Körfubolti

Wembanyama fylgir í fót­spor goð­sagna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Victor Wembanyama gæti leikið eftir árangur tveggja af stærstu goðsögnum í sögu San Antonio.
Victor Wembanyama gæti leikið eftir árangur tveggja af stærstu goðsögnum í sögu San Antonio. Getty/FotoJet

Victor Wembanyama og Chet Holmgren hlutu einróma kosningu í úrvalslið nýliða í NBA deildinni. Wembanyama er á góðri leið með að leika eftir árangur sem aðeins tveir menn í sögu NBA hafa náð. 

Báðir hlutu 99 af 99 atkvæðum mögulegum. Þetta kemur kannski ekki mörgum á óvart enda voru þeir einnig langefstir í valinu um nýliða ársins.

Ásamt þeim tveimur í úrvalsliði nýliða eru Brandon Miller (Charlotte Hornets), Jamie Jaquez Jr. (Miami Heat) og Brandin Podziemski (Golden State Warriors).

Síðar í kvöld verður úrvalslið varnarmanna (e. All-Defensive) kynnt. Victor Wembanyama verður væntanlega þar á blaði en hann endaði í öðru sæti á eftir Rudy Gobert í kosningu um varnarmann ársins.

Á miðvikudagskvöld verða svo úrvalslið allra leikmanna kynnt (e. All-NBA Team).

Ef Wembanyama nær inn í  úrvalslið varnarmanna og úrvalslið allra verður hann aðeins þriðji nýliðinn í sögunni sem nær þeim árangri. David Robinson (1990) og Tim Duncan (1998) eru hinir tveir, en báðir voru þeir einmitt miðherjar sem San Antonio Spurs valdi fyrst í nýliðavalinu, líkt og Wembanyama.

Aðeins fimm nýliðar hafa náð inn í úrvalslið varnarmanna. 22 nýliðar hafa náð inn í úrvalslið allra, en undanfarin 45 ár hafa aðeins fjórir menn náð þeim árangri. Þeir eru Tim Duncan, David Robinson, Michael Jordan og Larry Bird.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×