Skoðun

Verndari samfélagssáttmálans

Ásdís Hanna Pálsdóttir skrifar

Ég styð Baldur Þórhallsson til embættis forseta Íslands vegna þess að ég veit að hann verður þjóðinni góður liðsmaður á jafnréttisgrundvelli hér heima og ég veit líka að við verðum stolt af honum sem fulltrúa okkar á alþjóðavettvangi.

Baldur sér forseta Íslands sem verndara samfélagssáttmálans, þeirra viðmiða sem við höfum komið okkur saman um og hafa reynst okkur svo vel. Hann lítur svo á að hlutverk forseta sé að tryggja að við horfum á það sem sameinar okkur, frekar en það sem sundrar. Það er falleg og auðmjúk sýn á æðsta embætti þjóðarinnar.Ég vil forseta sem stendur að baki þjóð sinni með jákvæðnina að vopni og er laus við allt dramb. Ég vil forseta sem hefur ávallt deilt kjörum með þjóð sinni en er líka vel heima í alþjóðamálum og hefur sérstaklega lagt sig fram um að skoða stöðu smáríkja í heiminum og hvernig þau geta látið til sín taka.Forsetinn er sameiningartákn og hann á beint og milliliðalaust samband við þjóðina. Hlutverk hans, öllu öðru framar, er að hafa heildarhagsmuni þjóðarinnar ávallt efst í huga. Við veljum okkur forseta sem mikilvægan hlekk í stjórnskipan okkar.

Baldur er manna hæfastur til að gegna embættinu, allt líf hans og starf hingað til ber þess fagurt vitni. Ég veit líka að hann er kjarkmaður og ef Alþingi, í einhverju dægurþrasinu, fer fram úr sér og brýtur gegn samfélagssáttmálanum treysti ég honum til að vísa málum beint til þjóðarinnar. Hann hefur sjálfur sagt að þetta gæti til dæmis átt við ef til stæði að takmarka tjáningarfrelsi, réttindi kvenna eða hinsegin fólks. Okkur finnst það kannski fjarstæðukennt að slíkt gæti gerst, en því miður hefur nokkuð borið á bakslagi í mannréttindum af öllum toga undanfarin misseri og við eigum ekki að ganga út frá að við séum ónæm fyrir slíku.

Forsetinn er varðmaður gildanna okkar og hann þarf að þekkja þau og vera reiðubúinn að tala tæpitungulaust fyrir þeim.

Ég treysti Baldri Þórhallssyni manna best til þess.
Skoðun

Sjá meira


×