Orri er uppalinn í Garðabænum og spilaði upp yngri flokkana í Stjörnunni. Hann kemur heim úr atvinnumennsku frá Swans Gmunden í Austurríki. Hann fluttist til félagsins í fyrra og varð meistari með liðinu strax í fyrsta leik.
Swans Gmunden tókst hins vegar ekki að verja úrvalsdeildartitilinn og féll út í 8-liða úrslitum eftir tap gegn Oberwart Gunners.
Stjarnan tilkynnti svo félagaskipti Orra á samfélagsmiðlum rétt í þessu.
„Eftir að Stjarnan hafði samband gengu hlutirnir hratt fyrir sig og er ég mjög ánægður að vera kominn aftur heim. Ég þekki vel til í Garðabænum og hlakka til að komast aftur á parketið í Ásgarði“ sagði Orri Gunnarsson við undirritun samningsins.
Stjarnan endaði í 9. sæti deildarinnar á nýafstöðnu tímabili og missti af sæti í úrslitakeppninni.
Liðið hefur styrkt sig mikið það sem af er undirbúningstímabilsins.
Bjarni Guðmann Jónsson gekk til liðs við Stjörnuna á dögunum en hann kemur úr háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Þá skrifaði Kristján Fannar Ingólfsson undir framlengingu í gær, líkt og Júlíus Orri Ágústsson sem gekk frá framlengingu í síðasta mánuði.