Körfubolti

Úlfarnir búnir að snúa ein­víginu sér í vil

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Julius Randle keyrir að körfunni.
Julius Randle keyrir að körfunni. Ezra Shaw/Getty Images

Eftir tap í fyrsta leik gegn Golden State Warriors í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum vesturhluta NBA-deildarinnar í körfubolta hefur Minnesota Timberwolves unnið tvo leiki í röð. Það munar um minna að stórskyttan Stephen Curry meiddist í öðrum leik liðanna og var ekki með í nótt.

Eftir fyrsta leik liðanna virtist sem Úlfarnir frá Minnesota væru enn svífandi um á bleiku skýi eftir að leggja Los Angeles Lakers í fimm leikjum á meðan Stríðsmennirnir fóru alla leið í oddaleik gegn Houston Rockets.

Curry meiddist hins vegar í leik tvö og nú hafa Úlfarnir allt í einu unnið tvo leiki í röð. Þó einn besta leikmann allra tíma hafi vantað þá spilaði Golden state virkilega vel í þriðja leik liðanna þökk sé frábærum varnarleik og öflugri sóknarframmistöðu Jimmy Butler og Jonathan Kuminga.

Allt kom þó fyrir ekki þar sem Úlfarnir unnu á endanum fimm stiga sigur eftir að vera sterkari á lokasprettinum, lokatölur 97-102.

Í liði Golden State var það Butler sem var stigahæstur með 33 stig ásamt því að gefa sjö stoðsendingar og taka jafn mörg fráköst. Kuminga skoraði 30 stig, tók sex fráköst og gaf þrjár stoðsendingar.

Anthony Edwards skoraði 36 stig í liði Úlfanna ásamt því að taka fjögur fráköst og gefa jafn margar stoðsendingar. Þá var Julius Randle með þrefalda tvennu. Hann skoraði 24 stig, gaf 12 stoðsendingar og tók 10 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×