Körfubolti

Ofur­stjarnan Caitlin Clark ekki með í Stjörnu­leiknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Clark hefur eytt meiri tíma utan vallar en hún myndi vilja á leiktíðinni.
Clark hefur eytt meiri tíma utan vallar en hún myndi vilja á leiktíðinni. Brian Fluharty/Getty Images

Caitlin Clark, skærasta stjarna WNBA-deildarinnar í körfubolta, mun ekki taka þátt í stjörnuleik deildarinnar sökum meiðsla. Hún var skráð til leiks í þriggja stiga keppninni og eftirvæntingin mikil enda Clark án efa eitt stærsta nafnið í bandarískum íþróttum í dag.

Hin 23 ára gamla Clark er á sínu öðru tímabili með Indiana Fever og þrátt fyrir að liðið hafi ekki spilað frábærlega á hennar fyrstu leiktíð bar hún af. Það var búist við miklu af Fever í ár en þrálát meiðsli hafa gert Clark og liðinu erfitt fyrir.

Vegna meiðsla hefur ofurstjarnan Clark aðeins tekið þátt í 13 leikjum á leiktíðinni. Hún hefur spilað að meðaltali 31 mínútu í leik, skorað 16,5 stig, gefið 8,8 stoðsendingar og tekið 5 fráköst. 

Clark mun ekki sýna snilli sína í Stjörnuleiknum né þriggja stiga keppninni. Fever greindi frá þessu á samfélagsmiðlum sínum.

„Ég er ótrúlega leið og sorgmædd að ég geti ekki tekið þátt. Ég verð að hvíla líkama minn,“ var meðal þess sem Clark sagði í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×