Palestína er á meðal þeirra sem þrýst hafa á íslenska körfuboltalandsliðið að sniðganga leikinn við Ísrael í næstu viku, og taka þannig „skýra afstöðu með mannréttindum og gegn þjóðarmorði“.

Yfirlýsingu KKÍ má lesa í heild sinni hér að neðan en þar kemur fram að með því að sniðganga leikinn við Ísrael eigi sambandið yfir höfði sér bönn og sektir.

Yfirlýsing frá KKÍ vegna leiks við Ísrael á EuroBasket 2025

Vegna spurninga og umræðna í ljósi þess að fyrsti leikur íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik á EuroBasket fer fram gegn Ísrael telur KKÍ rétt að afstaða sambandsins komi fram.

Þátttaka landsins á mótinu er á forræði FIBA Europe og FIBA sem einnig stendur fyrir niðurröðum í riðla og leiki. Þjóðir sem taka þátt hafa eðli málsins samkvæmt ekkert um val á mótherjum að segja. Á meðan IOC (Alþjóðlega Ólympíuhreyfingin) bannar ekki þátttöku Ísraela þá er veik von um að FIBA Europe, FIBA eða önnur helstu álfu/heimssambönd íþróttahreyfingarinnar banni þáttöku Ísraela, eins og staðan er núna.

Rétt er að fram komi að KKÍ hefur bæði innan FIBA Europe og FIBA ítrekað beitt sér gegn ákvörðun þess að leyfa Ísrael að taka þátt í mótum að svo stöddu og mun áfram gera.

KKÍ telur ekki rétt að hætta við þátttöku á EuroBasket.

Ákvarðanir á borð við að hafna því að spila leik á mótinu myndu hins vegar hafa í för með sér fyrirvaralausa brottvísun úr keppni auk hárra fjársekta og mögulegt bann við þátttöku í komandi stórmótum á borð við EuroBasket og heimsmeistaramót.

KKÍ fordæmir að sjálfsögðu allt ofbeldi og mannréttindabrot hvar og hvernig sem þau birtast. Íþróttir eru vettvangur til að byggja brýr og tengja samfélög, þær geta líka verið tækifæri til að vekja umræðu. Ljóst er að slíkt gerist þó ekki með því að hætta þátttöku í alþjóðlegu samstarfi. Önnur landslið í keppnisíþróttum á Íslandi og erlendis hafa tekið sömu eða svipaða afstöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×