Handbolti

„Þær vinna þetta Ís­lands­mót sann­gjarnt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stefán Arnarson á hliðarlínunni í kvöld.
Stefán Arnarson á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Ernir

Stefán Arnarson, þjálfari Hauka, var eðlilega svekktur eftir fimm marka tap liðsins gegn Valskonum í kvöld. Tapið þýðir að Valur er Íslandsmeistari þriðja árið í röð.

„Við vorum heilt yfir að spila vel í svona 25 mínútur í fyrri hálfleik,“ sagði Stefán í leikslok.

„Svo koma þarna þrjú mörk og við missum leikmenn í fjórar mínútur út af. Þá kemur þessi munur sem við náum eiginlega aldrei að brúa. Svo vorum við í einhverjar mínútur út af í seinni og það hafði áhrif. En Valur var að spila þetta virkilega vel og þetta er auðvitað frábært lið, bæði þjálfarar og leikmenn, og þau unnu þetta sannfærandi.“

Eftir að hafa lent þremur mörkum undir í lok fyrri hálfleiks unnu Haukar sig aftur inn í leikinn og minnkuðu niður í eitt mark. Gestirnir misstu Val hins vegar fljótt aftur fram úr sér og Stefán segir að leikurinn hafi í raun farið á þeim kafla.

„Þetta fór svolítið á þeim kafla. En heilt yfir gerðum við margt vel í þessum leik. En eins og ég hef alltaf sagt þá erum við að spila á móti sterku Valsliði. Þær eru bara betri en við í dag og vinna þetta Íslandsmót sanngjarnt.“

Þá segir hann erfitt að glíma við Valslið sem virðist hafa svör við öllu sem hann og hans lið hendir í þær.

„Þetta er bara vel þjálfað lið og þær ná að taka taktinn úr sóknarleiknum. Þær eru með klóka leikmenn og leystu það sem við vorum að gera. Við reyndum margt og sumt gekk, en annað ekki.“

Að lokum segist hann þó horfa jákvæðum augum á tímabilið í heild sinni.

„Ég er bara ánægður með tímabilið. Við verðum bikarmeistarar - fyrsti bikar Hauka í kvennaflokki í tuttugu ár - og annað sæti í Íslandsmótinu. Þetta er ungt og efnilegt lið þannig við erum ánægð með veturinn. En ef við hefðum auðvitað viljað gera betur í þessum leikjum,“ sagði Stefán að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×