Körfubolti

Fyrsti sigur á Svíum í 33 ár og feðgar í aðal­hlut­verki í báðum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Axel Guðmundsson var atkvæðamikill í sigrinum á Svíum eins og faðir hans rúmum þremur áratugum áður.
Jón Axel Guðmundsson var atkvæðamikill í sigrinum á Svíum eins og faðir hans rúmum þremur áratugum áður. Vísir/Anton

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta vann þriggja stiga sigur á Svíum á æfingamóti í Portúgal í gærkvöldi og það var búið að bíða eftir þessum sigri.

Íslenska landsliðið hafði tapað síðustu sjö landsleikjum sínum á móti Svíþjóð og ekki tekist að vinna Svía í rúm 33 ár.

Síðasti sigurinn á undan þessum var á Norðurlandamótinu í Osló í Noregi 8. maí 1992.

Íslenska liðið vann þá sjö stiga sigur, 83-76. Valur Ingimundarson var stigahæstur með 20 stig Guðmundur Bragason skoraði 18 stig og Magnús Helgi Matthíasson var með 17 stig. Aðrir í stórum hlutverkum voru meðal annars Jón Kr. Gíslason (8 stig), Teitur Örlygsson (7 stig), Axel Nikulásson (7 stig) og Tómas Holton (4 stig).

Svo skemmtilega vill til að sonur næststigahæsta leikmanns Íslands i þessum Svíasigri á síðustu öld var stigahæstur í íslenska liðinu í gærkvöldi.

Jón Axel Guðmundsson skoraði 16 stig í gær og var líka með 5 fráköst, 4 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Íslenska liðið vann leikinn 73-70 þar sem Jón Axel skoraði meðal annars fjögur stig í einni sókn á lokakafla leiksins.

Martin Hermannsson var með 14 stig og 4 stoðsendingar, Tryggvi Snær Hlinason skoraði 10 stig og tók 12 fráköst og Elvar Már Friðriksson var með 8 stig og 5 stoðsendingar.

Faðir Elvars, Friðrik Ragnarsson, tók einnig þátt í leiknum 1992.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×